Origo hf. - Finnur Oddsson lætur af störfum sem forstjóri Origo hf.


Reykjavík, 7. maí 2020

Finnur Oddsson hefur beðist lausnar frá starfi sínu sem forstjóri Origo og mun láta af störfum í sumar til að snúa sér að öðrum verkefnum.  Finnur mun starfa áfram fram að þeim tíma og verður stjórn til stuðnings og ráðgjafar þar til nýr forstjóri hefur verið ráðinn.  

Hjalti Þórarinsson, stjórnarformaður Origo:
Finnur hefur starfað hjá félaginu síðan 2012 og tók við starfi forstjóra árið 2013. Finnur leiddi félagið, í samstarfi við sterkan hóp starfsfólks, í gegnum umfangsmikið breytingaferli og stendur Origo í dag sem eitt öflugasta fyrirtæki landsins á sviði upplýsingatækni, hvort sem horft er til mannauðs eða markaðsstöðu. Þó efnahagslífið sé að sigla inní ákveðinn óvissutíma, þá byggir uppbygging til framtíðar óhjákvæmilega á upplýsingatækni. Þar er staða Origo sérlega sterk. Eins og sést í uppgjöri félagsins fyrir fyrsta ársfjórðung þá hefur Origo bætt efnahag sinn verulega á undanförnum árum, ásamt því að byggja upp lausnamengi með mikil framtíðartækifæri.  Það er því okkar mat að horfur Origo til lengri tíma séu bjartar. Stjórn Origo þakkar Finni hans framlag til félagsins og sérstaklega gott samstarf á undanförnum árum.  Við óskum honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Finnur Oddsson, forstjóri Origo 
Það hafa verið forréttindi að taka þátt í uppbyggingu Origo sl. 7 ár með stórum hópi framúrskarandi samstarfsfólks, viðskiptavina og samstarfsaðila.  Origo hefur þroskast og dafnað á ferðalaginu, starfsemi sameinuð undir sterku vörumerki, fjárfesting í þróunarstarfi skilaði áþreifanlegum árangri og rekstur hefur gengið vel.  Markaðsvirði félagsins hefur margfaldast auk þess sem sala á hluti í Tempo skilaði ágætum arði til hluthafa og treysti fjárhagsstöðu til framtíðar. Ég er þakklátur öllu því frábæra starfsfólki Origo sem ég hef verið svo lánssamur að fá að vinna með, fólkinu sem á allan heiður af góðri stöðu félagsins í dag og mun gera veg þess enn meiri á næstu árum.


Nánari upplýsingar veitir Hjalti Þórarinsson, stjórnarformaður Origo - tölvupóstfang: hjalti@alum.mit.edu