566 m.kr. hagnaður og samsett hlutfall 97,6% á fyrstu sex mánuðum ársins
Annar ársfjórðungur 2023
- Hagnaður af vátryggingasamningum fyrir skatta 479 m.kr. (2F 2022: 87 m.kr.)
- Tap af fjárfestingarstarfsemi fyrir skatta 416 m.kr. (Tap 2F 2022: 260 m.kr.)
- Tap tímabilsins 69 m.kr. (Tap 2F 2022: 123 m.kr.)
- Ávöxtun fjárfestingareigna í stýringu -0,2% (2F 2022: -0,4%)
- Samsett hlutfall 93,8% (2F 2022: 98,7%)
Fyrstu sex mánuðir ársins 2023 og horfur
- Hagnaður af vátryggingasamningum fyrir skatta 368 m.kr. (6M 2022: 451 m.kr.)
- Hagnaður af fjárfestingarstarfsemi fyrir skatta 396 m.kr. (6M 2022: 620 m.kr.)
- Hagnaður tímabilsins 566 m.kr. (6M 2022: 936 m.kr.)
- Ávöxtun fjárfestingareigna í stýringu 1,4% (6M 2022: 1,3%)
- Samsett hlutfall 97,6% (6M 2022: 96,6%)
- Horfur fyrir árið 2023 gera ráð fyrir að afkoma af vátryggingasamningum verði um 1.000-1.300 m.kr. (var 1.400-1.900 m. kr.) og samsett hlutfall 96-97% (var 94-96%).
- Horfur til næstu 12 mánaða gera ráð fyrir að afkoma af vátryggingasamningum verði um 1.100-1.600 m.kr. (var 1.400-1.900 m. kr.) og samsett hlutfall 95-97% (var 94-96%)
Hermann Björnsson, forstjóri:
Hagnaður Sjóvár fyrir skatta nam 84 m. kr. á öðrum ársfjórðungi og var samsett hlutfall 93,8%.
Það er ánægjulegt að vátryggingastarfsemin skili góðri afkomu í kjölfar krefjandi fyrsta ársfjórðungs en hagnaður af vátryggingasamningum fyrir skatta nam 479 m.kr. Tekjur af vátryggingasamningum jukust um 10,1% miðað við sama fjórðung í fyrra þegar leiðrétt er fyrir því að Sjóvá ráðstafaði rúmlega 600 m. kr. til viðskiptavina í formi endurgreiðslu í maí í fyrra.
Afkoma af fjárfestingastarfsemi fyrir fjármagnsliði og skatta á öðrum ársfjórðungi var neikvæð um 171 m.kr. sem skýrist að miklu leyti af töluverðri lækkun skráðra hlutabréfa á fjórðungnum. Allir eignaflokkar skiluðu jákvæðri afkomu að undanskildum skráðum hlutabréfum þar sem afkoman var neikvæð um 735 m.kr. Ávöxtun skráðra hlutabréfa var -5,9%, ríkisskuldabréfa 1,5% og ávöxtun safnsins alls -0,2% á fjórðungnum sem er ásættanlegt í ljósi markaðsaðstæðna en undir væntingum um ávöxtun til lengri tíma.
Í upphafi júlímánaðar sl. var tilkynnt um kaup danska heilbrigðisfyrirtækisins Coloplast á Kerecis og er um að ræða eina stærstu fyrirtækjasölu í sögu íslensks viðskiptalífs. Sjóvá hefur verið meðal hluthafa Kerecis frá 2019 og er stolt af því að hafa stutt þetta ótrúlega nýsköpunarfyrirtæki á vegferð sinni. Sjóvá mun bókfæra u.þ.b. 1.150 m.kr. hagnað á þriðja ársfjórðungi 2023 vegna sölunnar en nákvæmt söluvirði kann að taka breytingum, m.a. vegna mögulegrar viðbótargreiðslu tengdri rekstrarárangri Kerecis og gengi bandaríkjadollar þegar salan fer fram.
Hagnaður Sjóvár fyrir skatta á fyrstu 6 mánuðum ársins nam 815 m.kr. Þar af nam hagnaður af vátryggingasamningum fyrir skatta 368 m.kr. og samsett hlutfall 97,6%. Þá var hagnaður af fjárfestingastarfsemi fyrir fjármagnsliði og skatta 627 m.kr.
Af starfseminni eru margar ánægjulegar fréttir úr fjórðungnum. Á landsþingi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar í maí sl. var Sjóvá veitt viðurkenning félagsins, Áttavitann, fyrir stuðning sinn við starfsemi Landsbjargar. Til viðbótar við áralangan stuðning veitti Sjóvá Landsbjörg styrk árið 2021 upp á 142,5 milljónir til kaupa á þremur nýjum björgunarskipum og eru tvö fyrstu skipin, Þór og Sigurvin, komin til sinna heimahafna í Vestmannaeyjum og Siglufirði. Þriðja skipið er væntanlegt til landsins í sumar og verður með heimahöfn í Reykjavík.
Við erum afar stolt af samstarfi okkar og Landsbjargar. Áttavitinn er viðurkenning á því góða samstarfi og er það okkur mikill heiður að fá að taka þátt í að gera starf Landsbjargar eins gott og mögulegt er.
Þá náði Sjóvá góðum árangri í UFS sjálfbærnimati Reitunar í júlí þegar félagið fékk einkunnina B2 og 78 stig af 100 mögulegum sem telst góð einkunn. Sjóvá mælist yfir meðaltali í umhverfis- og félagsþáttum og er á pari við meðaltal í stjórnarháttum í samanburði við önnur félög sem metin hafa verið. Matið gerir grein fyrir því hvernig fyrirtæki standa frammi fyrir áhættum sem snúa að umhverfis- og félagsþáttum og stjórnarháttum. Sjóvá hefur lengi keppst við að vera framarlega á sviði sjálfbærni og því er afar ánægjulegt að fá þessa góða viðurkenningu. Nýlega var sjálfbærninefnd Sjóvár sett á laggirnar sem mun starfa sem undirnefnd stjórnar og stuðla að aukinni áherslu Sjóvár á sjálfbærni.
Í ágúst hlaut Sjóvá einnig, ásamt öðrum, viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið nafnbótina Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum sem veitt er af Stjórnvísi, Viðskiptaráði, Samtökum atvinnulífsins og Nasdaq á Íslandi.
Þróun tækniinnviða og stafrænna þjónustuleiða félagsins hefur skilað sér í hærra þjónustustigi og aukinni ánægju viðskiptavina, á sama tíma og hlutfall rekstrarkostnaðar félagsins lækkar. Sjóvá mælist með ánægðustu viðskiptavini tryggingafélaga, er með þéttasta útibúanet og fær á sama tíma hæstu einkunn tryggingafélaga þegar kemur að upplifun viðskiptavina á stafrænum þjónustulausnum tryggingafélaganna. Sjóvá er jafnframt það tryggingafélag sem flestir Íslendingar myndu velja væru þeir að taka ákvörðun um það í dag samkvæmt niðurstöðum mælinga EMC markaðsrannsókna og Prósent.
Sem dæmi um framfarir í tækniframboði og nýtingu viðskiptavina má nefna rafræna tilkynningu tjóna. Í nóvember 2021 skráðu 35% viðskiptavina tjón sín rafrænt. Nú er þetta hlutfall komið í 79% og á sama tíma er tjónaafgreiðslan skilvirkari.
Þegar horfur fyrir 2023 eru metnar verður að taka tillit til stórra brunatjóna sem hent hafa okkar viðskiptavini það sem af er ári. En einnig verður að líta til þess að undirliggjandi rekstur á fyrstu 6 mánuðum er sterkur með jákvæðum vexti iðgjalda. Með þetta í huga teljum við rétt að breyta horfum sem áður voru að afkoma af vátryggingasamningum fyrir árið 2023 voru áætlaðar 1.400-1.900 m.kr. og samsett hlutfall á bilinu 94-96% þannig að afkoma af vátryggingasamningum verði u.þ.b. 1.000-1.300 m.kr. og samsett hlutfall um 96%-97%. Horfur til næstu 12 mánaða gera ráð fyrir að afkoma af vátryggingasamningum verði um 1.100-1.600 m.kr. og samsett hlutfall 95-97%. Gangi þessar breyttu horfur eftir verður að telja þá niðurstöðu mjög vel við unandi.
Kynningarfundur 28. ágúst kl. 16:15
Markaðsaðilum og fjárfestum er boðið á kynningarfund í fundarsal félagsins í Kringlunni 5, 6. hæð þann 28. ágúst kl. 16:15. Þar munu Hermann Björnsson forstjóri, Sigríður Vala Halldórsdóttir framkvæmdastjóri fjármála og upplýsingatækni og Þórður Pálsson forstöðumaður fjárfestinga kynna uppgjörið og fara yfir afkomu félagsins. Kynningunni verður jafnframt streymt á slóðinni https://www.sjova.is/um-okkur/fjarfestar/afkomukynning-2f-2023/.
Vilji aðilar bera upp spurningar má senda þær á netfangið fjarfestar@sjova.is fyrir fundinn eða á meðan á fundi stendur og verður þeim svarað í lok kynningarinnar.
Uppgjörsefni verður aðgengilegt á vef Sjóvár www.sjova.is/fjarfestar frá þeim tíma er kynningin hefst og verður upptaka af fundinum aðgengileg á sömu síðu að fundi loknum.
Nánari upplýsingar
Meðfylgjandi er fréttatilkynning, samandreginn árshlutareikningur samstæðunnar og fjárfestakynning Sjóvá-Almennra trygginga hf. vegna annars ársfjórðungs 2023.
Nánari upplýsingar veitir Davíð Scheving Thorsteinsson í síma 869-8109 eða fjarfestar@sjova.is.
Viðhengi
- Árshlutareikningur Sjóvá 30.6.2023
- Fjárfestakynning Sjóvá - 2F 2023
- Fréttatilkynning Sjóvá - 2F 2023