Ársuppgjör Brims hf. 2021


Góður rekstur og sterk fjárhagsstaða

Fjórði ársfjórðungur (4F)

  • Rekstrartekjur á 4F 2021 voru 96,3 m€ samanborið við 78,7 m€ á 4F 2020.
  • EBITDA nam 27,7 m€ á 4F samanborið við 13,7 m€ á sama tímabili 2020.
  • Hagnaður á 4F var 32,1 m€ samanborið við 7,9 m€ á 4F 2020.
  • Á 4F eru tekjufærðar 17,8 m€ vegna söluhagnaðar aflaheimilda, en félagið seldi 5,84% aflahlutdeild í loðnu, ástæða sölunnar er að Brim fór yfir heildarverðmæti aflahlutdeildar allra tegunda sem sæta ákvörðun um leyfðan heildarafla  af reiknuðum heildarþorskígildistonnum.

Árið 2021

  • Rekstrartekjur ársins 2021 voru 387,9 m€ samanborið við 292,4 m€ árið 2020.
  • EBITDA ársins 2021 var 93,2 m€ (24,0%) en var 57,4 m€ (19,6%) árið 2020. Mestu munar um loðnuveiðar ásamt því að botnfiskvinnsla félagsins í Norðurgarði var nú í fullum rekstri allt árið.
  • Hagnaður ársins 2021 var 75,2 m€, en var 29,4 m€ árið áður.
  • Hagnaður á hlut var 0,039 € en var 0,015 € árið 2020.
  • Heildareignir í árslok voru 795,9 m€ samanborið við 765,0 m€ í árslok 2020
  • Eiginfjárhlutfall var í lok árs 50% og eigið fé samtals 398,4 m€.

Helstu atriði úr starfseminni

  • Loðnuveiðar setja mark sitt á afkomu árins en loðnuveiðar fóru fram í febrúar-mars og desember eftir að stærstu úthlutun á loðnukvóta síðustu tveggja áratuga fór fram í október 2021.
  • Uppsjávarsvið félagsins var styrkt frekar með kaupum á þriðja uppsjávarskipinu Svani RE-45. 
  • Félagið seldi 5,84% aflahlutdeild í loðnu og nam söluverðið 22 millj. evra., söluhagnaður að fjárhæð 17,8 millj. evra er færður meðal annarra rekstrartekna á fjórða ársfjórðungi.
  • Aðilar samningsins hafa samið um að fallið sé frá kauprétti og söluskyldu og samið þess í stað um forkaupsrétt Brims að loðnuhlutdeildinni til næstu 36 mánaða, að öðru leyti er samningurinn óbreyttur.
  • Tekjur af botnfiski hækkuðu frá árinu áður, einkum vegna þess að botnfiskvinnslan í Norðurgarði var í rekstri allt árið, en vinnslan var lokuð í þrjá mánuði árið 2020 vegna endurnýjunar. 
  • Skipastóll samstæðunnar var 9 skip í árslok, en Höfrungur III AK-250 var seldur og Svanur RE-45 keyptur á árinu.
  • Á árinu 2021 var afli skipa félagsins 51 þúsund tonn af botnfiski og 96 þúsund tonn af uppsjávarfiski samanborið við tæp 46 þúsund tonn af botnfiski árið áður og tæp 82 þúsund tonn af uppsjávarfiski.
  • Á árinu gaf félagið út blá og græn skuldabréf sem falla undir sjálfbæran fjármögnunarramma að andvirði 16,7 millj. evra.
  • Stjórn Brims hefur ákveðið að afhenda fastráðnu starfsfólki félagsins og dótturfélaga hluti í Brimi í samræmi við starfsaldur hjá félaginu. Styrkur félagsins felst í öflugu starfsfólki til sjós og lands. Stjórnin þakkar fyrir vel unnin störf í þágu félagsins og þá sérstaklega síðustu tvö ár í heimsfaraldri Covid og þeim einstöku áskorunum sem við höfum staðið frammi fyrir. Á slíkum tímum verður seint undirstrikað mikilvægi starfsfólks í velferð og árangri félagsins til framtíðar. Áætlað er að þetta séu um 6 milljónir hluta og heildarkostnaður Brims er áætlaður um 650 milljónir króna.

Rekstur
Rekstrartekjur Brims hf. árið 2021 námu 387,9 m€ samanborið við 292,4 m€ árið áður. Hækkun rekstrartekna má bæði rekja til loðnuveiða sem og hærri veltu í botnfiskvinnslu.

Aðrar tekjur námu 20,9 m€ sem eru söluhagnaður vegna aflaheimilda að fjárhæð 17,8 m€  og söluhagnaður rekstrarfjármuna að fjárhæð 3,1 m m€. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 93,2 m€ eða 24,0% af rekstrartekjum, en var 57,4 m€ eða 19,6% árið áður. Fjármagnsgjöld voru 3,6 m€ samanborið við 6,8 m€ árið áður. Lækkun fjármagnsgjalda skýrist bæði af hækkun vaxtatekna og lækkun gengismunar.

Áhrif hlutdeildarfélaga voru jákvæð um 0,8 m€ sem er sama fjárhæð og árið áður. Hagnaður fyrir tekjuskatt var 94,7 m€, samanborið 36,4 m€ árið áður. Gjaldfærður tekjuskattur nam 19,5 m€, en var 7,5 m€ árið áður. Hagnaður ársins varð því 75,2 m€ en var 29,4 m€ árið áður.

Meðalfjöldi ársverka árið 2021 var 762 en var 769 árið 2020. Laun og launatengd gjöld námu samtals 78,5 m€, samanborið við 66,9 m€ árið áður (11,8 milljarðar króna á meðalgengi ársins samanborið við 10,3 milljarða árið áður).

Efnahagur

Heildareignir félagsins námu 795,9 m€ árslok 2021. Þar af voru fastafjármunir 627,5 m€ og veltufjármunir 168,4 m€. Fjárhagsstaða félagins er sterk og nam eigið fé 398,4 m€ og var eiginfjárhlutfall 50,0%, en var 44,1% í lok árs 2020. Heildarskuldir félagsins í árslok 2021 voru 397,5 m€.

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri nam 82,5 m€ árið 2021, en var 43,1 m€ árið áður.  Fjárfestingarhreyfingar voru jákvæðar um 24,5 m€. Fjármögnunarhreyfingar voru neikvæðar um 51,8 m€. Handbært fé hækkaði því um 55,3 m€ á tímabilinu og var í árslok 76,9 m€.

Meginniðurstöður færðar til íslenskra króna

Séu niðurstöður rekstrarreiknings reiknaðar til íslenskra króna á meðalgengi ársins 2021 (1 evra = 150,19 ísk) voru tekjur 58,3 milljarður króna, EBITDA 14,0 milljarðar og hagnaður 11,3 milljarðar. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar til íslenskra króna á lokagengi ársins 2021 (1 evra = 147,6 ísk) voru eignir samtals 117,5 milljarðar króna, skuldir 58,7 milljarðar og eigið fé 58,8 milljarðar.

Covid-19

Áhrif veirufaraldursins Covid-19 á rekstur samstæðunnar hafa verið nokkur á árinu.  Stjórnendur og starfsmenn samstæðunnar hafa markvisst unnið að því að bregðast við áhættum í rekstrarumhverfi vegna Covid-19 veirufaraldursins og afleiðingum hans.

Neikvæðra áhrifa heimsfaraldurs gætti enn á ferskfiskmörkuðum á fyrri hluta ársins þar sem ferðalög fólks voru í lágmarki, mötuneyti víða lokuð og starfsemi veitingahúsa takmörkuð.  Eftirspurn tók við sér um mitt ár samhliða auknum bólusetningum og frjálsræði borgara á helstu mörkuðum og verðþróun var hagstæð fyrir helstu afurðir.  Flutningar hafa gengið vel fyrir ferskar afurðir en kostnaður við flutninga hefur almennt hækkað.

Áhrif veirufaraldursins á rekstur Brims á næstu mánuðum ræðst eðilega af þróun heimsfaraldursins. Stjórnendur samstæðunnar fylgjast náið með þróun mála á helstu mörkuðum en samstæðan er vel í stakk búin til að takast á við breyttar aðstæður, en ekki er hægt að segja til um það hversu mikil áhrif faraldurinn og óvissu í heimsmálum hefur á rekstur og efnahag til framtíðar. Samstæðan er fjárhagslega sterk og hefur gott aðgengi að lánsfjármagni.

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri:

„Styrkur Brims kom vel í ljós á síðasta ári.  Starfsfólk Brims sýndi þrautseigju og elju annað árið í röð í erfiðu árferði vegna Covid heimsfaraldrar.  Það veiddist vel, framleiðsla gekk vel sem og sala á afurðum á erlendum mörkuðum. Miklar fjárfestingar félagsins undanfarinna ára í hátæknivinnslubúnaði, veiðiheimildum og nýjum skipum eru einnig að skila sér með sýnilegum hætti í bættum rekstri og afkomu Brims. Fjárfesting í sölufyrirtækjum á síðustu misserum hefur haft jákvæð áhrif á afurðaverð þeirra vara sem seldar eru á erlenda markaði sem skilar sér í hærri verðum og aukinni arðsemi í rekstri félagsins alls.

Þegar við skoðum síðasta ársfjórðung ársins 2021 sérstaklega sjáum við að EBITDA hagnaður tvöfaldast frá sama tímabili árið áður, úr 13,7 milljónum evra í 27,7 milljónir. Ástæðan er aukin veiði á síld og loðnu og hærra verð á sjávarafurðum. Annað sem vekur athygli á fjórðungnum er sala félagsins á 5,84% aflahlutdeild í loðnu. Þrátt fyrir bókfærðan söluhagnað upp á tæpar  18 milljónir evra var það stjórnendum þvert um geð að selja aflahlutdeildina. Í kjölfar óvenjumikillar úthlutunar á veiðiheimildum á loðnu og þess að þorskígildisstuðull loðnu fór úr 0,00 í 0,36 fóru heildar þorskígildi félagsins upp fyrir 12% þorskígildishámark og varð félagið því að selja frá sér aflaheimildir sem það hafði alla burði og getu til að veiða og vinna.

Þegar horft er um öxl sést að á árinu 2021 hélt Brim áfram að vaxa og styrkjast. Heildareignir félagsins jukust og nema núna nærri 796 milljónum evra. Fjárhagsstaðan er góð þar sem eigið fé er 398 milljónir evra. Eiginfjárhlutfall er 50% í samanburði við 44% ári áður. Það má því segja að Brim sé hraust og burðugt félag.  Brim keppir um hylli viðskiptavina á fjarlægum mörkuðum við fjölþjóðakeppinauta sem eru margfalt stærri og þess vegna þarf félagið  að vera fjárhagslega sterkt, lipurt og standa á eigin fótum til að geta brugðist rétt við nýjum og breyttum aðstæðum á hverjum tíma. Að mínu mati er Brim þannig fyrirtæki í dag.”

Aðalfundur

Aðalfundur Brims hf. verður haldinn fimmtudaginn 24. mars 2022 klukkan 17:00. Nánari upplýsingar verða veittar á heimasíðu félagsins www.brim.is.

Tillaga stjórnar á aðalfundi um arðgreiðslu

Samkvæmt stefnu félagsins sem kynnt var í skráningarlýsingu félagsins árið 2014 leggur stjórn félagsins til að arðgreiðsla á árinu 2021 vegna rekstrarársins 2021 verði 2,1 kr. á hlut, eða 4.034 millj. kr. (um 27,3 millj. evra á lokagengi ársins 2021, eða 28,6 millj. evra mv. gengi evru 23. febrúar), eða 2,7% af markaðsvirði hlutafjár í lok árs 2021. Arðurinn verði greiddur 29. apríl 2022. Síðasti viðskiptadagur þar sem arður fylgir bréfunum er 24. mars 2022 og arðleysisdagur því 25. mars 2022.

Arðsréttindadagur er 28. mars 2022. Arður greiðist þeim sem skráðir eru í hlutaskrá félagsins í lok arðsréttindadags.

Samþykkt ársreiknings

Ársreikningurinn var samþykktur á stjórnarfundi Brims hf. 24. febrúar 2022. Ársreikningurinn er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS – International Financial Reporting Standards) og hefur verið endurskoðaður af endurskoðendum félagsins.

Kynningarfundur þann 24. febrúar 2022

Rafrænn kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta verður haldinn fimmtudaginn 24. febrúar klukkan 16:00, þar mun Guðmundur Kristjánsson forstjóri félagsins kynna uppgjörið.  Fundurinn verður eingöngu rafrænn og hægt verður að fylgjandst með fundinum á www.brim.is/streymi.  Velkomið er að senda spurningar fyrir fundinn eða á meðan fundi stendur á netfangið fjarfestatengsl@brim.is.  Spurningum verður svarað í lok fundar. 

Brim hf.

Brim er öflugt sjávarútvegsfyrirtæki sem starfar í sátt við samfélagið og umhverfið. Við stuðlum að verðmætasköpun með vöruþróun, tæknilausnum og öflugu starfsfólki. Við tryggjum með ábyrgum veiðum og vinnslu, þar sem áhersla er á sjálfbærni og nýsköpun, að sjávarútvegur verði áfram burðarstólpi í íslensku samfélagi. Við leitum allra leiða til að lágmarka áhrif starfseminnar á umhverfið hvort sem er á sjó eða í landi.

Fjárhagsdagatal

Aðalfundur                              24. mars 2022
Arðgreiðsludagur                    29. apríl 2022
Fyrsti ársfjórðungur                19. maí 2022
Annar ársfjórðungur               25. ágúst 2022
Þriðji ársfjórðungur                 17. nóvember 2022
Fjórði ársfjórðungur                24. febrúar 2023

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar veitir Guðmundur Kristjánsson forstjóri, sími 550-1000.

Viðhengi



Attachments

635400YXSJKSF3H3CB31-2021-12-31-is (2) Deloitte - Staðfesting vegna skuldabrefaflokks BRIM 221026GB Brim - fjarfestakynning F4 2021 Ársreikningur Brims 2021 Afkoma Brims hf 2021 635400YXSJKSF3H3CB31-2021-12-31-is.zip-viewer (2)