"Þessi tilkynning er upprunalega birt á vefsetri Seðlabanka Íslands. Hún hefur ekki verið birt opinberlega á Evrópska efnahagssvæðinu af hálfu Seðlabanka Íslands, sbr. skilgreiningu laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.
Vísað er til vefseturs Seðlabanka Íslands http://sedlabanki.is
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 4,25%.
Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt er í nóvemberhefti Peningamála hægir töluvert á hagvexti í ár og meira en bankinn spáði í ágúst. Spáð er 3,7% hagvexti í ár en í fyrra var hann 7,4%. Fer þar saman hægari vöxtur útflutnings, eftir hraðan vöxt undanfarin ár, um leið og nokkuð bætir í vöxt innflutnings.
Horfur eru á að verðbólga fari í markmið um mitt næsta ár og verði þar út spátímann. Dregið hefur úr verðhækkunum á húsnæðismarkaði en það mun stuðla að minni verðbólgu haldi þróunin áfram en á móti fjara áhrif hærra gengis út. Frá síðasta fundi peningastefnunefndar hefur gengi krónunnar hækkað. Þá hefur gengisflökt minnkað síðustu mánuði. Verðbólguvæntingar eru í ágætu samræmi við verðbólgumarkmiðið og virðast gengissveiflur á árinu hafa haft tiltölulega lítil áhrif á verðbólgu og verðbólguvæntingar.
Vísbendingar eru um að spennan í þjóðarbúskapnum kunni að hafa náð hámarki. Hún verður þó áfram umtalsverð en það kallar á peningalegt aðhald svo að tryggja megi verðstöðugleika til meðallangs tíma. Minni spenna og betri verðbólguhorfur eru í samræmi við það sem peningastefnunefndin gerði ráð fyrir í október og raunvextir bankans eru svipaðir og þeir voru eftir ákvörðunina þá. Núverandi aðhald peningastefnunnar virðist að svo stöddu duga til þess að verðbólga verði að jafnaði við markmið. Hvort það reynist rétt mun á komandi misserum ráðast af framvindu efnahagsmála, þ.m.t. stefnunni í opinberum fjármálum og niðurstöðu kjarasamninga.