Icelandair: Hægir á bókunarflæði en áfram gert ráð fyrir hagnaði


Jarðhræringarnar á Reykjanesi hafa ekki haft áhrif á flugsamgöngur um Keflavíkurflugvöll og flugáætlun Icelandair er óbreytt. Vegna ástandsins hefur þó hægst verulega á sölu á flugferðum til Íslands næstu vikurnar miðað við það sem áður var áætlað. Flug yfir vetrarmánuðina bókast seinna en sumarmánuðirnir og hefur núverandi ástand haft neikvæð áhrif á tekjumyndun síðustu vikna ársins, en ferðamannamarkaðurinn til Íslands er mikilvægur þáttur í tekjumyndun í nóvember og desember.

Vegna þessarar stöðu hefur afkomuspá sem birt var 13. september sl. verið felld úr gildi og
á meðan óvissa er enn uppi er ekki hægt að birta nákvæma afkomuspá fyrir árið í heild. Félagið gerir þó enn ráð fyrir að skila jákvæðri afkomu eftir skatta á árinu 2023.  

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:

„Jarðhræringarnar á Reykjanesi hafa ekki haft nein áhrif á flugumferð til og frá Íslandi og við tökum vel á móti ferðamönnum. Atburðirnir hafa hins vegar haft mikil áhrif á líf Grindvíkinga og hugur okkar er hjá þeim. Við höfum verið leiðandi flugfélag á Íslandi í áratugi og höfum mikla reynslu af því að takast á við náttúruöflin og höfum undirbúið okkur vel fyrir mismunandi sviðsmyndir. Við erum í góðu samstarfi við yfirvöld og vísindafólk sem fylgist náið með stöðunni og ef til breytinga kemur á flugáætlun munum við upplýsa farþega með okkar venjulegu samskiptaleiðum.“

Nánari upplýsingar
Fjárfestar: Íris Hulda Þórisdóttir, Forstöðumaður Fjárfestatengsla. Netfang: iris@icelandair.is
Media: Ásdís Pétursdóttir, Forstöðumaður Samskipta og sjálfbærni. Netfang: asdis@icelandair.is