Aðalfundur Sjóvá-Almennra trygginga hf., sem haldinn var 10. mars 2023, veitti stjórn félagsins heimild til að kaupa allt að 117.839.321 eigin hluti í félaginu, en það jafngildir 10% af útgefnu hlutafé félagsins þegar tekið hefur verið tillit til hlutafjárlækkunar sem samþykkt var á sama aðalfundi. Heimildina skal einungis nýta í þeim tilgangi að setja upp formlega endurkaupaáætlun eða til þess að gera hluthöfum almennt tilboð um kaup á eigin bréfum. Heimildin gildir í 18 mánuði og takmarkast við að eignarhald félagsins og dótturfélaga þess fari ekki umfram 10% af heildarhlutafé félagsins á hverjum tíma.
Stjórn Sjóvá-Almennra trygginga hf. hefur á grundvelli framangreindrar heimildar tekið ákvörðun um kaup á eigin hlutum samkvæmt endurkaupaáætlun í þeim tilgangi að lækka útgefið hlutafé félagsins. Félagið á í dag 7.183.908 eigin hluti, eða sem nemur 0,61% af útgefnu hlutafé, og munu endurkaupin nema að hámarki kr. 7.331.378 að nafnverði þannig að eigin hlutir nemi að hámarki 1,23% af útgefnu hlutafé félagsins. Þó þannig að heildarkaupverð verði ekki hærra en 250 milljónir króna. Gert er ráð fyrir að endurkaupum samkvæmt áætluninni ljúki í síðasta lagi 10. september 2024 eða fyrr ef skilyrði um hámarkskaup eru uppfyllt fyrir þá dagsetningu.
Kaup samkvæmt endurkaupaáætluninni verða framkvæmd í áföngum, þó þannig að kaup hvers dags munu nema að hámarki 388.363 hlutum, eða sem nemur 25% af meðaltali daglegra viðskipta með hlutabréf félagsins á aðalmarkaði Nasdaq Iceland hf. í apríl 2023. Endurgjald fyrir keypta hluti skal ekki vera hærra en sem nemur verði síðustu óháðu viðskipta eða hæsta fyrirliggjandi óháða kauptilboði í þeim viðskiptakerfum þar sem viðskipti með hlutina fara fram, hvort sem er hærra.
Markaðsviðskipti Landsbankans hf. mun hafa umsjón með framkvæmd endurkaupaáætlunarinnar og taka allar viðskiptaákvarðanir er varða kaup á hlutum og tímasetningu kaupanna óháð félaginu.
Framkvæmd endurkaupaáætlunarinnar verður í samræmi við lög um hlutafélög nr. 2/1995, 5. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) um markaðssvik nr. 596/2014, sem og framselda reglugerð framkvæmdastjórnarinnar 2016/1052, samanber lög um aðgerðir gegn markaðssvikum nr. 60/2021.
Viðskipti félagsins með eigin hluti á grundvelli endurkaupaáætlunarinnar verða tilkynnt eigi síðar en við lok sjöunda viðskiptadags eftir að viðskiptin fara fram.
Nánari upplýsingar veitir:
Davíð Scheving Thorsteinsson í síma 869-8109 eða á netfangið fjarfestar@sjova.is