Lykilstærðir
Allar fjárhæðir í evrum og samanburðartölur í sviga.
- Rekstrartekjur voru 85,3 m€ (77,3 m€).
- EBITDA af reglulegri starfsemi var 11,9 m€ (10,0 m€).
- Hagnaður tímabilsins nam 6,4 m€ (5,6 m€.)
- Heildareignir voru 228 m€ (213,4 m€ í lok 2018).
- Vaxtaberandi skuldir voru 82,3 m€ (73,9 m€ í lok 2018).
- Eiginfjárhlutfall var 49,4% (51,6% í lok 2018).
Rekstur
Rekstrartekjur samstæðunnar voru 85,3 m€ og jukust um 10% frá fyrstu sex mánuðum fyrra árs.
EBITDA félagsins hækkaði um 20% á milli tímabila eða úr 10 m€ á fyrstu sex mánuðum ársins 2018 í 11,9 m€ á fyrstu sex mánuðum þessa árs. Í upphafi árs innleiddi samstæðan IFRS 16 í reikningsskil sín. Leiðir sú innleiðsla til hækkunar á EBITDA að fjárhæð 0,6 m€. á tímabilinu. Á móti hækka afskriftir félagsins og fjármagnsgjöld um 0,6 m€.
Hagnaður tímabilsins var 6,4 m€ en var 5,6 m€ fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2018.
Efnahagur
Heildareignir voru 228 m€ og hafa hækkað úr 213,4 m€ í árslok 2018. Af þessari hækkun eru 6,8 m€ tilkomnar vegna innleiðslu á IFRS 16 - Leigueignir.
Eigið fé nam 112,6 m€, en af þeirri upphæð eru 11,4 m€ hlutdeild minnihluta í eigin fé dótturfélaga.
Hlutfall eigin fjár, þegar hlutdeild minnihluta er meðtalin, var í lok tímabilsins 49,4% af heildareignum samstæðunnar en var 51,6% í árslok 2018. Við innleiðingu á IFRS 16 hækkuðu bæði eignir og skuldir samstæðunnar. Lækkun á eiginfjárhlutfalli skýrist því að mestu af innleiðslu á IFRS 16.
Vaxtaberandi skuldir námu í lok tímbils 82,3 m€ samanborið við 73,9 m€ í ársbyrjun. Af þessari hækkun eru 7,4 m€ tilkomnar vegna innleiðslu á IFRS 16 - Leiguskuldbindingar.
Árshlutareikningurinn er aðgengilegur á heimasíðu Hampiðjunnar hf., www.hampidjan.is.
Hjörtur Erlendsson, forstjóri:
„Velta samstæðunnar jókst um rúm 10% á milli ára og er aukningin að langstærstum hluta tilkomin vegna innri vaxtar eða um 72% en 28% eru tilkomin vegna ytri vaxtar með kaupum á félögum á síðari hluta ársins 2018.
EBITDA samstæðunnar eykst um 20% á milli ára og er nú, sem hlutfall af sölu, 14,0% en var 12,9% á sama tímabili síðasta ár. Það er mat okkar að enn séu töluverðir hagræðingarmöguleikar til staðar innan samstæðunnar.
Sú breyting að sameina veiðarfæradeild Hampiðjunnar hf. og dótturfélagið Fjarðanet í byrjun þessa árs í fyrirtækið Hampiðjan Ísland og tryggja með því heildstæða þjónustu við viðskiptavini okkar á Íslandi hefur reynst mjög vel og stefnt er að því að taka fullbúið netaverkstæði á Neskaupstað í notkun núna í byrjun vetrar.
Styrking framleiðslueiningar samstæðunnar í Litháen, Hampiðjan Baltic, með nýfjárfestingum í framleiðslutækjum byggir enn frekar undir vöxt samstæðunnar með aukinni framleiðslugetu í veiðarfæraefnum, ofurtógum og hnútalausum netum fyrir fiskeldi.
Í byrjun þessa mánaðar kynntum við nýjasta vöruþróunarverkefni okkar en það er ljósleiðarakapall með þrem ljósleiðurum með nær ótakmarkaðri flutningsgetu. Kapallinn sem ber nafnið DynIce Optical Data er fyrst og fremst ætlaður fyrir gagnaflutning frá trolli upp í brú og opnar hann fyrir möguleika á lifandi myndum frá trollinu ásamt tengingum við ýmsa nema og fjölgeislamæla. Það er trú okkar að þessi hátæknikapall muni gjörbreyta veiðitækni framtíðarinnar og styrkja enn frekar stöðu Hampiðjunnar sem leiðandi veiðarfæraframleiðanda á heimsvísu.“
Fjárhagsdagatal
Ársuppgjör fyrir árið 2019 - 19. mars 2020
Nánari upplýsingar
Frekari upplýsingar veitir Hjörtur Erlendsson forstjóri í síma 664 3361.
Viðurkenndur ráðgjafi
Viðurkenndur ráðgjafi Hampiðjunnar á Nasdaq First North er PwC.
Viðhengi