Breytingar á Íbúðalánasjóði


Þann 27. mars s.l. ákvað ríkisstjórnin að skipta starfsemi Íbúðalánasjóðs upp þannig að meginstarfsemi Íbúðalánasjóðs verði aðskilin frá fjármálaumsýslu vegna eldra lánasafns. Þá var jafnframt kynnt að ráðherra væri að skoða sameiningu Mannvirkjastofnunar og meginstarfsemi Íbúðalánasjóðs í nýrri stofnun.

Í dag þann 17. desember 2019 samþykkti Alþingi frumvörp til laga um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (þingskjal 319/2019) og úrvinnslu eigna og skulda ÍL-sjóðs (þingskjal 381/2019), sem felur í sér þennan aðskilnað í starfsemi Íbúðalánasjóðs og sameiningu meginstarfsemi Íbúðalánasjóðs og Mannvirkjastofnunar og gert er ráð fyrir að fyrrnefnd lög taki gildi 31. desember 2019.

Lög um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fela í sér að stefnumótun og rannsóknir á húsnæðismarkaði, umsjón með opinberum húsnæðisstuðningi og veiting félagslegra húsnæðislána flytjist frá Íbúðalánasjóði og yfir til nýrrar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Þessi nýja stofnun mun heyra undir félagsmálaráðuneytið.

Frumvarp um úrvinnslu eigna og skulda ÍLS sjóðs felur það í sér að öll markaðsverðbréf sem Íbúðalánasjóður og forverar hans hafa gefið út ásamt öllum almennum lánum sem veitt voru fyrir 1. janúar 2013 verða áfram hjá sjóðnum, sem um næstu áramót breytir um nafn og mun eftir það heita ÍL-sjóður. Þá mun ÍL-sjóður jafnframt frá og með 31. desember n.k. heyra undir fjármálaráðuneytið. Mun þessi breyting því ekki hafa neinar breytingar í för með sér varðandi markaðsverðbréf sjóðsins og eigendur þeirra.