Árshlutareikningur Landsnets fyrir janúar – júní 2021



Stöðugur rekstur

Árshlutareikningur Landsnets fyrir janúar – júní 2021 var lagður fram í dag.

Guðlaug Sigurðardóttir framkvæmdastjóri fjármála hjá Landsneti segir verkefni og rekstur vera á áætlun og fyrirsjáanleiki í reglu- og lagaumhverfi vera lykilþátt í fjármögnun. 

„Við hjá Landsneti höfum náð að halda rekstri á áætlun á árinu og framkvæmdir ganga vel þrátt fyrir áskoranir í rekstrarumhverfinu. Í júní var skrifað undir lánveitingu við Norræna fjárfestingabankann að fjárhæð 50 milljóna Bandaríkjadala og áhugavert er að segja frá því að framkvæmdir okkar í flutningskerfinu falla að öllu leyti undir viðmið bankans um mótvægisaðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Lánveitendur hafa sýnt okkur mikið traust í verkefnafjármögnun, þar sem við fengum betri kjör en áður. Það traust byggir annars vegar á árangri sem við höfum náð í aukinni skilvirkni í rekstri og framkvæmdum og hins vegar á stöðugu lagaumhverfi. Við höfum séð það skýrt að fyrirsjáanleiki og stöðugleiki í regluverkinu sem snýr að fjármálum fyrirtækisins eru meðal þátta sem lánveitendur kunna að meta og hafa áhrif á fjármögnunarkjör. Þessir þættir hafa verið í lagi undanfarin ár og það er að skila sér nú til okkar“. 

Helstu atriði árshlutareiknings:

Hagnaður Landsnets hf. samkvæmt rekstrarreikningi nam 16,5 m. USD (2.029,6 millj.kr) fyrstu 6 mánuði ársins 2021 samanborið við 16,3 m. USD (2.011,8 millj.kr ) á sama tímabili árið 2020.  Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam 28,7 m. USD (3.534,6 millj.kr ) samanborið við 22,0 m. USD (2.708,0 millj.kr) árið áður.  

Heildareignir félagsins í lok tímabilsins námu 950,2 m. USD (117.081,4 millj.kr) samanborið við 911,4 m. USD (112.307,4 millj.kr ) í lok árs 2020. Heildarskuldir námu í lok tímabilsins 541,8 m. USD (66.762,0 millj.kr) samanborið við 506,6 m. USD (62.422,0 millj.kr) í lok árs 2020.  Sótt var fjármögnun til Norræna fjárfestingabankans í júní að fjárhæð 50 m. USD.

Eiginfjárhlutfall í lok tímabilsins var 43,0% samanborið við 44,4% í lok ársins 2020. Eigið fé í lok tímabilsins nam 408,4 m. USD (50.319,5 millj.kr) samanborið við 404,8 m. USD (49.885,4 millj.kr) í lok árs 2020.

Handbært fé í lok júní nam 37,4 m. USD (4.606,7 millj.kr) og handbært fé frá rekstri á tímabilinu nam 36,9 m. USD (4.547,1 millj. kr).

Nánar á www.landsnet.is  þar sem hægt er að nálgast ársreikninginn.
Nánari upplýsingar gefur Guðlaug Sigurðardóttir framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landsnets, sími 563-9300 eða á netfanginu gudlaugs@landsnet.is

Um Landsnet

Landsnet tók til starfa árið 2005 og ber ábyrgð á flutningskerfi raforkunnar, einum af mikilvægustu innviðum samfélagsins. Hlutverk félagsins er að annast flutning raforku á Íslandi, uppbyggingu flutningskerfisins og stjórnun raforkukerfisins.



1 Til viðmiðunar eru sýndar íslenskar krónur, notast var við gengið USD/ISK 123,22


Viðhengi



Attachments

Tilkynning til Kauphallar - árshlutareikningur 300621 Landsnet árshlutareikn 300621