Mosfellsbær - Ársreikningur 2016

Afgangur af rekstri ársins


Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2016 var lagður fram í bæjarráði í dag og jafnframt tekin til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

Tekjur ársins námu alls 9.105 milljónum,  launakostnaður 4.151 milljónum og annar rekstrar­kostnaður 3.640 milljónum. Framlegð nemur því 1.314 milljónum en að teknu tilliti til fjármagnsliða er rekstrarafgangur A og B hluta 380 milljónir. Rekstrarniðurstaða án fjármagnsliða nam 977 milljónum eða tæplega 11% af tekjum.

Veltufé frá rekstri er 1.109 milljónir eða rúmlega 12% af tekjum. Eigið fé í árslok nam 4.681 milljónum og eiginfjárhlutfall 29,4%. Skuldaviðmið er 108,5% sem er vel innan þess 150% hámarks sem kveðið er á um í lögum.

Rekstrarniðurstaða A og B hluta er talsvert betri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins. Það má helst skýra með hærri óreglulegum tekjum vegna lóðasölu og byggingarréttargjöldum og lægra verðlagi en gert var ráð fyrir, sem hefur áhrif á fjármagnsliði. 

Framundan er áframhaldandi uppbygging innviða í Mosfellsbæ. Á síðustu árum hefur verið verið lögð áhersla á uppbyggingu framhaldsskóla, íþróttahús, hjúkrunarheimili og stórbætt aðstaða fyrir félagsstarf eldri borgara. Stærsta verkefnið sem sveitarfélagið hefur með höndum nú er bygging Helgafellsskóla. Það er leik- og grunnskóli í nýbyggingarhverfi í hraðri uppbyggingu sem áætlað er að muni kosta um 3500 milljónir á næstu tíu árum.

Skuldastaða sveitarfélagsins er vel viðunandi miðað við þá uppbyggingu sem átt hefur sér stað á undanförnum árum. Sú uppbygging er í samræmi við markmið sveitarfélagsins um góða heildstæða þjónustu við alla aldurshópa og fjölgun íbúa.

Íbúar Mosfellsbæjar voru 9.783 um síðustu áramót og hafði fjölgað um 3% á milli ára sem er í samræmi við spár þar um. Gert er ráð fyrir að íbúafjöldinn fari yfir 10 þúsund á þessu ári. Mosfellsbær er sjöunda fjölmennasta sveitarfélag landsins og þar störfuðu 619 starfsmenn í 509 stöðugildum á árinu 2016.

Fjárhagsstaða Mosfellsbæjar er traust og reksturinn ábyrgur. Fræðslumál eru langstærsti málaflokkurinn en til hans runnu 3.604 milljónir eða 51% skatttekna. Til félagsþjónustu var veitt 1.382 milljónum og eru þar meðtalin málefni fatlaðs fólks. Íþrótta- og tómstundamál eru þriðja stærsta verkefni bæjarins en til þeirra mála var varið um 803 milljónum. Samtals er því 82% skatttekna Mosfellsbæjar varið til fræðslu-, félagsþjónustu, íþrótta- og tómstundamála.

 

Ársreikningurinn verður tekinn til seinni umræðu í bæjarstjórn þann 19. apríl 2017.

 

Nánari upplýsingar veitir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri í síma 862 0012


Attachments

Mosfellsbær ársreikningur 2016 með áritun bæjarráðs.pdf