Góð staða þrátt fyrir gengistap
Helstu atriði ársreikningsins:
- Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam 49,7 milljónum USD (5.999,4 millj.kr.)[1] samanborið við 56,8 milljónir USD (6.855,9 millj.kr) árið áður. Lækkunin er um 7,1 milljón USD (856,5 millj.kr) á milli ára og skýrist aðallega af hækkun afskrifta.
- Tap samkvæmt rekstrarreikningi nam 13,0 milljónum USD (1.564,7 millj.kr) á árinu 2016 samanborið við 30,4 milljónir USD (3.669,8 millj.kr.) hagnað á árinu 2015.
- Unnið var að endurfjármögnun félagsins á árinu þar sem fjármögnun félagsins var að miklu leyti breytt yfir í bandaríkjadal í samræmi við nýjan starfrækslugjaldmiðil félagsins. Gefin voru út skuldabréf, 200 milljónir USD, í lokuðu skuldabréfaútboði í Bandaríkjunum í desember 2016. Greitt var inn á verðtryggt krónulán frá stærsta eiganda félagsins og eftirstöðum skuldbreytt í bandaríkjadali. Í árslok var um 80% af fjármögnun félagsins komin yfir í bandaríkjadali samkvæmt stefnu stjórnar.
- Lausafjárstaða félagsins er sterk, handbært fé í lok árs nam 18,3 milljónum USD (2.202,6 millj.kr.) og handbært fé frá rekstri á árinu nam 52,4 milljónum USD (6.322,6 millj.kr.).
Í byrjun árs 2016 var starfrækslugjaldmiðli Landsnets breytt og er þetta því fyrsta árið sem fyrirtækið er gert upp í bandarískum dal. Fjármögnun félagsins var að mestu leiti í íslenskum krónum og því var niðurstaða ársins Landsneti óhagstæð vegna mikillar styrkingar krónunnar.
Á árinu var unnið að endurfjármögnun fyrirtækisins og náðist stór áfangi í þeim efnum í lok árs þegar fyrirtækið gaf út 200 milljónir USD skuldabréf í lokuðu skuldabréfaútboði fyrir fagfjárfesta í Bandaríkjunum.
Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets segir að með breyttri fjármögnun fyrirtækisins hafi verið dregið úr gengisáhættu og hagstæðari vaxtakjör náðust. Með þeim breytingum sem gerðar voru á fjármögnun félagsins hefur gengisáhættan minnkað verulega og fjármagnskostnaður fyrirtækisins lækkaður sem mun koma neytendum til góða í framtíðinni.
„Það er jákvætt að sjá að rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir er góður og í takt við áætlanir. Rekstur Landsnets stendur á mjög traustum grunni og má nær eingöngu skýra tap fyrirtækisins með styrkingu krónunnar á árinu og áhrif þess á fjármagnskostnað. Fyrirtækið var áður með um 80% af fjármögnun sinni bundna í stofnlán frá stærsta eigandanum og var lánið verðtryggt í íslenskum krónum án afborgunarheimildar til ársins 2020. Á árinu áttu sér stað viðræðum við lánveitendur og var stórt skref stigið þegar samningar náðust um innborgun inn á stofnlánið og skuldbreytingu eftirstöðva þess í árslok 2016. Breytt fjármögnun skilar okkur hagstæðari kjörum auk þess sem dregið er úr gengisáhættu.”
Nánar á www.landsnet.is þar sem hægt er að nálgast ársreikninginn.
Nánari upplýsingar veitir Guðlaug Sigurðardóttir framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landsnets, sími 563-9300 eða netfang gudlaugs@landsnet.is