- Rekstrartekjur samstæðunnar á öðrum árfjórðungi voru 60,3 m€ og 133,1 m€ á fyrri árshelmingi (2F 2019: 49,6 m€, 1H 2019: 105,5 m€). Aukningu rekstrartekna má fyrst og fremst rekja til þess að sölufélög í Asíu eru hluti af samstæðunni í ár, en félögin eru hluti af samstæðureikningsskilum Brims frá 1. október 2019. Rekstrartekjur sölufélaganna, að teknu tilliti til innbyrðis viðskipta námu 25 m€ á öðrum ársfjórðungi og 45 m€ á fyrri árshelmingi 2020.
- EBITDA nam 9,5 m€ á öðrum ársfjórðungi og 17,2 m€ á fyrri árshelmingi (2F 2019: 13,3 m€, 1H 2019: 23,1 m€)
- Hagnaður á öðrum ársfjórðungi var 5,0 m€ og hagnaður á fyrri árshelmingi 5,4 m€ (2F 2019 6,8 m€ hagnaður, 1H 2019: 10,7m€ hagnaður)
- Handbært fé frá rekstri nam 18,9 m€ á fyrri árshelmingi (1H 2019: 31,1 m€)
- Fiskvinnslan Kambur ehf., Grábrók ehf. og Grunnur ehf. eru hluti af samstæðunni frá og með 1. maí. Dótturfélagið Norðanfiskur ehf. var selt í júlí, og hefur rekstur og efnahagur þess félags verið færður undir aflagða starfsemi.
Rekstur fyrstu sex mánaða ársins 2020
Rekstrartekjur Brims hf. á fyrri helmingi ársins 2020 námu 133,1 m€, samanborið við 105,5 m€ árið áður. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 17,2 m€ eða 12,9% af rekstrartekjum, en var 23,1 m€ eða 21,9% árið áður. Áhrif fjáreignatekna og fjármagnsgjalda voru neikvæð um 3,7 m€, en voru neikvæð um 2,4 m€ á sama tíma árið áður. Áhrif hlutdeildarfélaga voru jákvæð um 0,2 m€, en voru jákvæð um 0,3 m€ árið áður. Hagnaður fyrir tekjuskatt var 6,6 m€ og hagnaður tímabilsins var 5,4 m€.
Efnahagur
Heildareignir félagsins námu 749,0 m€ í lok júní 2020. Þar af voru fastafjármunir 622,7 m€ og veltufjármunir 126,2 m€. Eigið fé nam 315,5 m€, eiginfjárhlutfall í lok júní var 42,1%, en var 45,3% í lok árs 2019. Heildarskuldir félagsins voru í júnílok 433,4 m€.
Sjóðstreymi
Handbært fé frá rekstri nam 18,9 m€ á tímabilinu, en nam 31,1 m€ á sama tíma fyrra árs. Fjárfestingarhreyfingar voru neikvæðar um 40,8 m€. Fjármögnunarhreyfingar voru neikvæðar um 4,1 m€. Handbært fé lækkaði um 26,6 m€ á tímabilinu og var í lok júní 26,9 m€.
Meginniðurstöður færðar til íslenskra króna
Séu niðurstöður rekstrarreiknings reiknaðar til íslenskra króna á meðalgengi fyrri árshelming 2020 (1 evra = 148,06 kr) verða tekjur 19,7 milljarðar króna, EBITDA 2,5 milljarðar og hagnaður 0,8 milljarðar. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar til íslenskra króna á gengi 30. júní 2020 (1 evra = 155,4 kr) verða eignir samtals 116,4 milljarðar króna, skuldir 67,4 milljarðar og eigið fé 49,0 milljarðar.
Skipastóll og afli
Í lok júní gerði samstæðan út 10 fiskiskip, en línubátarnir Kristján HF-100 og Steinunn HF-108 bættust við þegar Grunnur ehf. og Grábrók ehf. urðu hluti af samstæðunni 1. maí síðastliðinn.
Á fyrri árshelmingi ársins 2020 var afli skipa samstæðunnar 23,0 þúsund tonn af botnfiski og 34,0 þúsund tonn af uppsjávarfiski.
Á sama tíma 2019 var afli skipa samstæðunnar 26,5 þúsund tonn af botnfiski og 43,6 þúsund tonn af uppsjávarfiski.
Önnur mál
Áhrif veirufaraldursins COVID-19 á rekstur samstæðunnar hafa verið umtalsverð á tímabilinu. Stjórnendur og starfsmenn félagsins hafa markvisst unnið að því að hlúa að öryggi starfsmanna og með samstilltu átaki hefur tekist að koma í veg fyrir röskun á starfseminni. Gripið hefur verið til margháttaðra varnaraðgerða gegn smiti og mikil áhersla lögð á aukið hreinlæti, aðskilnað starfsmanna, takmörkun á aðgengi að starfsstöðvum og annað sem tengist sóttvarnaraðgerðum.
Breytingar hafa orðið á mörkuðum víða um heim, með breyttu neyslumynstri matvara og margvíslegum efnahagslegum áhrifum. Til að mynda hafa veitingahús og mötuneyti á lykilmörkuðum samstæðunnar ýmist verið lokuð eða með skerta starfsemi og söluleiðir því aðrar en áður. Aukin sala hefur hins vegar verið á sjávarafurðum á öðrum mörkuðum s.s. í smásöluverslunum. Flutningaleiðir, ekki síst í lofti, en einnig á sjó, hafa raskast og kostnaður aukist og einnig hefur framleiðslusamsetning breyst vegna framangreindra þátta.
Áhrif heimsfaraldursins á rekstur Brims á næstu mánuðum og misserum ræðst eðlilega af þróun heimsfaraldursins og alkunna er að þar ríkir mikil óvissa. Stjórnendur Brims fylgjast náið með þróun mála á helstu mörkuðum en samstæðan er vel í stakk búin til að takast á við breyttar aðstæður, en ekki er hægt að segja til um það hversu mikil áhrif faraldurinn mun hafa á rekstur og efnahag samstæðunnar.
Kristján Þ. Davíðsson, stjórnarformaður Brims hf.:
Erfiðar gæftir og minni veiði uppsjávarfisks, áhrif covid heimsfaraldursins á markaði og gagnger endurnýjun og tæknivæðing botnfiskvinnslu félagsins í Norðurgarði einkenndu rekstur á fyrri árshelmingi. Í ljósi framangreindra aðstæðna er niðurstaða uppgjörs Brims á fyrri árshelmingi ársins 2020 ásættanleg segir Kristján Þ. Davíðsson.
Kynningarfundur þann 21. ágúst 2020
Rafrænn kynningarfundur um afkomu félagsins á öðrum ársfjórðungi verður haldinn föstudaginn 21. ágúst klukkan 8:30. Í ljósi aðstæðna fer hann eingöngu fram í gegnum fjarfundabúnað. Hægt er að sækja um aðgang að fundinum á póstfangið kynning@brim.is.
Kristján Þ. Davíðsson stjórnarformaður mun kynna uppgjörið og svara spurningum.
Viðhengi