Á aðalfundi Haga hf. sem haldinn var þann 1. júní 2023 var samþykkt að heimila félaginu að kaupa á næstu 18 mánuðum, frá samþykkt, hlutabréf í félaginu fyrir allt að 10% af heildarhlutafé félagsins í þeim tilgangi að koma á viðskiptavakt með hluti í félaginu og/eða til að setja upp formlega endurkaupaáætlun. Stjórn Haga hf. hefur á grundvelli fyrrgreindrar samþykktar tekið ákvörðun um framkvæmd endurkaupaáætlunar um kaup á eigin bréfum í þeim tilgangi að lækka útgefið hlutafé félagsins.
Endurkaupin munu að hámarki nema 103.448.642 hlutum í félaginu, þó þannig að fjárhæð endurkaupanna verði aldrei meiri en 1.000 milljónir króna. Við endurkaup skal hæsta leyfilega endurgjald fyrir hvern hlut ekki vera hærra en sem nemur verði síðustu óháðu viðskipta eða hæsta fyrirliggjandi óháða kauptilboði í þeim viðskiptakerfum þar sem viðskipti með hlutina fara fram, hvort sem er hærra.
Samið hefur verið við Fossa fjárfestingarbanka hf. um að annast endurkaupin. Kaupin hefjast með öfugu tilboðsfyrirkomulagi og samkvæmt hollenskri aðferð, þ.e. öll samþykkt tilboð bjóðast fjárfestum á hæsta verði sem verður tekið. Allir hluthafar Haga hf. geta gert tilboð um að selja bréf sín til félagsins fyrir milligöngu Markaðsviðskipta Fossa fjárfestingarbanka hf. Hagar áskilja sér rétt til að taka eða hafna hvaða tilboði sem er í heild eða að hluta.
Endurkaupin eru í samræmi við lög um hlutafélög nr. 2/1995, 5. gr. MAR (reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 596/2014 um markaðssvik, sem hefur lagagildi hér á landi sbr. lög nr. 60/2021 um aðgerðir gegn markaðssvikum), sem og framselda reglugerð framkvæmdastjórnarinnar 2016/1052/EB sem hefur að geyma tæknilega skilmála varðandi endurkaupaáætlanir.
Tilboðum skal skila til Markaðsviðskipta Fossa fjárfestingarbanka hf., sem einnig svara fyrirspurnum, á netfangið markadsvidskipti@fossar.is merkt „Hagar endurkaup“ fyrir kl. 08:30, föstudaginn 20. október 2023.
Niðurstöður verða tilkynntar í fréttakerfi Nasdaq Iceland fyrir kl. 9:30, föstudaginn 20. október 2023. Uppgjörsdagur samþykktra tilboða er þriðjudagurinn 24. október 2023.
Hagar hf. eiga 7.194.244 eigin hluti áður en endurkaupin samkvæmt tilboðsfyrirkomulaginu hefjast.
Nánari upplýsingar veita:
Guðrún Eva Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Haga hf., í síma 530-5500 eða á geg@hagar.is
Markaðsviðskipti Fossa fjárfestingarbanka í gegnum netfangið markadsvidskipti@fossar.is