TM hefur einkaviðræður við Klakka hf. um kaup á Lykli fjármögnun hf.


Klakki ehf., sem er eigandi Lykils fjármögnunar hf., hefur ákveðið að ganga til einkaviðræðna við Tryggingamiðstöðina hf. (TM) um kaup TM á öllum eignarhlutum í Lykli. 

Lykill fjármögnun er fjármálafyrirtæki sem hefur starfsleyfi sem lánafyrirtæki skv. lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002.  Það hefur höfuðstöðvar sínar í Reykjavík og býður upp á margþættar fjármögnunarleiðir við kaup og rekstur fasteigna og lausafjármuna fyrir einstaklinga, fyrirtæki og aðra rekstraraðila.

Náist samningar á grundvelli einkaviðræðnanna mun TM greiða 9,250 milljarða kr. í reiðufé til Klakka auk greiðslu sem næmi hagnaði félagsins á yfirstandandi rekstrarári 2019 eftir skatta. Fyrirhuguð viðskipti eru háð ýmsum fyrirvörum, svo sem áreiðanleikakönnun og niðurstöðu hennar, samþykki hluthafafundar TM svo og samþykki Fjármálaeftirlitsins um að TM megi fara með virkan eignarhlut í Lykli fjármögnun og að Samkeppniseftirlitið samþykki hið nýja eignarhald.

Aðilar ætla sér 8 vikur í að ljúka einkaviðræðum sínum.