Fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar fyrir árið 2018 er lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn Kópavogs í dag.
Ríflegur rekstrarafgangur, niðurgreiðsla skulda, áhersla á mennta- og lýðheilsumál eru meðal þess sem fram kemur í fjárhagsáætluninni. Eins og undanfarin ár eru ekki tekin lán fyrir framkvæmdum bæjarins. Þriðja árið í röð er fjárhagsáætlun unnin í samstarfi allra flokka.
Rekstrarafgangur Kópavogsbæjar verður 824 milljónir 2018 samkvæmt áætluninni. Skuldahlutfall heldur áfram að lækka hratt og verður 127% í árslok samkvæmt áætluninni en það hefur lækkað úr 175% frá árinu 2014. Gert er ráð fyrir að lækkun skulda verði vel á þriðja milljarð.
„Við erum komin á þann stað að við getum framkvæmt af krafti um leið og við eflum grunnþjónustuna, greiðum niður skuldir og lækkum skatta. Þetta hefur tekist með góðu aðhaldi og metnaði á kjörtímabilinu. Kópavogsbær hefur allt til að bera til að vera með einn hagkvæmasta rekstur allra sveitarfélaga landsins,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs.
Í áætluninni endurspeglast áhersla bæjarins á velferð íbúa. Nefna má að félagslegum íbúðum verður fjölgað og barnaverndin styrkt. Málefni aldraðra verða í forgangi, gjald fyrir heimsendan mat til aldraðra lækkar og álagningarhlutfall fasteignagjalda einnig, bæði á íbúðir og atvinnuhúsnæði.
Unnið verður að verkefnum sem tengjast lýðheilsu í bænum í samræmi við nýsamþykkta lýðheilsustefnu en ráðinn hefur verið lýðheilsufræðingur til þess að fylgja aðgerðaáætlun stefnunnar eftir.
Í menntamálum má nefna að á næsta ári verða námsgögn án endurgjalds. Þá tengjast stærstu framkvæmdir sveitarfélagsins menntamálum. Á næsta ári hefst bygging húsnæðis fyrir Skólahljómasveit Kópavogs, framkvæmdum við íþrótta- og fimleikahús við Vatnsendaskóla lýkur og stefnt er að því að hefja framkvæmd við nýjan skóla á Kársnesi.
Skóla- og leikskólalóðir verða endurnýjaðar í samræmi við verkefnið skemmtilegri leikskólal- og skólalóðir.
Unnið verður að endurnýjun gervigrasvalla og þjónustuaðstaða sundlauganna endurnýjuð. Þá er 95 milljónum varið í göngu- og hjólreiðastíga sem er veruleg aukning frá 2017.
Á næstu tveimur árum verður 200 milljónum varið í íbúalýðræðisverkefnið Okkar Kópavogur. Verkefninu var fyrst hleypt af stokkunum 2016 og er það nú í gangi í annað sinn. Á næsta ári verður kosið og hafist handa við framkvæmdir en á árunum 2016-2017 voru 34 hugmyndir íbúa framkvæmdar sem sett hafa svip á bæjarfélagið.
Unnið hefur verið að ítarlegri viðhaldsáætlun fyrir allar byggingar bæjarins og verður hafist handa við að vinna samkvæmt henni á næsta ári. 100 milljónum verður varið til viðhaldsverkefna til viðbótar við það sem gert var í ár, og er alls þá 490 milljónum varið í ýmis viðhaldsverkefni.
Álagningarhlutfall vegna fasteignagjalda á íbúðarhúsnæði lækkar sjötta árið í röð. Fer úr 0,255 % í 0,23% á íbúðum. Þá lækkar álagningarhlutfall vegna atvinnuhúsnæðis úr 1,62% í 1,60 í atvinnuhúsnæði auk þess sem vatns- og holræsagjöld lækka umtalsvert.
Veltufé frá rekstri samstæðunnar eru 4 milljarður.
Þess má loks geta að óreglulegar tekjur á borð við sölu byggingarréttar eru ekki teknar inn í fjárhagsáætlun en undanfarin ár hafa þær verið notaðar til að greiða niður skuldir.