Origo hf. - Uppgjör 1. ársfjórðungs 2019 - Verulegur afkomubati og tekjuvöxtur á fyrsta ársfjórðungi


Heildarhagnaður á fyrsta ársfjórðungi var 213 mkr og EBITDA 237 mkr

REYKJAVÍK - 7. maí 2019 - Origo kynnti í dag uppgjör fyrsta ársfjórðungs 2019

Helstu upplýsingar:

  • Sala á vöru og þjónustu nam 3.553 mkr á fyrsta ársfjórðungi [F1 2018: 3.781]. Tempo ehf. er nú ekki hluti af samstæðureikningi félagsins. Tekjuvöxtur án Tempo var um 7% frá sama tímabili í fyrra
  • Framlegð nam 922 mkr (25,9%) á fyrsta ársfjórðungi [F1 2018: 908 mkr (24,0%)]
  • EBITDA nam 237 mkr (6,7%) á fyrsta ársfjórðungi [F1 2018: 102 mkr (2,7%)]. Án breytinga vegna IFRS 16 hefði EBITDA numið 166 mkr (4,7%)
  • Þýðingarmunur vegna dóttur- og hlutdeildarfélaga var 149 mkr
  • Heildarhagnaður á fyrsta ársfjórðungi nam 213 mkr [Heildartap F1 2018: 26 mkr]
  • Eigið fé nam 7,1 makr. og eiginfjárhlutfall var 62,1% í lok fyrsta ársfjórðungs, samanborið við 66,4% í lok árs 2018. Án breytingar vegna IFRS 16 hefði eiginfjárhlutfall verið um 70%
  • Origo keypti eigin bréf í samræmi við endurkaupaáætlun og var fjöldi keyptra hluta 10.149 milljónir og kaupverð um 250 mkr á fyrsta ársfjórðungi
  • Í mars var hlutafé félagsins lækkað um 5.703.309 krónur og er nú 459.600.000 krónur
  • Félagið greiddi út arð á tímabilinu að upphæð 1 makr
  • Origo er „efst í huga“ í upplýsingatækni skv. nýjustu mælingum Gallup

Finnur Oddsson, forstjóri:
„Rekstur Origo á fyrsta ársfjórðungi gekk ágætlega miðað við aðstæður. Afkoma var betri en verið hefur mörg undanfarin ár. Tekjur jukust töluvert, að teknu tilliti til Tempo, og EBITDA batnaði mikið og nam tæplega 7% af veltu samanborið við tæp 3% í fyrra. Þessi niðurstaða er annars vegar til komin vegna styrkingar rekstrar á milli ára og hins vegar vegna breyttra aðferða við reikningsskil sem hafa áhrif á EBITDA.  

Undanfarna mánuði hefur ríkt óvissuástand á vinnumarkaði og í íslensku efnahagslífi sem olli því að mörg fyrirtæki hafa haldið að sér höndum í fjárfestingum og nýjum verkefnum. Í því ljósi er árangur á fyrsta ársfjórðungi sérlega ánægjulegur og gefur vísbendingu um að stefnumótandi áherslur sem Origo  markaði á síðasta ári séu farnar að skila sér í bættum rekstri. Við höfum hagrætt í skipulagi, aukið vægi hugbúnaðarlausna og lagt meiri áherslu á sjálfvirknivæðingu, bæði í eigin rekstri og fyrir viðskiptavini. Í febrúar sl. héldum við áfram með þessa vegferð með frekari einföldun á skipulagi, fækkun í hópi yfirstjórnenda og skarpari áherslu á sölustarf. Þessar breytingar hafa þegar átt þátt í að bæta þjónustu við viðskiptavini og styrkja afkomu. Áfram verður unnið að ýmsum verkefnum sem mun fela í sér hagræði bæði til skemmri og lengri tíma. 

Hugbúnaðareiningar Origo hafa að undanförnu skilað kröftugum tekjuvexti og sterkari afkomu af einingum félagsins. Þar hefur verið unnið markvisst starf, einkum í þróun nýrra lausna og eins í stöðugri vöruþróun á eldri vörum. Þá höfum við stóreflt lausnaframboð okkar í viðskiptalausnum og hefur það aldrei verið jafn fjölbreytt og öflugt og nú er. Við finnum fyrir miklum meðbyr með þessum lausnum hjá núverandi viðskiptavinum jafnt sem nýjum.  
  
Ágætur vöxtur er áfram í sölu á notendabúnaði en samkeppni á því sviði er mikil, bæði hérlendis og við erlenda aðila, sem litar afkomu til hins lakara. Við höfum lagt sérstaka áherslu á að nýta stafrænar leiðir í að auka sjálfvirkni, m.a. með öflugri netverslun, netspjalli, afhendingu í gegnum snjallbox, o.fl. Með þessu höfum við náð fram auknu hagræði og betri þjónustu við viðskiptavini.

Origo er, samkvæmt nýrri könnun Gallup, áfram „efst í huga“ Íslendinga þegar kemur að upplýsingatækni.  Vörumerki Origo er því orðið ágætlega þekkt og markaðsstaðan góð.  Nýtt skipulag hefur slípast vel til og skilað okkur árangri á mörgum sviðum og því til viðbótar búum við nú að nægilega breiðu lausnaframboði til að geta þjónað flestum íslenskum viðskiptavinum um helstu þarfir þeirra í upplýsingatækni. Fjárhagsleg staða félagsins hefur aldrei verið sterkari, sem gerir okkur kleift að fjárfesta í nýjum arðbærum verkefnum, hvort sem um innri þróun eða fjárfestingar er að ræða. Með nýjum kjarasamningum, þar sem samningsaðilum hefur borið gæfa til að semja um hóflegar launahækkanir til að tryggja kaupmátt og lífskjarabata fyrri ára, er lagður grunnur að ákveðnum stöðugleika til næstu þriggja ára.
  
Með öðrum orðum, þá eru auknar líkur á því að aðstæður í íslensku efnahagslífi verði áfram hagfelldar.  Staða Origo hefur ekki áður verið eins góð til að takast á við skemmtilegar ögranir, styðja viðskiptavini til góðra verka og skila ábatasömum rekstri. Þegar litið er til næstu missera erum við þess fullviss að horfur í rekstri Origo séu góðar.“

Sjá viðhengi.


Nánari upplýsingar
Finnur Oddsson forstjóri í síma 862-0310 eða fo@origo.is og Gunnar Petersen framkvæmdastjóri fjármálasviðs í síma 825-9001 eða gp@origo.is.

Til athugunar fyrir fjárfesta

Origo vekur athygli á því að staðhæfingar sem finna má í þessari fréttatilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins, en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna af birtingu tilkynningarinnar. Eðli málsins samkvæmt fela slíkar staðhæfingar í sér óvissu. Athygli fjárfesta er vakin á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi félagsins og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í tilkynningunni. Þessi tilkynning verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar. Staðhæfingar sem finna má í þessari fréttatilkynningu gilda eingöngu á því tímamarki þegar fréttatilkynningin er birt og takmarkast gildi þeirra við það sem segir í fyrirvara þessum.


Viðhengi


Attachments

Fréttatilkynning Árshlutauppgjör Origo hf. F1 2019 Origo hf. árshlutareikningur 31.3.2019