Icelandair: Tekjuhæsti fjórðungur í sögu félagsins – Hagnaður eftir skatta 11 milljarðar króna á 3. ársfjórðungi 2023



Hagnaður eftir skatta 11,3 milljarðar króna (84,5 milljónir USD) og jókst um 3,5 milljarða króna (26,6 milljónir USD) milli ára

• EBIT 15 milljarðar króna (112,0 milljónir USD) samanborið við 12,4 milljarða (92,7 milljónir USD) í fyrra

• Heildartekjur 74,7 milljarðar króna (560,4 milljónir USD), þær hæstu frá upphafi í einum fjórðungi og jukust um 17% á milli ára

• Met einingatekjur að fjárhæð 9,3 US sent og jukust um 1% á milli ára; farþegatengdar einingatekjur jukust meira eða um 3%

• Neikvæð áhrif af fraktstarfsemi á EBIT um 900 milljónir króna (6,7 milljónir USD)

• Fjöldi farþega 1,5 milljón

• Farþegaaukning á markaðnum til Íslands 16%

• Eiginfjárhlutfall hækkar í 21% samanborið við 19% í upphafi árs

• Sterk lausafjárstaða að fjárhæð 58,6 milljarðar króna (423,7 milljónir USD)

• EBIT hlutfall ársins 2023 áætlað 3,3 - 4,3% af heildartekjum


BOGI NILS BOGASON , FORSTJÓRI

„Það er ánægjulegt að skila svo góðum árangri í okkar stærsta og mikilvægasta fjórðungi. Undirstaða góðrar afkomu var sterk tekjumyndun í farþegaflugi en þriðji ársfjórðungur þessa árs var tekjuhæsti fjórðungur í sögu félagsins. Rekstur leiðakerfisins gekk mjög vel og var sérstaklega ánægjulegt að ná fram bættri stundvísi. Flugáætlun okkar var jafnframt sú stærsta hingað til þegar kemur að fjölda flugferða. Við fluttum 1,5 milljónir farþega til 49 áfangastaða í Evrópu og Norður Ameríku. Þá réðum við um 1.000 starfsmenn fyrir sumarvertíðina og heildarfjöldi starfsfólks var um 4.400 yfir háannatímann. Fraktstarfsemi okkar var áfram krefjandi og hafði neikvæð áhrif á afkomu félagsins. Unnið er að fjölbreyttum aðgerðum til að rétta reksturinn af, þar á meðal að aðlaga framboð að eftirspurn. Afkoma af leiguflugi var hins vegar áfram góð. Horfur í farþegaflugi eru góðar og bókunarstaðan út árið og inn í næsta ár er sterkari nú en á sama tíma í fyrra. Eftirspurn er áfram mikil á ferðamannamarkaðnum til Íslands, sérstaklega frá Norður Ameríku. Mikill vöxtur hefur einkennt félagið að undanförnu en við höfum næstum þrefaldað flugáætlun okkar á síðustu tveimur árum. Vöxturinn verður hóflegur á næsta ári og sjáum við því tækifæri til að auka skilvirkni í rekstri. Við gerum ráð fyrir um 10% aukningu flugframboðs og munum bæði bæta við tíðni og spennandi nýjum áfangastöðum sem við munum kynna á næstunni. Við erum vel í stakk búin til að takast á við framhaldið með sterkri fjárhagsstöðu, skýrri stefnu og fókus, yfirgripsmiklu söluneti og í gegnum öflugt samstarf við önnur flugfélög. Ég vil þakka viðskiptavinum okkar fyrir að velja Icelandair og starfsfólki okkar fyrir frábært starf í sumar. Ég hlakka til að halda áfram að sækja fram með okkar öfluga teymi.“



VEFÚTSENDING 20. OKTÓBER 2023

Kynning á uppgjöri 3. ársfjórðungs 2023 verður í beinu streymi á https://icelandairgroup.is. Streymið hefst kl. 8:30 föstudaginn 20. október 2023 þar sem Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair og Ívar S. Kristinsson framkvæmdastjóri fjármála munu fara yfir uppgjörið og svara spurningum. Kynningin verður aðgengileg að fundi loknum á heimasíðu félagsins: https://icelandairgroup.is og undir fyrirtækjafréttum á heimasíðu Nasdaq Nordic: http://www.nasdaqomxnordic.com/news/companynews

Nánari upplýsingar
Fjárfestar: Íris Hulda Þóridsóttir, Forstöðumaður Fjárfestatengsla. Netfang: iris@icelandair.is
Media: Ásdís Pétursdóttir, Forstöðumaður Samskipta og sjálfbærni. Netfang: asdis@icelandair.is


Viðhengi



Attachments

Interim Financial Statements of Icelandair Group hf. Q3 2023 Pressrelease Q3 2023_ íslenska