Með tilvísun í tilkynningu Kviku banka hf. („Kvika“ eða „bankinn“) um upphaf á söluferli á TM tryggingum hf. („TM“ eða „félagið“) sem birt var þann 17. nóvember sl., upplýsist hér með að borist hafa óskuldbindandi tilboð í hlutabréf TM, bæði í félagið í heild og að hluta.
Stjórn bankans hefur lagt mat á tilboðin og í kjölfarið ákveðið að bjóða fjórum aðilum að halda áfram í söluferlinu og veita þeim aðgengi að áreiðanleikakönnunum og frekari upplýsingum.
Ekki liggur fyrir nein vissa á þessu stigi hvort framangreint ferli muni leiða til skuldbindandi tilboða í TM, sem gæti lokið með sölu á félaginu í heild eða skráningu í kauphöll.
Eins og fram hefur komið er gert ráð fyrir að sölu eða skráningu TM verði lokið á öðrum eða þriðja ársfjórðungi ársins 2024.
Nánar verður upplýst um framvindu ferlisins tímanlega og um leið og ástæða er til og í samræmi við lögbundna upplýsingaskyldu bankans.
Vinsamlegast athugið að tilkynning þessi er tilkynning á innherjaupplýsingum í samræmi við 17. gr. reglugerðar (ESB) nr. 596/2014 um markaðssvik („MAR“), sem var veitt lagagildi hérlendis með lögum um aðgerðir gegn markaðssvikum nr. 60/2021.
Fyrir frekari upplýsingar vinsamlegast hafið samband við Magnús Þór Gylfason, forstöðumann samskipta og hagaðilatengsla, á netfanginu magnus.gylfason@kvika.is