Ársreikningur Landnets fyrir árið 2017


Jafnvægi í rekstri
 - eitt stærsta framkvæmdaár í sögu Landsnets

Ársreikningur 2017 var samþykktur á fundi stjórnar í dag 7. febrúar 2018.

Helstu atriði ársreikningsins: 

  • Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam 59,3 milljónum USD (6.336,1 millj.kr.)[1]  samanborið við 49,7 milljónir USD (5.308,8 millj.kr) árið áður.Hækkunin er um 9,6 milljón USD (1.027,3 millj.kr) á milli ára og skýrist aðallega af breytingum á gjaldskrám og áhrifum af styrkingu krónunnar.
  • Hagnaður nam 28,0 milljónum USD (2.991,2 millj.kr) á árinu 2017 samanborið við 13,0 milljónir USD (1.384,6 millj.kr.) tap á árinu 2016.
  • Endurfjármögnun langtímalána í lok árs 2016 til samræmis við starfrækslugjaldmiðil Landsnets, skapaði jafnvægi í rekstri félagsins. Áhætta félagsins vegna gjaldmiðla hefur minnkað töluvert og eru heildaráhrif af styrkingu krónunnar ekki mikil í rekstri.
  • Lausafjárstaða félagsins er sterk, handbært fé í lok árs nam 49,2  milljónum USD og handbært fé frá rekstri á árinu nam 68,7 milljónum USD. Með sterkri lausafjárstöðu og nýrri lántöku hefur félagið tryggt fjármögnun áætlaðra framkvæmda ársins 2018.
     

Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri segir árið 2017 hafa verið met framkvæmdaár og að stöðugleiki hafi verið í rekstrinum.
 

„Rekstur ársins var í takt við áætlanir hjá okkur og það er ánægjulegt að sjá að sú vinna sem við höfum verið í skilar stöðugum rekstri í stað mikilla sveifla sem áður voru. Endurfjármögnun langtímalána á hagstæðum kjörum, færsla yfir í bandaríkjadali ásamt endurbótum á ferlum skapaði það jafnvægi í rekstri sem vænst var til. Áhætta félagsins vegna gjaldmiðla hefur minnkað töluvert og eru áhrif af styrkingu krónunnar ekki mikil í rekstrinum. Þetta ár er eitt af stærstu framkvæmdaárum fyrirtækisins og er ánægjulegt að sjá að framkvæmdakostnaðurinn var að mestu í samræmi við áætlanir þrátt fyrir miklar tafir í stórum verkefnum. Áfram var greitt niður lán frá móðurfélaginu til að draga úr áhættu í endurfjármögnun vegna gjalddaga ársins 2020. Framundan eru miklar áskoranir við að tryggja aðgang allra landsmanna að nægu öruggu rafmagni, spara orku og byggja kerfi sem nýtir betur  núverandi virkjanir. Landsnet er vel í stakk búið til að takast á við þær.“

Nánar á www.landsnet.is þar sem hægt er að nálgast ársreikninginn.

______________________________________________________________________________


Helstu niðurstöður rekstrarreiknings, lykiltölur efnahagsreiknings og kennitölur (fjárhæðir eru í þúsundum bandaríkjadala):
 

Rekstrarreikningur

  • Rekstrartekjur námu 147,3 milljónum USD árið 2017 á móti 129,7 milljónum USD árið áður.
  • Tekjur af flutningi til stórnotenda stóðu nánast í stað á milli ára, en magnaukning í afhendingu til stórnotenda á árinu 2017 dró úr áhrifum af lækkun gjaldskrá á miðju ári 2016.
  • Tekjur af flutningi til dreifiveitna jukust um 12,3 milljónir USD á árinu. Ástæður þess má rekja til þriggja atriða. Í fyrsta lagi hækkaði gjaldskrá til dreifiveitna um 8,5% í ágúst 2017 en á árunum 2008-2016 hafði gjaldskrá til dreifiveitna ekki haldið verðgildi sínu og lækkað að raunvirði. Félaginu eru reiknaðar tekjur á grundvelli raforkulaga og var hækkun ársins ákvörðuð á þeim grunni. Í öðru lagi kemur styrking krónunnar fram sem auknar tekjur þar sem gjaldskrá til dreifiveitna er í ISK og í þriðja lagi jukust tekjur vegna skerðanlegs flutnings.
  • Tekjur vegna sölu á kerfisþjónustu og orkutapa í flutningskerfinu jukust um 5,5 milljónir USD á milli ára. Gjaldskrá vegna orkutapa hækkaði um 10,5% 1. janúar og gjaldskrá vegna kerfisþjónustu hækkað 1. mars um 2,14%.  Hækkanir má rekja til hærra innkaupsverðs á þessum liðum og stöðu fyrra árs, en gjaldskrá er sett á kostnaðargrunni með 1,5% álagi. 
  • Rekstrargjöld hækka um 8,0 milljón USD á milli ára en þar af er hækkun á innkaupum á kerfisþjónustu og töpum um 4,3 milljónir USD sem skýrist af hærra innkaupaverði. Þá hækkar innlendur rekstrarkostnaður vegna styrkingar krónunnar.
  • Í rekstri nam styrking krónunnar gagnvart bandaríkjadal á milli ára um 11,5%. Áhrif þess í rekstri félagsins kemur fram í auknum tekjum og hækkun rekstrarkostnaðar. Í heild hefur styrkingin óveruleg áhrif á rekstrarhagnað fyrir fjármagnsliði.
  • Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam 59,3 milljónum USD samanborið við 49,7 milljónir USD árið áður og hækkar um 9,6 milljón USD á milli ára.
  • Hrein fjármagnsgjöld nema samtals 24,4 milljónum USD en voru 66,2 milljónir USD á árinu 2016. Hrein fjármagnsgjöld lækka um 41,7 milljónir USD á milli ára og liggur helsta skýring þess í minnkandi áhrifum íslensku krónunnar í lánasafninu. Í lok árs 2016 var gengið frá endurfjármögnun að stærstum hluta lánasafnins yfir í USD og í lok árs 2017 voru 82,5% af langtímalánum félagsins í þeirri mynt.
  • Hagnaður Landsnets hf. samkvæmt rekstrarreikningi nam 28,0 milljónum USD á árinu 2017 samanborið við tap að fjárhæð 13,0 milljónum USD á árinu 2016 og liggur breytingin á milli ára að megninu til í hagstæðari fjármagnsskipan og lægri gengismun.
  • EBITDA félagsins hækkaði á milli ára og var á árinu 2017 87,8 milljónir USD (9.377,6  millj.kr.) í samanburði við 79,2 milljónir USD (8.453,5 millj.kr.) árið áður. Hækkun EBITDA á milli ára má að mestu rekja til hækkunar á gjaldskrá til dreifiveitna.

Efnahagsreikningur og sjóðstreymi

  • Heildareignir félagsins í árslok námu 851,3 milljónum USD samanborið við 770,8 milljónir USD í lok árs 2016.
  • Heildarskuldir námu í árslok 514,3 milljónum USD samanborið við 462,4 milljónir USD í lok árs 2016.
  • Lausafjárstaða félagsins er sterk. Í lok árs nam handbært fé 49,2 milljónum USD og  handbært fé frá rekstri á árinu nam 68,7 milljónum USD
  • Eiginfjárhlutfall í árslok var 39,6% samanborið við 40,0% árið áður.


Horfur í rekstri

Áætlanir félagsins fyrir árið 2018 gera ráð fyrir 27,9 milljóna USD hagnaði af rekstri félagsins. Í tekjuáætlun er byggt á þeim magn- og verðbreytingum sem félagið hefur vitneskju um. Kostnaðaráætlun er byggð á raunkostnaði við rekstur félagsins að teknu tillliti til þeirra viðmiða sem ákvörðun tekjumarka felur í sér. Áætlanir félagsins um framkvæmdir á árinu liggja í um 70 milljónum USD og hefur félagið tryggt sér fjármögnun á þeim bæði með handbæru fé og nýjum lántökum. Enn er óvissa tengd einhverjum þeirra verkefna sem lýtur að leyfisveitingum og kærum. Á árinu verður áfram unnið að breytingum á lánasafni í takt við stefnu stjórnar með það að markmiði að fjármagna framkvæmdir næstu ára, lengja í afborgunarferlum og afla hagstæðari kjara.

Um ársreikninginn

Ársreikningur Landsnets hf. 2017 er gerður samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS). Uppgjör Landsnets er  í Bandaríkjadölum (USD), sem er starfrækslugjaldmiðill félagsins. Ársreikningurinn var samþykktur á fundi stjórnar 7. febrúar 2017

Um Landsnet

Landsnet tók til starfa árið 2005 og ber ábyrgð á flutningskerfi raforkunnar, einum af mikilvægustu innviðum samfélagsins. Hlutverk félagsins er að annast flutning raforku á Íslandi, uppbyggingu flutningskerfisins og stjórnun raforkukerfisins.


Nánari upplýsingar gefur Guðlaug Sigurðardóttir framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landsnets, sími 563-9300 eða á netfanginu gudlaugs@landsnet.is
 


Nánar á www.landsnet.is  þar sem hægt er að nálgast ársreikninginn.
 

 

[1] Til viðmiðunar eru sýndar íslenskar krónur, notast var við gengi USD/ISK 106,78

 

 


Attachments

Landsnet Fréttatilkynning ársreikn 2017.pdf Ársreikningur Landsnets 2017.pdf