Lykilstærðir
Allar fjárhæðir í evrum og samanburðartölur í sviga.
- Rekstrartekjur ársfjórðungsins voru 80,9 m€ (44,3 m€).
- EBITDA af reglulegri starfsemi á ársfjórðungnum var 9,2 m€ (6,7 m€).
- Hagnaður tímabilsins nam 3,5 m€ (3,4 m€).
- Rekstrartekjur á fyrstu 9 mánuðum voru 247,1 m€ (139,1 m€).
- EBITDA af reglulegri starfsemi var 30,6 m€ (21,2 m€).
- Einskiptiskostnaður vegna kaupanna á Mørenot, hlutafjáraukningar og skráningar á aðallista Nasdaq nam um 1,7 m€.
- Leiðrétt EBITDA vegna þessa einskiptiskostnaðar er því 32,3 m€
- Hagnaður tímabilsins nam 11,4 m€ (11,7 m€).
- Áhrif einskiptiskostnaðar á hagnað fyrri hluta ársins nemur tæpum 1,4 m€ og án þess kostnaðar hefði hagnaðurinn verið 12,8 m€.
- Heildareignir voru 496,7 m€ (295,5 m€ í lok 2022).
- Vaxtaberandi skuldir voru 169,0 m€ (110,8 m€ í lok 2022).
- Handbært fé var 58,6 m€ (12,5 m€ í lok 2022).
- Eiginfjárhlutfall var 54,6% (50,6% í lok 2022).
Rekstur
Rekstrartekjur samstæðunnar voru 247,1 m€ og hækkuðu um 77,7% frá fyrstu níu mánuðum fyrra árs.
EBITDA félagsins hækkaði um 44% á milli tímabila eða úr 21,2 m€ á fyrstu níu mánuðum ársins 2022 í 30,6 m€ á fyrstu níu mánuðum þessa árs.
Hagnaður tímabilsins var 11,4 m€ en var 11,7 m€ fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2022.
Efnahagur
Heildareignir voru 496,7 m€ og hafa hækkað úr 295,5 m€ í árslok 2022.
Eigið fé nam 271,2 m€, en af þeirri upphæð eru 14,6 m€ hlutdeild minnihluta í eigin fé dótturfélaga.
Hlutfall eigin fjár, þegar hlutdeild minnihluta er meðtalin, var í lok tímabilsins 54,6% af heildareignum samstæðunnar en var 50,6% í árslok 2022.
Vaxtaberandi skuldir námu í lok tímabils 169,0 m€ samanborið við 110,8 m€ í ársbyrjun.
Árshlutareikningurinn er aðgengilegur á heimasíðu Hampiðjunnar hf., www.hampidjan.is.
Í dag verður haldinn fjárfestakynning kl. 16:15 í höfuðstöðvum félagsins að Skarfagörðum 4. Kynningunni verður jafnframt streymt og er streymið aðgengilegt á heimasíðu félagsins, https://hampidjan.is/fjarmal/streymi
Hjörtur Erlendsson, forstjóri:
„Rekstur fyrirtækja innan samstæðu Hampiðjunnar gekk yfirleitt vel á fjórðungnum og góð söluaukning varð á Íslandi og í Danmörku en sala í Kanada dróst saman vegna seinkunar á upphafi krabbavertíðarinnar. Samanburður við síðasta ár, ef einungis er litið til starfsemi Hampiðjunnar fyrir kaupin á Mørenot, sýnir að veltan var um 10% meiri á þriðja ársfjórðungi og sama gildir með EBITDA sem var tæplega 13% hærri. Velta Mørenot var einnig samkvæmt vonum á fjórðungnum.
Ef litið er til reksturs og afkomu fyrstu 9 mánuði ársins þá má segja svipað, sala hefur verið góð var 247,1 m€ samanborið við 139,1 m€ á sama tímabili síðasta árs og kemur þar bæði til um 10% söluaukning hjá samstæðu Hampiðjunnar fyrir kaupin á Mørenot og svo sú velta sem kemur inn með því fyrirtæki. Leiðrétt EBITDA Hampiðjunnar á síðasta ári samanborin við það sem af er þessu ári fór úr 15,2% í 15,8%. Eins og kynnt hefur verið þá hefur EBITDA Mørenot verið lág eða 8,3%. Það dregur niður heildar aðlöguðu EBITDA prósentu samstæðunnar og reyndist hún vera 13,1% á þessu 9 mánaða tímabili. Hærri heildar EBITDA skilar sér ekki að fullu í hagnað eftir skatta því fjármagnskostnaður er mun hærri en fyrir sama tímabil á síðasta ári. Það skýrist af mestu af hærri vaxtabyrði enda hafa grunnvextir hækkað mikið og má sem dæmi nefna að 3 mánaða EURIBOR fór úr -0,57% í byrjun árs 2022 og stóð þann 30. september 2023 í 3,95%.
Markvisst hefur verið unnið að endurskipulagningu fyrirtækja innan Mørenot samstæðunnar og skipurit samstæðunnar hefur verið einfaldað og ábyrgðarsvið framkvæmdastjóra meginfélaganna þriggja hefur verið gert mun skýrara en það var áður. Aðalskrifstofa Mørenot í Noregi hefur verið í leiguhúsnæði í Moa í Álasundi og var aðstaða þar fyrir 60 manns. Það rými hefur verið minnkað um helming að flatarmáli og starfsmenn Hampidjan Advant, fyrirtækisins sem sinnir olíuleitarfyrirtækjum og útsjávariðnaði, eru nú í húsnæði í eigu Mørenot í Søvik norðan Álasunds þar sem höfuðstöðvar Mørenot voru áður. Einnig hafa starfsmenn Mørenot Fishery fært sig í húsnæði sem einnig er í eigu Mørenot í Gangstøvika þar sem aðalstarfsemi veiðarfærafyrirtækisins hefur verið undanfarin ár. Í Moa eru þá eftir starfsmenn fiskeldishlutans, Mørenot Aquaculture, en stefnt er að því að skrifstofunni verði fundinn annar staður í Álasundi. Mikið verk er að sjálfsögðu óunnið í að ná allri mögulegri hagræðingu fram í kjölfar kaupanna á Mørenot og mun það taka nokkur ár að nýta öll þau tækifæri sem hafa skapast við kaupin.
Í sumar var starfsemi Mørenot Scotland á Hjaltlandseyjum og Hebridges flutt frá Mørenot til Vónarinnar í Færeyjum og verður starfsemin framvegis rekin undir nafninu Vonin Scotland. Öll þjónusta við fiskeldisfyrirtæki á eyjunum frá Færeyjum suður til Skotlands verður því á einni hendi en það felur í sér töluverða hagræðingu.
Í Danmörku hefur veiðarfærahluti Mørenot Denmark verið færður til Cosmos, dóttufélags Hampiðjunnar í Danmörku, og einnig hefur dótturfyrirtæki Cosmos í Thyborøn, Nordsøtrawl, verið sameinað við móðurfyrirtækið í kjölfar þess að Cosmos keypti 20% hlut minnihlutaeiganda þegar viðkomandi fór á eftirlaun. Bygging nýja netaverkstæðis Cosmos í Skagen í Danmörku er komin vel á veg og ef veður á komandi vetri setur ekki strik í reikninginn þá ætti verkstæðið að vera tilbúið til notkunar næsta sumar.
Yfirfærsla á þekkingu og veiðarfæratækni í flottrollum frá Hampiðjan Ísland til Mørenot Fishery í Noregi hefur gengið að óskum og er fyrsta Gloríutrollið nú þegar selt og komið í notkun.
Í kjölfar niðurgreiðslu lána Mørenot í Noregi hefur verið unnið að skiptingu þeirra lána sem eftir standa milli fyrirtækjanna þriggja í Noregi og miðar þeirri vinnu vel og stefnt er að því að ljúka þeirri vinnu fyrir áramótin.
Vaxtabyrði samstæðu Hampiðjunnar hefur aukist mikið á þessu ári eins og hjá flestum fyrirtækjum enda vaxtastig farið mjög hækkandi á árinu. Vaxtagreiðslur það sem af er árinu nema 8,6 m€ en hluti af þeirri fjárhæð eru greiddir vextir innan Mørenot samstæðunnar að fjárhæð 3,3 m€. Á sama tímabili síðasta árs voru greiddir vextir að fjárhæð 2,3 m€ í Hampiðjunni án Mørenot. Niðurgreiðsla lána í Noregi hefur hjálpað til en þegar vextir tvöfaldast á meðan lán helmingast leiðir það til til svipaðrar vaxtabyrði eftir sem áður. Söluandvirði hlutabréfanna sem boðin voru út í sumarbyrjun eru á góðum vöxtum hér á Íslandi og verða það þangað til gengi krónunnar styrkist og þörf verður á að nýta þá fjármuni til komandi uppbyggingar í Litháen.
Hráefnisverð plastefna hafa farið mjög lækkandi frá byrjun ársins og lækkuðu þau eilítið meira á þriðja ársfjórðungi og eru nú orðin svipuð og þau voru á árunum fyrir faraldurinn. Framboð þessara hráefna er gott og búist er við að verð þeirra haldist svipað á næstu mánuðum. Flutningskostnaður er einnig að færast í eðlilegt horf og þá sérstaklega frá austurlöndum fjær.
Orkuverð á rafmagni og gasi til framleiðslunnar í Litháen hefur verið nokkuð stöðugt undanfarna mánuði eftir gríðarlegar verðsveiflur árið 2022 og er rafmagnsverð á þessu ári að meðaltali um 22% hærra en á árunum fyrir 2022. Nú er búið að gera framvirka samninga um rafmagnsverð fram á mitt næsta sumar á svipuðum nótum og því hægt að ganga að rafmagnsverðinu vísu það sem eftir er af þessu rekstrarári.
Horfur fyrir síðasta fjórðung ársins virðast vera ágætar og í samræmi við væntingar um að velta og afkoma verði svipuð og var á síðasta ársfjórðungi síðasta árs. Mikil landfræðileg dreifing ásamt fjölbreyttu vöruúrvali jafnar út sveiflur innan samstæðunnar því þótt sala dragist saman á einum stað vegna staðbundinna aðstæðna þá hefur það gjarnan verið vegið upp af meiri veiðum eða vaxandi fiskeldi á öðrum svæðum.“
Viðhengi