"Þessi tilkynning er upprunalega birt á vefsetri Seðlabanka Íslands. Hún hefur ekki verið birt opinberlega á Evrópska efnahagssvæðinu af hálfu Seðlabanka Íslands, sbr. skilgreiningu laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.
Vísað er til vefseturs Seðlabanka Íslands http://sedlabanki.is
Seðlabanki Íslands hefur breytt útboðsskilmálum vegna kaupa bankans á íslenskum krónum í skiptum fyrir erlendan gjaldeyri, en útboðið sem auglýst var 25. maí s.l. fer fram 16. júní 2016. Breyting var gerð á orðalagi 4. gr. skilmálanna til að árétta að samsetning magntilboða og gildra verðtilboða komi til með að mynda lægsta mögulega kaupverð á krónum í skiptum fyrir evrur í útboðinu. Enn fremur var 5. gr. útboðsskilmálanna breytt til samræmis við breytingar á 4. gr. ásamt því að ekki er lengur gerður áskilnaður í 5. gr. um að tilboðum undir 190 kr. pr. evru verði hafnað að fullu.
Breytingin gerir Seðlabankanum kleift að afla sem bestrar vitneskju um hug aflandskrónaeigenda til verðlagningar krónanna. Taflan í 4. gr., sem spannar liðlega helminginn af magni þekktra aflandskrónaeigna, veitir eftir sem áður tryggingu fyrir ákveðnu útboðsverði ef magnið uppfyllir tilskilin skilyrði. Með breyttum útboðsskilmálum eru tekin af tvímæli um að þrátt fyrir niðurstöður útboðsins gæti SÍ ákveðið hagstæðara útboðsverð en taflan tiltekur. Sem fyrr munu allir aflandskrónaeigendur fá sama verð fyrir krónurnar þar sem útboðið er framkvæmt með „single price“ útboðsfyrirkomulagi og gildir þá einu hvort tekið verður lægra útboðsverði en taflan greinir. Rétt er að árétta að sem fyrr áskilur Seðlabankinn sér rétt til að samþykkja öll tilboð sem berast, hafna þeim að hluta eða hafna þeim öllum.
Sjá nánari upplýsingar um gjaldeyrisútboðið hér.