Upplýsingar um rekstrarafkomu fjárhagsársins 2022
Samkvæmt drögum að ársuppgjöri Ölgerðarinnar fyrir fjárhagsárið 2022 sem nú liggja fyrir, nemur EBITDA afkoma félagsins 4,56 ma.kr. Í tilkynningu vegna 9 mánaða uppgjörs Ölgerðarinnar sem birt var 12. janúar sl. kom fram að gert væri ráð fyrir að EBITDA fjárhagsársins yrði í efri enda áður útgefinnar afkomuspár, sem var á bilinu 4,1 – 4,4 ma.kr.
Nokkrir þættir valda betri afkomu og má þar nefna að fjölgun ferðamanna til Íslands hefur aukið umsvif á hótel- og veitingamarkaði. Talsverð aukning varð í seldum lítrum af drykkjarvörum og styrktu vörumerki félagsins sig í sessi, einkum í bjór og áfengum drykkjarvörum. Framleiddir lítrar jukust um 14% milli ára og framleiddar einingar um 17%. Hagræðing í rekstri hefur skilað því að félagið hefur ekki þurft að hækka framleiðsluvörur sínar í samræmi við almenna verðlagsþróun.
Tekjur félagsins vegna vatnsútflutnings Iceland Spring ehf hafa vaxið talsvert og árið 2022 var það besta í rekstri Iceland Spring frá upphafi. Sala félagsins á vatni hefur tvöfaldast frá árinu 2020.
Hafa ber í huga að upplýsingar sem koma fram í þessari tilkynningu eru ekki byggðar á endanlegu uppgjöri eða endurskoðuðum niðurstöðum Ölgerðarinnar. Endanlegur ársreikningur félagsins fyrir fjárhagsárið 2022 verður birtur eftir lokun markaða 18. apríl nk. líkt og fram kemur í fjárhagsdagatali félagsins.