Afkoma Íbúðalánasjóðs


Búið er að taka ákvörðun um að Íbúðalánasjóði verði skipt upp. Sett verði á laggirnar ný húsnæðisstofnun sem tekur yfir verkefni sjóðsins sem stjórnvalds á sviði húsnæðismála sem skilin verður frá eldri lánastarfsemi.

  • Rekstrarniðurstaða Íbúðalánasjóðs neikvæð um 313 milljónir króna
  • Eiginfjárhlutfall er nú 8,9% en lögbundið lágmark er 5%
  • Íbúðalánasjóði verður skipt upp og hið opinbera kemur að fjármálaumsýslu vegna eldri starfsemi
  • Íbúðalánasjóður stofnar Leigufélagið Bríeti utan um eldri fasteignir sjóðsins

Ársreikningur Íbúðalánasjóðs fyrir árið 2018 var staðfestur af stjórn sjóðsins í dag. Rekstrarniðurstaða ársins var neikvæð sem nemur 313 milljón króna. Eiginfjárhlutfall sjóðsins er nú 8,9% en langtímamarkmið sjóðsins er að hlutfallið sé yfir 5,0%. Eigið fé Íbúðalánasjóðs í lok ársins 2017 var 22.083 millj.kr. en var 23.608 millj.kr. þann 31. desember 2016. Heildareignir sjóðsins eru 746 milljarðar og heildarskuldir nema 724 milljörðum.

Rekstur sjóðsins
Hreinar vaxtatekjur frá 1. janúar til 31. desember 2018 voru neikvæðar um 1.486 millj. kr. en voru jákvæðar um 1.697 millj. kr. árið 2017. Rekstrarkostnaður tímabilsins var 1.935 millj. kr. og hækkar hann um 13% samanborið við árið 2017. Aukinn rekstrarkostnað má rekja til nýrra verkefna við umsýslu húsnæðisbóta sem fjármögnuð eru á fjárlögum. Stöðugildum fjölgaði um 15 á árinu við yfirtöku nýrra verkefna frá Vinnumálastofnun. Íbúðalánasjóður greiddi í fyrra 121 millj. kr. til reksturs annarra ríkisstofnana, Fjármálaeftirlitsins og Umboðsmanns skuldara, eða sem nemur 15% af öðrum rekstrarkostnaði sjóðsins.

Hlutfall vaxtaberandi eigna utan lánasafns eykst vegna aukinna uppgreiðslna
Í lok ársins voru útlán sjóðsins 427 milljarðar króna og höfðu útlán dregist saman um 73 milljarða frá árinu 2017. Skýrist minnkun lánasafnsins af miklum uppgreiðslum á útlánum. Uppgreiðslur frá viðskiptavinum skýrast að stórum hluta af aukinni sókn banka og lífeyrissjóða inn á lánamarkaðinn. Eignir utan lánasafns að meðtöldu lausafé jukust á tímabilinu og eru nú 311 milljarðar króna. Helstu áskoranir við stýringu á eignum utan lánasafns eru vaxta- og verðbólguáhætta og stærð sjóðsins. Í því ljósi er vert að nefna að ávöxtunarkrafa á skuldabréfamarkaði hefur almennt lækkað sem hefur neikvæð áhrif á ávöxtun eigna utan lánasafns.

Til þess að bregðast við áhrifum aukinna uppgreiðslna lána hjá Íbúðalánasjóði samþykkti ríkisstjórnin á fundi sínum síðastliðinn þriðjudag tillögu Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, um að Íbúðalánasjóði verði skipt upp. Í því felst að meginstarfsemi sjóðsins verður skilin frá þeim hluta sem snýr að fjármálaumsýslu vegna eldra lánasafns hans. Legið hefur fyrir frá árinu 2012, þegar almennum lánveitingum sjóðsins til almennings vegna húsnæðiskaupa var að mestu hætt, að bregðast þyrfti við áhrifum þessa á Íbúðalánasjóð. Þá  hafði fallið úrskurður Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um að lánin stönguðust á við reglur EES-samningsins. Starfshópur, sem skipaður var í september sl., hefur verið með breytta stöðu sjóðsins til umfjöllunar og var niðurstaða hópsins að leggja til við ráðherra að fara þessa leið. Við útfærslu hins lögformlega aðskilnaðar er gert ráð fyrir að sú starfsemi sjóðsins sem eigi heima í nýrri húsnæðisstofnun verði skilin frá Íbúðalánasjóði þannig að efnahagsreikningur sjóðsins verði óbreyttur að því undanskildu að félagsleg lán verði hluti af fyrirhugaðri Húsnæðisstofnun sem á móti gefi út skuldabréf til gamla Íbúðalánasjóðs sem endurgjald.

Hlutverk Íbúðalánasjóðs hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum með breytingum á lögum um húsnæðismál og er í dag sú stofnun sem fer með framkvæmd húsnæðismála hér á landi. Sjóðurinn fer með stefnumótun og rannsóknir á húsnæðismarkaði, hefur umsjón með opinberum húsnæðisstuðningi og veitingu félagslegra húsnæðislána. Eftir uppskiptinguna verður til öflug húsnæðisstofnun sem gegnir lykilhlutverki á húsnæðismarkaði. Stofnunin fer með framkvæmd og samhæfingu húsnæðismála um land allt auk þess að vera öflugur samstarfsaðili fyrir sveitarfélögin í landinu í tengslum við áætlunargerð þeirra í húsnæðismálum. Nýverið stofnaði Íbúðalánasjóður Leigufélagið Bríeti, en um er að ræða sjálfstætt dótturfélag sem halda mun utan um rekstur og útleigu eldri fasteigna í eigu sjóðsins.

Þróun vanskila og gæði lánasafns
Vanskil útlána hjá Íbúðalánasjóði nema nú 1,8% af heildarlánum en voru 2,1% í lok árs 2017. Góðar efnahagsaðstæður á liðnu ári auk skilvirkari innheimtuferla hafa dregið úr útlánaáhættu. Á afskriftareikningi útlána voru 7.051 millj. kr. í lok árs og dróst afskriftareikningur saman um 134 millj. kr. frá byrjun ársins. Um 98,5% af bókfærðu virði lánasafns Íbúðalánasjóðs var á veðbili innan við 90% af fasteignamati eigna við lok tímabilsins.

----

Nánari upplýsingar veitir Hermann Jónasson, forstjóri í síma 569 6900.

Viðhengi


Attachments

Íbúðalánasjóður - Ársreikningur 2018