"Þessi tilkynning er upprunalega birt á vefsetri Seðlabanka Íslands. Hún hefur ekki verið birt opinberlega á Evrópska efnahagssvæðinu af hálfu Seðlabanka Íslands, sbr. skilgreiningu laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.
Vísað er til vefseturs Seðlabanka Íslands http://sedlabanki.is
Með lögum nr. 105/2016, um breytingu á lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, (losun fjármagnshafta), sem tóku gildi hinn 21. október sl. var m.a. losað um takmarkanir á fjárfestingum einstaklinga erlendis. Þeir geta nú nýtt fjárfestingarheimildir hjá erlendum vátryggingafélögum vegna samninga um greiðslu iðgjalda til söfnunar lífeyrissparnaðar í séreign, viðbótartryggingaverndar eða reglubundins sparnaðar.
Haustið 2014 gerði Seðlabanki Íslands samkomulag við erlend tryggingafélög um tryggingasamninga sem fela í sér sparnað erlendis, sbr. t.d. frétt Seðlabankans nr. 32/2014. Samkomulagið gerði félögunum kleift að viðhalda óbreyttu samningssambandi við viðskiptavini sína hér á landi án þess að það hefði neikvæð áhrif á greiðslujöfnuð Íslands. Þá var markmiðið með samkomulaginu enn fremur að stuðla að jafnræði meðal aðila á sama markaði. Samkomulagið skyldi gilda svo lengi sem takmarkanir laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál um gerð slíkra samninga væru við lýði. Nú hefur verið losað um þessar takmarkanir og fellur samkomulagið við erlendu tryggingafélögin því úr gildi. Seðlabankinn hefur heimilað erlendu tryggingafélögunum að flytja úr landi innstæður sem þau höfðu byggt upp í Seðlabankanum á grundvelli samkomulagsins, samtals að fjárhæð 13,5 milljónir evra.
Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 569-9600.