Hampiðjan – sex mánaða árshlutareikningur samstæðu Hampiðjunnar 2020
Lykilstærðir
Allar fjárhæðir í evrum og samanburðartölur í sviga.
- Rekstrartekjur voru 80,7 m€ (85,3 m€).
- EBITDA af reglulegri starfsemi var 14,0 m€ (11,9 m€).
- Hagnaður tímabilsins nam 7,9 m€ (6,4 m€.)
- Heildareignir voru 239,5 m€ (228,4 m€ í lok 2019).
- Vaxtaberandi skuldir voru 85,5 m€ (81,8 m€ í lok 2019).
- Eiginfjárhlutfall var 51,2% (52,26% í lok 2019).
Rekstur
Rekstrartekjur samstæðunnar voru 80,7 m€ og lækkuðu um 5,5% frá fyrstu sex mánuðum fyrra árs.
EBITDA félagsins hækkaði um 17,5% á milli tímabila eða úr 11,9 m€ á fyrstu sex mánuðum ársins 2019 í 14,0 m€ á fyrstu sex mánuðum þessa árs.
Hagnaður tímabilsins var 7,9 m€ en var 6,4 m€ fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2019
Efnahagur
Heildareignir voru 239,5 m€ og hafa hækkað úr 228,4 m€ í árslok 2019.
Eigið fé nam 122,5 m€, en af þeirri upphæð eru 12,9 m€ hlutdeild minnihluta í eigin fé dótturfélaga.
Hlutfall eigin fjár, þegar hlutdeild minnihluta er meðtalin, var í lok tímabilsins 51,2% af heildareignum samstæðunnar en var 52,3% í árslok 2019.
Vaxtaberandi skuldir námu í lok tímbils 85,5 m€ samanborið við 81,8 m€ í ársbyrjun.
Árshlutareikningurinn er aðgengilegur á heimasíðu Hampiðjunnar hf., www.hampidjan.is.
Hjörtur Erlendsson, forstjóri:
„Velta samstæðu Hampiðjunnar á fyrri helmingi ársins minnkaði um 5,5% miðað sama tímabil í fyrra. Samdrátturinn er fyrst og fremst tilkominn vegna áhrifa Covid-19 á rekstrarumhverfi félaga innan samstæðunnar. Faraldurinn hefur haft mjög mismunandi áhrif eftir löndum og ánægjulegt er að segja frá því að víða hefur velta aukist milli ára þrátt fyrir ýmsar takmarkanir og óhagræði sem þeim hefur fylgt. Þannig jókst velta í Bandaríkjunum, Danmörku, Færeyjum, Kanaríeyjum, Ástralíu og Nýja Sjálandi en á móti minnkaði velta á Íslandi, Írlandi og Noregi.
Þó veltan hafi minnkað þá hefur framlegð aukist það mikið að EBITDA hefur hækkað um 17,5% milli tímabila og er nú 17,4% en var 14,0% á fyrrihluta síðastliðins árs. Hagnaður félagsins eykst einnig á milli tímabila og er 7,9 m. evra samanborið við 6,4 m. evra áður.
Fjárfestingarátaki, til að auka afköst og gæði framleiðslunnar, sem hefur staðið yfir í Hampidjan Baltic síðustu ár, er nú lokið þótt alltaf þurfi að að huga að endurnýjun og viðbótum. Þau tæki og þær framleiðslulínur sem keyptar hafa verið hafa staðið undir væntingum og í sumum tilfellum betur en búist var við.
Enn eru töluverðir möguleikar á hagræðingu til staðar innan samstæðunnar sem felast í sölum á efnum frá framleiðslufyrirtækinu Hampidjan Baltic til annara fyrirtækja innan samstæðunnar.
Í byrjun ársins keypti Hampiðjan hf. 80% eignarhlut í skosku félögunum Jackson Trawls Limited og Jackson Offshore Supply Limited. Jackson Trawl er leiðandi í sölu veiðarfæra á Bretlandseyjum og Jackson Offshore selur einkum kaðla, lyftistroffur og járnavöru til olíuiðnaðarins í Skotlandi. Með kaupunum styrkir Hampiðjan stöðu sína enn frekar við N-Atlantshaf sem er mikilvægasti markaður samstæðunnar. Einnig er félagið að tryggja stöðu sína gagnvart samningum um Brexit óháð því hvernig þeir samningar fara í framtíðinni.
Í byrjun ársins hófst starfsemi í nýju og tæknilega fullkomnu netaverkstæði á Neskaupstað og lofar byrjunin góðu um framhaldið. Í Færeyjum hefur verið lokið við viðbyggingu við fiskeldisþjónustuna í Norðskála sem gjörbreytir til batnaðar allri viðgerðaraðstöðu fyrir fiskeldiskvíar en þjónusta við fiskeldi er sífellt mikilvægari þáttur í starfsemi Hampiðjunnar við N-Atlantshaf. Í Strandby í Danmörku var einnig lokið við stækkun netaverkstæðis og byggingu lagers samhliða því að eldri og óhagkvæmari byggingar voru seldar. Vegna sívaxandi sölu hjá Hampidjan Australia var fyrirtækið flutt í nýbyggt leiguhúsnæði suður af Brisbane sem hentar starfseminni á allan hátt vel.
Mikilvægt er fyrir starfsemina að við höfum yfir að ráða góðu húsnæði sem er tæknilega vel útbúið fyrir veiðarfæragerð og þjónustu og sem tryggir starfsmönnum gott vinnuumhverfi og góðan aðbúnað með þeim tækjum sem völ er á til að auðvelda störfin.”
Fjárhagsdagatal
Ársuppgjör fyrir árið 2020 - 11. mars 2021
Nánari upplýsingar
Frekari upplýsingar veitir Hjörtur Erlendsson forstjóri í síma 664 3361.
Viðurkenndur ráðgjafi
Viðurkenndur ráðgjafi Hampiðjunnar á Nasdaq First North er PwC.
Viðhengi