Afkoma í samræmi við væntingar


Afkoma í samræmi við væntingar

Umfang uppgreiðslna lána sjóðsins heldur áfram að aukast



  • Rekstrarafgangur Íbúðalánasjóðs nam 1.474 milljónum króna á tímabilinu
  • Hagræðingaraðgerðir undanfarinna ára hafa nú skilað sér að fullu og ný verkefni eru á áætlun
  • Eiginfjárhlutfall er 9,11% og hefur ekki verið hærra frá stofnun sjóðsins
  • Útlán í vanskilum eru 2,0 % miðað við 2,1 % í árslok 2017
  • Innleiðing IFRS 9 og aukin gæði lánasafns hafa áhrif á afkomu tímabilsins


Árshlutareikningur Íbúðalánasjóðs fyrir árið 2018 var staðfestur af stjórn sjóðsins í dag. Rekstrarafgangur tímabilsins var sem nemur 1.474 milljónum króna. Eiginfjárhlutfall sjóðsins er nú 9,11% sem er sú hæsta frá stofnun Íbúðalánasjóðs en langtímamarkmið sjóðsins er að hlutfallið sé yfir 5,0%. Eigið fé Íbúðalánasjóðs í lok tímabilsins er 24.502 milljónir króna en var 24.894 milljónir króna þann 31. desember 2017. Heildareignir sjóðsins nema 751 milljarði  og heildarskuldir nema 727 milljörðum.

Umfang uppgreiðslna á eldri lánum sjóðsins heldur áfram að aukast . Stjórn og  stjórnvöld hafa lagt áherslu á að finna lausn sem dragi úr áhættu ríkisins vegna áhrifa uppgreiðslna á afkomu Íbúðalánasjóðs til framtíðar og til skoðunar er hvernig hægt sé að nýta lánasafnið betur til að draga úr misvægi eigna og skulda sjóðsins. Félags- og jafnréttismálaráðherra hefur óskað eftir tilnefningum og hyggst skipa starfshóp um hvernig hið opinbera getur dregið úr áhættu ríkissjóðs vegna uppgreiðslnanna.

Rekstur sjóðsins

Ekki hefur verið fært vaxtaframlag frá ríkissjóði í árshlutareikninginn að fjárhæð 299 millj. kr.  til að bæta tapaðar vaxtatekjur á tímabilinu vegna höfuðstólslækkunar verðtryggða fasteignalána sbr. lög nr. 35/2014 þar sem ekki hefur náðst samkomulag um greiðslu bótanna.  Hreinar vaxtatekjur eru því lægri sem því nemur.

 Rekstrarkostnaður tímabilsins var 959  millj. kr. og hækkar hann um 13,7% samanborið við sama tímabil árið áður vegna yfirtöku sjóðsins á framkvæmd húsnæðisbóta. Rekstur húsnæðisbóta er fjármagnaður á fjárlögum. Stöðugildum fjölgaði um 15 samtals vegna húnæðisbóta. Íbúðalánasjóður hefur greitt 81 millj.kr.  á tímabilinu til reksturs annarra ríkisstofnana, þ.e. embætti umboðsmanns skuldara og Fjármálaeftirlitsins, eða sem nemur  17%% af öðrum rekstrarkostnaði sjóðsins.

Mikil hagræðing hefur verið innan Íbúðalánasjóðs undafarin ár og starfsemin verið aðlöguð minnkandi umsvifum hans á lánamarkaði. Rekstrarkostnaður sjóðsins hefur alls lækkað um 66% frá árinu 2013 á verðlagi hvers árs. Þessi hagræðing hefur náðst fram þrátt fyrir að sjóðurinn hafi nú með höndum mörg ný verkefni. Meðal annars annast hann nú afgreiðslu nær meirihluta alls opinbers húsnæðisstuðnings, sinnir umfangsmikilli greiningarvinnu og upplýsingagjöf og hefur víðtækt hlutverk þegar kemur að stefnumótun í húsnæðismálum.


Uppgreiðslur á útlánum sjóðsins hafa áhrif á hreinar vaxtatekjur

Í lok tímabilsins voru útlán sjóðsins 463 milljarðar króna og höfðu þau dregist saman um 37 milljarða króna frá áramótum. Helstu áskoranirnar í rekstri sjóðsins tengjast uppgreiðslum á eldri útlánum sem haft hafa vaxandi neikvæð áhrif á hreinar vaxtatekjur hans. Eftir því sem stærra hlutfall fjármuna efnahags sjóðsins er utan lánasafns dregur úr jöfnuði á milli eigna og skulda sjóðsins sem hefur neikvæð áhrif á afkomu hans, sérstaklega þegar til lengri tíma er litið. Sjóðurinn hefur hins vegar uppsafnað lausafé til þess að mæta greiðsluflæði útistandandi skulda í fyrirsjáanlegri framtíð.

Sjóðurinn er í dag vel yfir þeim eiginfjárkröfum sem gerðar eru. Eignir utan lánasafns nema í lok tímabilsins 37% af heildareignum eða samtals 276 milljarða kr.  Eignir og skuldir greiðast jafnt og þétt niður samkvæmt skilmálum en hafa líftíma til ársins 2044 sem er lokagjalddagi skulda.


Þróun vanskila og gæði lánasafns

Útlán í vanskilum nema nú 2,0% af heildarlánum en voru 2,1% í árslok 2017. Í lok tímabilsins er fjárbinding vegna fullnustueigna 5.541 millj. kr. og lækkaði um 1.090 millj. kr. á milli tímabila en 99 eignir voru seldar á tímabilinu. Sjóðurinn átti 333 íbúðir í lok tímabilsins. Útlán í vanskilum námu 6.700 millj. kr. að kröfuvirði, þar af voru   1.923 millj. kr. gjaldfallnar. Á afskriftareikningi útlána voru 6.622 millj. kr. í lok tímabilsins og dróst  afskriftareikningur saman um 296 millj. kr. frá áramótum. Um 98% af bókfærðu virði lánasafns Íbúðalánasjóðs liggur á veðbili innan við 90% af fasteignamati við lok tímabilsins. Fasteignaverð hefur hækkað umfram verðlag á tímabilinu og vanskil minnkað umtalsvert sem  bætt hefur tryggingarstöðu lánasafnsins.


Íbúðalánasjóður verður Húsnæðisstofnun

Hlutverki Íbúðalánasjóðs var breytt á nýafstöðnu þingi með lögum nr. 65/2018. Er sjóðurinn í kjölfar breytinganna stjórnvald á sviði húsnæðismála. Þá er gert ráð fyrir að nafni sjóðsins verði á næstunni breytt í Húsnæðisstofnun svo það samræmist betur núverandi hlutverki hans en á undanförnum árum hefur starfsemi Íbúðalánasjóðs þróast úr því að vera hefðbundin lánastofnun yfir í stefnumótunar- og stjórnvaldsstofnun á sviði húsnæðismála. Hlutverk Íbúðalánasjóðs verður nú sambærilegt við hlutverk systurstofnana sjóðsins Husbanken í Noregi og ARA í Finnlandi. Þær stofnanir bera ábyrgð á að framkvæma stefnu stjórnvalda í húsnæðismálum, áætlunargerð og greiningar auk þess halda utan um víðtækan húsnæðisstuðning, þar á meðal húsnæðisbætur, styrki og lánveitingar til einstaklinga, sveitafélaga og félaga

   
 

Nánari upplýsingar veita Hermann Jónasson forstjóri og Rut Hreinsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs, í síma 569 6900.

Viðhengi


Attachments

FINANCIAL STATEMENTS 30 6 2018 Íbúðalánasjóður árshlutareikningur 30.06.2018