Fly Play hf.: Ár mikils vaxtar og framfara: Tekjur tvöfölduðust, einingakostnaður lækkaði og rekstrarniðurstaða batnaði umtalsvert


Ár mikils vaxtar og framfara: Tekjur tvöfölduðust, einingakostnaður lækkaði og rekstrarniðurstaða batnaði umtalsvert

  • 1,5 milljónir farþega flugu með PLAY á árinu 2023, þar af flugu 376 þúsund farþegar á fjórða ársfjórðungi.
  • Sætanýting í fjórða ársfjórðungi var 78,3%. Sætanýting á árinu 2023 var 83,4%.
  • Stundvísi PLAY á fjórða ársfjórðungi var 78,4%. Stundvísi var 83,2% á árinu 2023.
  • Tekjur á fjórða ársfjórðungi voru 65,7 milljónir bandaríkjadollara, samanborið við 37,9 milljónir bandaríkjadollara í fjórða ársfjórðungi 2022.
  • Tekjur árið 2023 tvöfölduðust frá 140 milljónum bandaríkjadollara árið 2022 til 282 milljóna bandaríkjadollara árið 2023.

  • Floti PLAY taldi tíu farþegaþotur í lok árs 2023, samanborið við sex þotur í lok árs 2022. Framboðnir sætiskílómetrar (ASK) jukust um 89% árið 2023 samanborið við 2022.
  • Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) batnaði umtalsvert árið 2023 samanborið við 2022. Rekstrartap var 21 milljón bandaríkjadollara, 2,9 milljarðar íslenskra króna, samanborið við rekstrartap upp á 44 milljónir bandaríkjadollara, 6 milljarða íslenskra króna, árið 2022. EBIT á hvert framboðið sæti batnaði um 74% á árinu 2023.
  • Einingakostnaður við hvern sætiskílómetra (CASK) lækkaði um 13% á milli ára, úr 6,4 bandaríkjasentum árið 2022 í 5,6 bandaríkjasent árið 2023.
  • Einingakostnaður við hvern sætiskílómetra, að frátöldum eldsneytiskostnaði, fór úr 4 bandaríkjasentum árið 2022 í 3,7 bandaríkjasent árið 2023 og var það samkvæmt áætlun.
  • Hliðartekjur héldu áfram að aukast og fóru úr 42 bandaríkjadollurum á hvern farþega árið 2022 í 54 bandaríkjadollara árið 2023. Hliðartekjur á hvern farþega jukust um 55% á fjórða ársfjórðungi 2023 samanborið við fjórða ársfjórðung 2022.
  • Heildartekjur á hvern framboðinn sætiskílómetra (TRASK) jukust um 7% á milli ára.
  • Metsöluvikur í janúar 2024 og bókunarstaðan til lengri tíma lítur vel út.
Rekstrartengdir mælikvarðar 20232022Breyting
  Fjöldi flugafjöldi9.6455.3774.268
  Fjöldi áfangastaða í rekstrifjöldi382513
  Fjöldi flugvéla í rekstrifjöldi1064
  Stundvísi%83%87% -4 ppt
  Fjöldi farþegaþús.1.52179192%
  Sætiskílómetrar (ASK)millj.5.4152.86589%
  Tekjur á farþegakílómetra (RPK)millj.4.5142.28697%
  Meðallengd flugleggja (km)fjöldi2.9432.7577%
  Sætanýting%83%80%3 ppt
  Fjöldi sæta í boðiþús.1.83198286%
     
Rekstrarreikningur    
  Rekstrartekjurmillj. USD281,8139,9141,9
  Rekstrargjöldmillj. USD248,5151,996,6
  EBITmillj. USD-20,7-43,823,1
  EBIT hlutfall%-7%-31% 24 ppt
  Afkomamillj. USD-35,2-47,812,6
     
Efnahagsreikningur    
  Heildareignirmillj. USD461,5405,156,4
  Heildarskuldirmillj. USD459,6368,990,7
  Eigið fémillj. USD1,936,2-34,3
  Eiginfjárhlutfall%0,4%8,9% -8,5 ppt
  Fé (handbært og bundið)millj. USD21,636,2-14,6
     
Hlutabréf     
  Hlutabréfaverð í lok tímabilsper bréf7,813,1-5,3
  Tap á hlutUS sent-5,20-8,403,2
     
Lykilmælikvarðar    
  Flugtekjur per farþegaUSD127134-5%
  Hliðartekjur per farþegaUSD544229%
  Heildartekjur per farþegaUSD1811763%
  TRASKUS sent5,24,97%
  CASK (með eldsneytis- og kolefniskostnaði)US sent5,66,4-13%
  CASK (án eldsneytis- og kolefniskostnaðar)US sent3,74,0-6%
  CO₂ per RPK (grömm CO₂ per RPK) fjöldi6066-9%
  CO₂ útblástur í tonnum frá flugvélaolíufjöldi272.636152.45779%

Birgir Jónsson, forstjóri PLAY:

„Árið 2023 var að mörgu leyti gott ár fyrir flugfélagið PLAY og við sýndum enn á ný fram á seigluna og sveigjanleikann sem býr í viðskiptamódeli félagsins sem og starfsfólki þess. Við skiluðum góðri fjárhagsniðurstöðu eftir sumarvertíðina og vorum í fyrsta sinn með hreinan hagnað á þriðja ársfjórðungi, þrátt fyrir að hafa verið í miklum uppbyggingarfasa þar sem við bættum við okkur hundruð starfsmanna, þrettán nýjum áfangastöðum og fjórum nýjum farþegaþotum.

Við lok sumarvertíðarinnar leit út fyrir að við myndum ljúka árinu með ásættanlegri fjárhagsniðurstöðu, en eins og stundum vill verða í flugbransanum, þá höfðu ytri áhrifaþættir neikvæð áhrif á reksturinn, og við árslok var niðurstaðan sumpart lakari en búist hafði verið við. Þessar áskoranir gerðu vart við sig síðsumars með landfræðipólitískum og jarðfræðilegum breytum á borð við mikla hækkun olíuverðs, kostnaðarauka vegna verðbólgu og átök í Miðausturlöndum. Á fjórða ársfjórðungi gerðu jarðhræringar á Reykjanesskaga vart við sig og þeim fylgdu ónákvæmur fréttaflutningur á heimsvísu sem hafði neikvæð áhrif á eftirspurn til skamms tíma eftir Íslandi sem áfangastað fyrir ferðamenn. Reksturinn varð einnig fyrir röskun þegar Félag íslenskra flugumferðarstjóra boðaði til verkfalla þar sem flugumferðarstjórar lögðu niður störf í nokkrum verkfallshrinum á aðventunni. Það var því sérstaklega gott að sjá nokkrar af bestu söluvikum félagsins nú í upphafi árs. Bókunarstaðan er sterk fyrir árið og við sjáum hærri einingatekjur samanborið við árið í fyrra, sem gefur okkur ástæðu til að vera bjartsýn fyrir sumarið og árið í heild.

Nú þegar við höfum hafið sölu á fjórða sumrinu, sjáum við skýr merki þess að viðskiptamódel okkar er að virka sem skyldi. Tekjurnar okkar tvöfölduðust í fyrra og hliðartekjur jukust umtalsvert í kjölfar fjárfestingu í stafræna sölugrunni okkar. Þessi vöxtur í hliðartekjum mun halda áfram samhliða frekari aukningu í vöruúrvali og þróun á vefsíðunni okkar, en í því samhengi má nefna að við byrjuðum í síðasta mánuði að bjóða farþegum okkar að bóka sjálfir svokallað „Stopover” í bókunarvélinni.

Það sem skiptir þó mestu máli er að við höfum haldið kostnaðargrunni okkar lágum og mjög samkeppnishæfum. Það gerir okkur kleift að halda fargjöldum okkar lægri en hjá samkeppninni og að vinna markaðshlutdeild skjótt á okkar lykilmörkuðum. Á sama tíma og okkar helstu keppinautar segja frá umtalsverðri aukningu á einingakostnaði, þá erum við sérstaklega stolt af því að kostnaður á hvern framboðinn sætiskílómetra, utan eldsneytiskostnaðar, hefur dregist saman um 6% hjá okkur. Stjórnendateymi PLAY er staðráðið í að halda þeirri þróun áfram að hafa stjórn á kostnaðinum því það mun skipta höfuðmáli í áframhaldandi velgengni okkar.

Þegar litið er fram á við sjáum við skýr og spennandi tækifæri til frekari vaxtar. Við erum einnig með til skoðunar að þróa flota okkar frekar, því það skiptir máli að vanda vel til verka við val á réttum farþegaþotum og samsetningu flotans til að þjóna sem best okkar áfangastöðum sem hafa mismunandi þarfir eftir árstíðum og árferði.

Árið 2024 verður fyrsta árið í rekstri PLAY þar sem ekki verður bætt við nýjum flugvélum og að öllu óbreyttu myndi félagið ekki þurfa aukið fjármagn fyrir 2024. Atburðir undafarna vikna hafa sýnt okkur að staða flugfélaga getur breyst hratt og er það mat félagsins að styrkja þurfi lausafjárstöðuna. Því hefur félagið, ásamt ráðgjöfum sínum, hafið undirbúning við uppfærslu af First North yfir á Aðalmarkað sem er áætlað að muni eiga sér stað á fyrri helmingi ársins. Við teljum að með yfirfærslunni sé verið að auka aðgengi félagsins að fjármagni samhliða því að breikka hóp hluthafa.

Að lokum vil ég segja að við erum afar stolt af árangri okkar og frammistöðu árið 2023, en viðurkenni að við hefðum viljað sjá minna umrót á síðustu mánuðum ársins og betri fjárhagsniðurstöðu. Ég er hins vegar handviss um að við erum á réttri leið og hlakka til að fylgjast áfram með samstarfsfólki mínu byggja upp frábært flugfélag á komandi ári.“

1,5 milljónir farþega og stundvísi á heimsmælikvarða

Sætanýting PLAY á árinu 2023 var 83,4% en sætanýting á fjórða ársfjórðungi var 78,3%. PLAY flutti 1,5 milljónir farþega á árinu 2023, en af þeim flugu 376 þúsund með flugfélaginu á fjórða ársfjórðungi.

Sætanýtingin á fjórða ársfjórðungi var lakari vegna minni eftirspurnar til skamms tíma eftir Íslandi sem áfangastað sem stafaði af ónákvæmum fréttaflutningi af jarðhræringum á Reykjanesskaga í nóvember.

PLAY hefur hins vegar séð eftirspurnina taka við sér á ný. Skýr merki voru um það þegar sölumet voru sett í tengslum við stóra söludaga á borð við Black Friday, Cyber Monday og Travel Tuesday. Í upphafi árs hafa svo verið slegin sölumet fyrir heilar vikur hjá flugfélaginu og lítur bókunarstaðan vel út fyrir árið.

Af þeim farþegum sem flugu með PLAY á fjórða ársfjórðungi voru 32% á leið til Íslands, 26% voru á leið frá Íslandi og 42% voru tengifarþegar (VIA). Á árinu 2023 voru 32% á leið til Íslands, 27% voru á leið frá Íslandi og 41% voru tengifarþegar (VIA).

Stundvísi PLAY á árinu 2023 var 83,4%, sem þýðir að af 9.600 flugferðum PLAY í fyrra voru 8.000 flug á réttum tíma og meðaltöf á þessum flugum 5,4 mínútur. Ef ekki hefði komið til verkfalls flugumferðarstjóra hefði stundvísin verið um 86% á árinu 2023.

Nýir áfangastaðir, nýjar vörur og viðurkenningar

Árið 2023 var viðburðaríkt í rekstri PLAY og má þar einna helst nefna fjölda nýrra áfangastaða sem PLAY bætti við leiðakerfi sitt. Á árinu sem leið fór PLAY sín fyrstu flug til Álaborgar og Billund í Danmörku, Stokkhólms í Svíþjóð, Düsseldorf, Hamborgar og Frankfurt í Þýskalandi, Washington DC í Bandaríkjunum, Toronto í Kanada, Porto í Portúgal, Genfar í Sviss, Feneyja á Ítalíu, Glasgow í Skotlandi, Aþenu í Grikklandi, Varsjár í Póllandi og Kanaríeyjunnar Fuerteventura á Spáni. Sömuleiðis hóf PLAY á árinu 2023 miðasölu á áætlunarferðum til Verona á Ítalíu og nú síðast til Split í Króatíu í upphafi árs 2024. Þá hóf PLAY aftur áætlunarflug til Amsterdam og flýgur nú daglega til höfuðborgar Hollands árið um kring.

PLAY tilkynnti nýverið að farþegar geti nú sjálfir bókað sér viðdvöl á Íslandi í allt að tíu daga á vef PLAY án aukakostnaðar. PLAY býður samkeppnishæf verð og með þessari viðbót hafa tengifarþegar enn fleiri ástæður til að velja PLAY.

Flugfélagið kynnti einnig fargjaldapakka til leiks í febrúar 2023 sem hafa leitt til aukningar á hliðartekjum, samfara áframhaldandi þróun á vörunum. Viðskiptavinir PLAY í Bandaríkjunum og Kanada eiga nú kost á að nýta sér greiðsluþjónustuna Uplift. Með Uplift geta farþegar dreift greiðslum á farmiðagjöldum sínum og stendur til að þessi þjónusta verði einnig aðgengileg farþegum í Evrópu. PLAY hefur einnig kynnt til leiks ferðapakka í samstarfi við lastminute.com sem munu auka tekjur og vitund um félagið á erlendum mörkuðum.

PLAY hlaut viðurkenningar á árinu sem juku hróður félagsins enn frekar. Flugliðar okkar voru valdir „Besta áhöfnin” af lesendum USA Today 10Best og veittu World Airline Awards PLAY nafnbótina Besta lággjaldaflugfélag Norður-Evrópu, en verðlaunin byggja á ánægju viðskiptavina. PLAY komst einnig á lista World Airline Awards yfir 100 bestu flugfélög heims og þá veitti ch-aviation PLAY verðlaun fyrir yngsta flugflota Evrópu 2024, annað árið í röð.

Rekstrarniðurstaða batnað til muna

Rekstrarniðurstaða (EBIT) batnaði á milli ára. Rekstrartapið var 21 milljón bandaríkjadollara árið 2023, samanborið við 44 milljónir bandaríkjadollara árið 2022. Rekstrartap á fjórða ársfjórðungi 2023 var 17,6 milljónir bandaríkjadollara en skemmst er frá því að segja að reksturinn varð fyrir neikvæðum áhrifum vegna ónákvæms fréttaflutnings af jarðhræringum á Reykjanesskaga í nóvember sem dró úr eftirspurn eftir Íslandi sem áfangastað fyrir ferðamenn og vegna verkfalls flugumferðarstjóra. Afkoma félagsins batnaði um 12,7 milljónir bandaríkjadollara á milli ára.

Handbært fé við árslok 2023 var 21,6 milljónir bandaríkjadollara að meðtöldum 9 milljónum bandaríkjadollara í bundnum innistæðum.

Tekjur tvöfölduðust á milli ára

Tekjur á árinu 2023 voru 282 milljónir bandaríkjadollara, um 39 milljarðar íslenskra króna, samanborið við 140 milljónir bandaríkjadollara, um 19 milljarðar íslenskra króna, árið 2022. Tekjur á fjórða ársfjórðungi 2023 voru 65,7 milljónir bandaríkjadollara, tæpir 9 milljarðar íslenskra króna, samanborið við 39,7 milljónir bandaríkjadollara á fjórða ársfjórðungi árið 2022, 5,4 milljarðar íslenskra króna. Tekjur á hvern framboðinn sætiskílómetra (RASK) voru 4,6 bandaríkjasent árið 2023, en það er 6% aukning frá fyrra ári.

PLAY hefur einnig séð verulegan vöxt í hliðartekjum sem fóru úr 42 bandaríkjadollurum á hvern farþega árið 2022 í 54 bandaríkjadollara á hvern farþega árið 2023. Hliðartekjur á farþega í fjórða ársfjórðungi jukust um 55% samanborið við fjórða ársfjórðung 2022 og heildarhliðartekjur jukust um 152% á árinu 2023 á sama tíma og framboð jókst um 89% samanborið við 2022.

Kostnaður á áætlun og samkvæmt spá

Heildarrekstrarkostnaður félagsins var 68,4 milljónir bandaríkjadollara á fjórða ársfjórðungi 2023, samanborið við 46,2 milljónir bandaríkjadollara á fjórða ársfjórðungi 2022. Var það viðbúið vegna mikillar aukningar í framboðnum sætiskílómetrum á milli ára. Rekstrarkostnaðurinn var meðal annars hærri í fjórða ársfjórðungi vegna íseyðingar, viðhalds, verkfalla flugumferðarstjóra og fleira.

Kostnaður á hvern sætiskílómetra (CASK) á árinu 2023 var 5,6 bandaríkjasent, samanborið við 6,4 bandaríkjasent árið 2022. Kostnaður utan eldsneytis (Ex-Fuel CASK) minnkaði um 6% á milli ára og var 3,7 bandaríkjasent og er sú niðurstaða á pari við áætlanir félagsins og útgefna spá.

Heildareignir PLAY voru 461,5 milljónir bandaríkjadollara, 63 milljarðar íslenskra króna, við árslok 2023, samanborið við 405 milljónir bandaríkjadollara við árslok 2022. Flugfélagið var með 10 farþegaþotur í flota sínum við árslok 2023, en fjórum þotum var bætt við á árinu sem leið.

Skráning á aðalmarkað og mögulegt hlutafjárútboð

PLAY hefur hafið undirbúning að skráningu félagsins á Aðalmarkað Nasdaq Iceland, en félagið er nú skráð á Nasdaq First North Growth markaðinn hér á landi. Ráðgert er yfirfærslan geti átt sér stað á fyrri helmingi ársins, en áfanginn markar kaflaskil í sögu félagsins. PLAY hefur ráðið Arctica Finance hf. til að hafa umsjón með skráningarferlinu, sem hafa þegar hafið undirbúning á gerð skráningarlýsingar í því skyni.

Frá því að PLAY hóf fyrsta áætlunarflug sitt í júní 2021 hefur félagið vaxið hratt. Á vaxtaskeiði sínu hefur félagið glímt við ítrekuð ytri áföll, nú síðast eldgos á Reykjanesi í morgun. Það er mat félagsins að skynsamlegt sé að styrkja lausafjárstöðuna enn frekar, með hlutafjáraukningu, þannig að félagið sé í stakk búið til að grípa vaxtatækifæri og mæta ófyrirséðum atburðum.

Félagið hefur ráðið þrjá ráðgjafa, Arctica Finance hf. sem umsjónaraðila, Fossa fjárfestingarbanka hf. og Greenhill (Mizuho) sem söluaðila. Ráðgert er að hlutafjáraukningin geti numið á bilinu 3.000 til 4.000 milljónum króna. Ráðgjafar félagsins munu á næstu vikum hefja samtal við fjárfesta og mun útfærsla á fyrirkomulagi hlutafjáraukningarinnar meðal annars taka mið af þeim samtölum. Hlutafjáraukningin og endanleg útfærsla er þó háð samþykki hluthafa. Aðalfundur félagsins verður haldinn þann 21. mars næstkomandi, þar sem ráðgert er að stjórn mun óska eftir heimild til hækkunar á hlutafé félagsins.

Horfur 2024 – 2025

PLAY hafði áður tilkynnt að það hefði skrifað undir viljayfirlýsingu um að taka tvær farþegaþotur inn í flotann árið 2025. Félagið hefur allan hug á að auka framboð sitt á komandi árum, en að því sögðu hefur verið ákveðið að falla frá móttöku þessara farþegaþota. Niðurstaða félagins var sú að öðruvísi gerð af farþegaþotu myndi falla betur að þörfum þess við næstu skref uppbyggingar. Gert er ráð fyrir að flotinn muni stækka úr 10 í 12 farþegaþotur á næstu tveimur árum og einingakostnaður á hvern sætiskílómetra, að frátöldu eldsneyti (ex-fuel CASK) muni einungis aukast um 3% árlega. PLAY áætlar að Rekstrarafkoma (EBIT) verði í námunda við núll á árinu 2024 og jákvæð á árinu 2025. Sjóðstreymi mun áfram fara batnandi á árinu 2024 og verði jákvætt árið 2025.

Sýn félagsins til lengri tíma er að flotinn stækki í 18 – 20 þotur og að tekjur aukist með auknu framboði upp í 750 milljónir bandaríkjadollara fyrir árið 2029. Á þeim tíma verður rekstrarhagnaður jákvæður um 10% og einingakostnaður á hvern floginn sætiskílómetra (CASK) verði samkeppnishæfur.

Frekari upplýsingar:

Vefstreymi frá fjárfestakynningu verður haldið 9. febrúar, 2024, klukkan 08:30.

Birgir Jónsson, forstjóri PLAY, og Ólafur Þór Jóhannesson, fjármálastjóri, munu fara yfir fjárhagsniðurstöðu félagsins föstudaginn 9. febrúar klukkan 8:30. Kynningin verður á ensku í vefstreymi sem finna má hér: https://www.flyplay.com/financial-reports-and-presentations





Viðhengi



Attachments

Fly Play hf. Consolidated Financial Statement 2023 Fly Play hf. Q4 2023 Fréttatilkynning íslenska