Fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar fyrir árið 2019 hefur verið lögð fram. Hún verður tekin til fyrri umræðu í bæjarstjórn Kópavogs þriðjudaginn 13.nóvember. Fjórða árið í röð er fjárhagsáætlunin unnin í samstarfi allra flokka í bæjarstjórn.
Fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði lækkar sjöunda árið í röð, fer úr 0,23 % í 0,22%. Fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði lækkar úr 1,60 í 1,50% auk þess sem vatns- og holræsagjöld lækka umtalsvert.
Rekstrarafgangur samstæðu Kópavogsbæjar verða rúmlega 607 milljónir árið 2019 samkvæmt áætluninni. Skuldahlutfall heldur áfram að lækka og verður 119% í árslok 2019 en það hefur lækkað úr 175% frá árinu 2014. Niðurgreiðsla skulda heldur áfram og lýkur greiðslum á lánum sem tekin voru í hruninu.
„Kópavogsbær neyddist til að endurfjármagna sig í hruninu með mjög ósanngjörnum lánum. Uppgreiðsla þeirra á næsta ári þýðir að greiðslubyrði léttist til muna. Fjárhagsstaða bæjarins styrkist því jafnt og þétt. Íbúar í Kópavogi hafa notið bættrar afkomu í gegnum aukna þjónustu og ýmsar framkvæmdir, stórar og smáar. Þessi fjárhagsáætlun undirstrikar sterka fjárhagsstöðu bæjarins,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs.
Fjárhagsáætlunin endurspeglar áherslu á mennta- og velferðarmál í Kópavogsbæ.
Þar má nefna að aukin áhersla verður á fyrirbyggjandi starfsemi og í því skyni lagt aukið fjármagn í fræðslu og námskeið fyrir börn á leik- og grunnskólaaldri ásamt fyrir foreldra þeirra og þá sérstaklega beint sjónum að snemmtækri íhlutun og þar með stuðningi, til dæmis vegna kvíða barna. Sálfræðiþjónusta verður aukin í skólum og heilsuefling starfsmanna efld.
Þá er gert ráð fyrir verulegri aukningu í málefni fatlaðra vegna notendastýrðrar aðstoðar, svo og vegna aukinnar þjónustu við fatlaða einstaklinga í sérhæfðum búsetuúrræðum. Jafnframt þessu er gert ráð fyrir fjármagni vegna væntanlegs samstarfs við Reykjavíkurborg vegna húsnæðis fyrir fólk með fjölþættan vanda.
Þá verður áhersla á lýðheilsumál og ráðið í nýja stöðu verkefnastjóra íbúatengsla.
Alls verður fjárfest fyrir 3,7 milljarða í Kópavogi 2019.
Meðal verkefna sem ráðist verður í er bygging húsnæðis fyrir Skólahljómsveit Kópavogs sem reist verður við Álfhólsskóla og stefnt er á að ljúka í árslok. Þá verður hafist handa við byggingu sambyggðs grunn- og leikskóla við Skólagerði á Kársnesi, 150 milljónum er varið í þá byggingu á næsta ári en alls 2,1 milljörðum, á næstu fjórum árum. Áfram verður sinnt verkefninu skemmtilegri grunnskóla- og leikskólalóðir og 125 milljónum varið í viðhald á Kópavogsskóla. Þá er áhersla á áframhaldandi fjölgun félagslegra íbúða.
Í tengslum við þéttingarverkefni á Kársnesi og í Smáranum verður ráðist í umtalsverðar gatnaframkvæmdir, alls fyrir um 600 milljónir króna. Ráðist verður í endurbætur og viðhald í menningarhúsum Kópavogs. Loks má þess geta að lokið verður við endurnýjun Kópavogsvallar.
Veltufé frá rekstri samstæðunnar verður samkvæmt áætluninni 3,8 milljarðar króna.
Íbúar Kópavogs verður 37.500 í árslok 2019 samkvæmt áætluninni en um 36.800 í lok 2018.
Viðhengi