Brim gefur út græn og blá skuldabréf – fyrstu sinnar tegundar á Íslandi


Brim hefur í samstarfi við Íslandsbanka lokið við útgáfu skuldabréfa sem falla undir sjálfbæran fjármögnunarramma félagsins og eru kennd við grænan og bláan lit. Með útgáfu skuldabréfanna fjármagnar Brim verkefni sem stuðla að sjálfbærni og hafa jákvæð áhrif á umhverfið og snúa blá skuldabréf að verkefnum tengdum hafi og vatni. Skuldabréfin eru fyrstu sinnar tegundar sem gefin eru út af Brimi og jafnframt þau fyrstu á Íslandi sem falla undir bláan og grænan fjármögnunarramma.

Skuldabréfin sem seld voru eru í flokknum BRIM 221026 GB, eru óveðtryggð og með lokagjalddaga þann 22. október 2026. Bréfin bera 4,67% vexti sem greiddir eru ársfjórðungslega en höfuðstóll skuldabréfanna er greiddur í einni greiðslu á lokagjalddaga. Heildarstærð skuldabréfaflokksins er samtals 5.000 milljónir króna að nafnverði, en nú hafa verið gefin út skuldabréf að nafnverði 2.500 milljónir króna. Var bréfið selt á pari, eða á ávöxtunarkröfunni 4,75%. Samhliða hefur félagið gert gjaldmiðla- og vaxtaskiptasamning til að mæta greiðsluflæði skuldabréfanna, en að teknu tilliti til þess samnings mun vaxtakostnaður félagsins nema 1,8% föstum vöxtum í evru út líftíma skuldabréfsins.

Með sjálfbærum fjármögnunarramma geta kaupendur skuldabréfa reitt sig á að fjárfestingar þeirra renni til verkefna sem stuðla að sjálfbærni og hafi jákvæð áhrif á umhverfið. Þannig er fjárfest í verkefnum sem t.a.m. draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, minnka mengun og stuðla að umhverfisvænni flutningsmátum. Í sjávarútvegi má nefna rafvæðingu hafna, orkuskipti, fráveitumál og annað sem stuðlar að heilbrigði hafsins og umhverfisins. Meðal verkefna sem falla undir fjármögnunarramma Brims eru sorpflokkunarstöðvar félagsins, þar sem allt sem fellur til í starfseminni á sjó og landi er flokkað, uppbygging á umhverfisgagnagrunni með það að markmiði að hafa yfirsýn yfir losun og hvar hún verður til í starfseminni, ásamt endurnýjun tækja sem auka nýtingu hráefnis og draga úr umhverfisáhrifum.

Brim hefur á undanförnum árum fjárfest í sjálfbærniverkefnum og markvisst dregið úr áhrifum starfsemi sinnar á umhverfið. Sjálfbærni og umhverfismál hafa um árabil skipað stóran sess í rekstri fyrirtækisins og hefur félagið árlega gert grein fyrir ófjárhagslegum þáttum starfsemi sinnar í samræmi við Global Reporting Initiative GRI100-400 og UFS leiðbeiningar Nasdaq. Brim hlaut Umhverfisverðlaun atvinnulífsins árið 2019.

„Loflagsmálin eru ein af helstu áskorunum samtímans og við þurfum öll að bregðast við,“ segir Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims. „Lykillinn að árangri eru stórauknar fjárfestingar í nýsköpun og þróun verkefna á sviði umhverfis- og loftlagsmála. Þess vegna er mikilvægt að virkja fjármálamarkaðinn til samvinnu við okkur og festa í sessi faglegt verklag sem tryggir að sjálfbærni sé höfð að leiðarljósi við mat á fjárfestingum okkar.“

Íslandsbanki hafði umsjón með sölu skuldabréfanna. Úttektaraðili (e. second opinion provider) sjálfbæra fjármögnunarramma Brims er alþjóða ráðgjafafyrirtækið Sustainalytics, sem er í eigu Morningstar í Bretlandi. Ráðgjöf við uppsetningu fjármögnunarrammans veitti CIRCULAR Solutions, nú sjálfbærniráðgjöf KPMG. Nánari upplýsingar um fjármögnunarrammann og álit Sustainalytics er að finna á heimasíðu Brims, https://www.brim.is/brim/english/brim/investor-relations/sustainability/.

Stefnt er að uppgjöri viðskiptanna þann 22. október næstkomandi og að skráningu skuldabréfanna á Nasdaq Iceland hf. í framhaldinu.

Nánari upplýsingar veitir Gréta María Grétarsdóttir framkvæmdastjóri nýsköpunar, samfélagsábyrgðar og fjárfestatengsla í síma 781-8282 eða í tölvupósti greta@brim.is.

Viðhengi



Attachments

Brim Sustainable bonds framework Brim Sustainable Financing Framework Second Party Opinion