Afkoma Íbúðalánasjóðs


Neikvæð áhrif áframhaldandi mikilla uppgreiðslna

  • Rekstrarniðurstaða Íbúðalánasjóðs var neikvæð um 2.016 milljónir króna
  • Miklar uppgreiðslur lána, alls ríflega 300 milljarðar á síðustu árum, halda áfram að hafa neikvæð áhrif á afkomu sjóðsins
  • Fjármálaumsýsla lánasafns og uppgreiðslueigna mun færast frá sjóðnum til ríkisins á næstunni, verði frumvarpið að lögum, en ríkisstjórnin hefur samþykkt að skipta honum upp og verður frumvarp þess efnis lagt fyrir Alþingi á komandi haustþingi
  • Með uppskiptingunni verður til ný stofnun sem annast mun stjórnsýslu vegna húsnæðismála og hafa umsjón með húsnæðisstuðningi hins opinbera. Þá munu mannvirkjamál einnig færast til nýju stofnunarinnar verði frumvarpið að lögum.
  • Eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs er nú 8,6% en lögbundið lágmark er 5%

Árshlutareikningur Íbúðalánasjóðs var staðfestur af stjórn sjóðsins í dag. Rekstrarniðurstaða fyrri árshluta ársins 2019 var neikvæð sem nemur 2.016 milljón króna. Þessi niðurstaða var fyrirséð og hefur þegar verið brugðist við henni með samþykkt ríkisstjórnar og frumvarpi félagsmálaráðherra, um uppskiptingu Íbúðalánasjóðs, sem mælt verður fyrir á Alþingi í haust. Þar er lagt til að fjármálaumsýsla vegna eldri starfsemi Íbúðalánasjóðs verði flutt í sérstakan sjóð.

Eiginfjárhlutfall sjóðsins er nú 8,6% en langtímamarkmið sjóðsins er að hlutfallið sé yfir 5,0%. Eigið fé Íbúðalánasjóðs í lok júní 2019 er 20.068 millj. kr. en var 22.083 millj. kr. í árslok 2018. Heildareignir sjóðsins eru 736 milljarðar kr. og heildarskuldir nema 716 milljörðum króna.

Rekstur sjóðsins
Hreinar vaxtatekjur frá 1. janúar til 30. júní 2019 voru neikvæðar um 1.456 millj. kr. en voru neikvæðar um 81 millj. kr.  á sama tímabili árið áður. Orsakast það fyrst og fremst af því ójafnvægi sem skapast hefur vegna stóraukinna uppgreiðslna undanfarin ár. Samtals nemur sú fjárhæð ríflega 300 milljörðum króna. Þróun hreinna vaxtatekna einkennist af þeirri staðreynd að lánasafnið hefur minnkað um áðurnefnda fjárhæð og á sama tíma hefur ávöxtun lausafjár á markaði, í lækkandi vaxtaumhverfi, verið minni.


Hlutfall vaxtaberandi eigna utan lánasafns eykst vegna aukinna uppgreiðslna
Í lok tímabilsins voru útlán sjóðsins 395 milljarðar kr. og höfðu útlán á árinu dregist saman um 32 milljarða kr. frá árslokum 2018. Ástæða minnkunar lánasafnsins eru miklar uppgreiðslur útlána. Uppgreiðslur frá viðskiptavinum skýrast að stórum hluta af aukinni sókn banka og lífeyrissjóða inn á lánamarkaðinn. Eignir utan lánasafns, að meðtöldu lausafé, jukust á tímabilinu og eru nú 330 milljarðar króna. Helstu áskoranir við stýringu á eignum utan lánasafns sjóðsins eru vaxta- og verðbólguáhætta og mikið umfang eignanna. Í því ljósi er vert að nefna að ávöxtunarkrafa á skuldabréfamarkaði hefur almennt lækkað sem hefur neikvæð áhrif á ávöxtun eigna utan lánasafns.

Til þess að bregðast við áhrifum aukinna uppgreiðslna lána hjá Íbúðalánasjóði samþykkti ríkisstjórnin í mars síðastliðnum að Íbúðalánasjóði verði skipt upp. Í því felst að meginstarfsemi sjóðsins verður skilin frá þeim hluta sem snýr að fjármálaumsýslu vegna eldra lánasafns hans. Frá árinu 2012, þegar almennum lánveitingum sjóðsins til almennings vegna húsnæðiskaupa var að mestu hætt, hefur legið fyrir að bregðast þyrfti við áhrifum þessa á Íbúðalánasjóð. Þá hafði fallið úrskurður Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um að lánin stönguðust á við reglur EES-samningsins. Frumvarp um uppskiptingu sjóðsins var kynnt í samráðgátt stjórnvalda í júlí síðastliðnum og mælt verður fyrir frumvarpinu á fyrstu dögum haustþings. Með frumvarpinu er lagt til annars vegar að Íbúðalánasjóði verði skipt upp þannig að sá hluti starfsemi sjóðsins sem snýr að útgáfu HFF bréfa, eldri lánastarfsemi og fjárstýringu eigna utan lánasafns, s.s. lausafjár og annarra verðbréfa, verði eftir í Íbúðalánasjóði, sem mun fá nafnið ÍLS sjóður, en að önnur verkefni Íbúðalánasjóðs flytjist til nýrrar stofnunar. Lagt er til að sett verði á fót ný stofnun sem fái heitið Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og að til hennar flytjist verkefni Mannvirkjastofnunar og þess hluta Íbúðalánsjóðs er skilinn verður frá ÍLS sjóði.

Verði frumvarpið að lögum þann 1. janúar 2020, eins og gert er ráð fyrir, mun ÍLS sjóður starfa áfram á sömu kennitölu og Íbúðalánasjóður í dag og halda utan um eignir og skuldir sjóðsins. Frumvarpið felur ekki í sér neinar breytingar á áður útgefinni ríkisábyrgð vegna skuldabréfaútgáfu Íbúðalánasjóðs (HFF).


Þróun vanskila og gæði lánasafns
Vanskil útlána hjá Íbúðalánasjóði nema nú 1,8% af heildarlánum og eru óbreytt frá ársbyrjun. Á afskriftareikningi útlána voru 6.949 millj. kr. í lok tímabils og dróst afskriftareikningur saman um 102 millj. kr. frá byrjun ársins. Um 98,4% af bókfærðu virði lánasafns Íbúðalánasjóðs var á veðbili innan við 90% af fasteignamati eigna við lok tímabilsins.

----

Nánari upplýsingar veitir Hermann Jónasson, forstjóri Íbúðalánasjóðs, í síma 569 6900.

Viðhengi


Attachments

Árshlutareikningur samstæða 30.6.2019