Lykilstærðir
Allar fjárhæðir í evrum og samanburðartölur í sviga.
- Rekstrartekjur voru 172,7 m€ (161,8 m€).
- EBITDA af reglulegri starfsemi var 30,0 m€ (27,5 m€).
- Hagnaður ársins nam 16,9 m€ (15,1 m€).
- Heildareignir voru 273,0 m€ (246,6 m€ í lok 2020).
- Vaxtaberandi skuldir voru 95,9 m€ (90,6 m€ í lok 2020).
- Eiginfjárhlutfall var 52,8% (52,3% í lok 2020).
- Meðalfjöldi starfsmanna á árinu var 1.191 (1.159 árið 2020).
Rekstur
Rekstrartekjur samstæðunnar voru 172,7 m€ og jukust um 6,7% á milli ára.
EBITDA félagsins hækkaði um 9% á milli ára eða úr 27,5 m€ á árinu 2020 í 30,0 m€ á árinu 2021.
Hagnaður ársins var 16,9 m€ en var 15,1 m€ á árinu 2020 og nemur hækkun á hagnaði samstæðunnar því um 11,5% á milli ára.
Efnahagur
Heildareignir voru 273,0 m€ og hafa hækkað úr 246,6 m€ frá árslokum 2020.
Eigið fé nam 144,3 m€, en af þeirri upphæð eru 13,9 m€ hlutdeild minnihluta í eigin fé dótturfélaga.
Hlutfall eigin fjár, þegar hlutdeild minnihluta er meðtalin, var í lok ársins 52,8% af heildareignum samstæðunnar en var 52,3% í árslok 2020.
Vaxtaberandi skuldir námu í árslok 95,9 m€ samanborið við 90,6 m€ í ársbyrjun.
Helstu tölur í íslenskum krónum
Miðað við meðalgengi krónunnar gagnvart evru á árinu 2021 þá er velta samstæðunnar um 25,9 milljarðar, EBITDA 4,5 milljarðar og hagnaður 2,5 milljarðar. Miðað við gengi krónunnar gagnvart evru í lok árs 2021 þá eru heildareignir 40,3 milljarðar, skuldir 19,0 milljarðar og eigið fé 21,3 milljarður.
Aðalfundur
Aðalfundur Hampiðjunnar verður haldinn föstudaginn 25. mars 2022 í fundarsal félagsins að Skarfagörðum 4 í Reykjavík og hefst fundurinn klukkan 16:00.
Tillaga stjórnar um arðgreiðslu
Stjórn félagsins leggur til að á árinu 2022 vegna rekstrarársins 2021 verði greidd 1,8 kr. á hlut í arð til hluthafa, eða 900 milljónir ISK. Arðurinn verði greiddur í viku 23. Síðasti viðskiptadagur þar sem arður fylgir bréfunum er 25. mars 2022, þ.e. viðskipti sem fara fram á þeim degi koma fram í hlutaskrá félagsins á arðsréttindadeginum 29. mars. Arðleysisdagurinn er 28. mars.
Samþykkt ársreiknings
Ársreikningurinn var samþykktur á stjórnarfundi Hampiðjunnar hf. þann 10. mars 2022. Ársreikningurinn er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS – International Financial Reporting Standards) og hefur verið endurskoðaður af endurskoðanda félagsins.
Ársreikningurinn er aðgengilegur á heimasíðu Hampiðjunnar hf., www.hampidjan.is
Hjörtur Erlendsson, forstjóri:
„Árið 2021 reyndist gott ár fyrir samstæðu Hampiðjunnar og virtist heimsfaraldurinn hafa haft tiltölulega lítil áhrif á fyrirtæki samstæðunnar þrátt fyrir oft á tíðum erfiðar aðstæður.
Salan jókst um 6,7% og munar þar mestu um góða sölu dótturfélagsins Hampiðjan Ísland eftir dræma sölu árið á undan og undir lok ársins seldist töluvert mikið til íslenskra útgerða þegar ljóst varð að loðnukvótinn yrði sá stærsti i áraraðir. Sala annarra dótturfyrirtækja sem staðsett eru á Íslandi, Voot og Hampidjan Offshore, jókst einnig ágætlega.
Í öðrum starfslöndum samstæðunnar reyndist salan einnig vera umtalsvert betri en árið á undan og má þar sérstaklega nefna Írland, Skotland, Kanada, Ástralíu, Færeyjar og Noreg. Eins og við var búist þá dróst sala í Danmörku saman eftir metárið 2020 og áhrif Brexit sáust þar greinilega þótt þau hefðu orðið heldur minni en búist var við.
Góð sala var á fiskeldiskvíum á árinu og svipuð árinu á undan, en vegna þess hversu mikið seldist af dýrum kvíum úr ofurefnum það ár, þá er það mjög ásættanleg niðurstaða. Sala á kvíum og þjónusta við fiskeldið verður sífellt mikilvægari þáttur í starfsemi Hampiðjunnar og markvisst hefur verið fjárfest undanfarin ár í búnaði, aðstöðu og byggingum til að auka og bæta þjónustuna og er þar ekkert lát á.
Í byrjun 2021 var tekin í notkun nýr og rúmgóður vinnusalur í Norðskála í Færeyjum ásamt stórri 60 m³ þvottavél og endurbættum vatnshreinsibúnaði. Samskonar breytingar og endurbætur voru gerðar í Finnsnes N-Noregi með stórum vinnusölum og 70 m³ þvottavél en stærri verða þær ekki. Fiskeldiskvíar í Noregi eru umfangsmeiri en þær sem notaðar eru við Ísland og Færeyjar því þær geta verið töluvert dýpri vegna djúpra fjarða í Noregi.
Hér á Íslandi var ráðist í metnaðarfulla byggingu á 1.800 m² aðstöðu fyrir fiskeldisþjónustu á Ísafirði og verður tækjabúnaður allur og fyrirkomulag hans með því besta sem gerist í dag. Fiskeldisþjónustan tekur til starfa á vordögum til að þjóna sívaxandi umsvifum fiskeldisfyrirtækjanna á Vestfjörðum.
Verslunarrekstur hefur ekki verið stór hluti af veltu Hampiðjunnar á Íslandi en það hefur sýnt sig undanfarin ár að þörf er á sérhæfðum verslunum fyrir útgerðarvörur, lyftibúnað og sjóvinnuföt hér á landi. Á árinu var opnuð glæsileg verslun með slíkar vörur í höfuðstöðvum Hampiðjunnar í Sundahöfn og hefur það gefið góða raun. Samtvinning verslunarreksturs við netaverkstæði Hampiðjan Ísland í samstarfi við systurfyrirtækið Voot er hagkvæm og er fyrirhugað að opna slíkar verslanir á öllum starfstöðvum Hampiðjunnar á Íslandi á þessu ári.
Í framhaldi á kaupum Hampiðjunnar á eignarhlut í skosku félögunum Jackson Trawls Limited og Jackson Offshore var ákveðið að taka yfir verslunarrekstur og þjónustu útgerðarfyrirtækisins Caley Fisheries í Skotlandi þegar það fyrirtæki ákvað að einbeita sér alfarið að útgerð. Sama gildir þar og hér á Íslandi að slíkur rekstur stendur netaverkstæði nær en útgerðarfyrirtæki.
Aukin sala samstæðunnar og hlutfallslega meiri innkaup fyrirtækja innan samstæðunnar á efnum til veiðarfæragerðar frá Hampidjan Baltic kallar sífellt á aukna afkastagetu og tækjabúnað af fullkomnustu gerð. Til að mæta þeirri þörf hefur verið fjárfest í meðalstórum kaðlafléttivélum og afar fullkomnu og stóru gufuþrýstitæki til að meðhöndla nylon trollnet. Uppsetningu þess er nú lokið og notkun hafin. Á þessu ári verður afkastagetan í fléttuðu netagarni aukin umtalsvert ásamt framleiðslugetu á möskvaleggjum fyrir flottroll.
Samlegðaráhrif vegna kaupa á fyrirtækjum undanfarin ár hefur skilað sér eins og áætlað var og EBITDA hlutfallið hækkaði úr 17,0% í 17,4%.
Efnahagsreikningurinn hækkaði um tæp 11% á milli ára, úr 246,6 m€ í 273,0 m€ og þar er fyrst og fremst um að ræða fjárfestingar í byggingum og framleiðslutækjum en hluti skrifast á auknar birgðir. Aðgengi að hráefnum hefur verið frekar ótryggt síðastliðið ár og við því hefur verið brugðist með því að hækka viðmið öryggislagera og það leiðir óhjákvæmilega til meiri fjárbindingar.
Starfsmenn Hampiðjunnar voru að meðaltali 1.191 á árinu og fjölgði því um 2,8% úr 1.159 árið á undan. Á síðasta ári störfuðu 86 á Íslandi sem er töluverð auking frá fyrra ári en þá voru störfin hér á landi 76. Af heildinni eru nú 7% starfa hér á landi. Sem fyrr eru fjölmennustu starfsstöðvarnar í Litháen en þar starfar yfir helmingur starfsmanna samstæðunnar.
Vöruþróun undanfarinna ára með nýja einkaleyfisvarða tóggerð sem ber nafnið TechIce er nú að bera ávöxt og í farvatninu eru fyrstu sölurnar á þessu tógi. Tógið er sérstaklega beygjuþolið og hitaþolið ofurtóg úr kevlarefnum.
Félög innan samstæðunnar hafa selt veiðarfæri til útgerða í Rússlandi. Ekki er um að ræða verulegan hluta af veltu samstæðunnar og áhrifin á starfsemi samstæðunnar því takmörkuð.“
Nánari upplýsingar
Frekari upplýsingar veitir Hjörtur Erlendsson forstjóri í síma 664 3361.
Viðurkenndur ráðgjafi
Viðurkenndur ráðgjafi Hampiðjunnar á Nasdaq First North er PwC.
Viðhengi