Ólöf tekur við Lykli


Ólöf Jónsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Lykils hf., dótturfélags TM hf., og tekur við starfinu af Lilju Dóru Halldórsdóttur.

Ólöf hefur starfað í hálfan annan áratug á íslenskum fjármálamarkaði. Frá árinu 2017 hefur hún starfað hjá Kviku banka, fyrst sem forstöðumaður stefnumótunar og rekstrarstjórnunar og undanfarið ár sem forstöðumaður fjártækni. Sem slíkur bar hún ábyrgð á stefnumótun, hönnun og innleiðingu á fjártæknivörum Kviku. Þar áður starfaði hún um árabil sem framkvæmdastjóri hjá Virðingu.

Ólöf er véla- og iðnaðarverkfræðingur frá Háskóla Íslands og hefur lokið meistaranámi í aðgerðarfræðum frá London School of Economics.

Sigurður Viðarsson, stjórnarformaður Lykils og forstjóri TM:

„Það er mikill fengur fyrir TM að fá Ólöfu til liðs við samstæðuna. Reynsla hennar af hönnun og innleiðingu fjártæknilausna er akkur fyrir félagið í þeirri vegferð sem framundan er í þróun fjölbreyttari fjármálaþjónustu fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Ég þakka Lilju Dóru fyrir sinn þátt í vexti og velgengi Lykils og óska henni velfarnaðar á nýjum vettvangi. “