Síminn hf. - Afkoma fjórða ársfjórðungs 2023 og ársins 2023


Helstu niðurstöður úr rekstri á 4F 2023

  • Tekjur á fjórða ársfjórðungi (4F) 2023 námu 6.659 m.kr. samanborið við 6.233 m.kr. á sama tímabili 2022 og jukust um 6,8%. Tekjur í kjarnaþjónustu Símans, farsíma, gagnaflutningi og sjónvarpsþjónustu aukast um tæplega 7% á fjórðungnum.
  • Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 1.614 m.kr. á 4F 2023 og minnkar því um 19 m.kr. eða 1,2%. EBITDA hlutfallið er 24,2% á 4F 2023 en var 26,2% á sama tímabili 2022. Rekstrarhagnaður (EBIT) nam 634 m.kr. á 4F 2023 samanborið við 703 m.kr. á sama tímabili 2022. Án niðurfellingar stjórnvaldssektar að fjárhæð 200 m.kr. var EBITDA á 4F 2022 1.433 m.kr. (23,0%) og EBIT 503 m.kr.
  • Hrein fjármagnsgjöld námu 120 m.kr. á 4F 2023 en námu 389 m.kr. á sama tímabili 2022, en á 4F 2022 var færð neikvæð gangvirðisbreyting skuldabréfs vegna sölu Mílu sem nam 382 m.kr. Fjármagnsgjöld námu 287 m.kr., fjármunatekjur voru 195 m.kr. og gengistap nam 28 m.kr.
  • Hagnaður á 4F 2023 nam 414 m.kr. samanborið við 381 m.kr. hagnað af áframhaldandi starfsemi á sama tímabili 2022.
  • Vaxtaberandi skuldir samstæðu að leiguskuldbindingum meðtöldum námu 10,5 ma.kr. í árslok 2023, en voru 8,9 ma.kr. í árslok 2022. Handbært fé í árslok 2023 nam 1,8 ma.kr., en var 3,7 ma.kr. í árslok 2022. Staða útlána hjá Símanum Pay var 2,9 ma.kr. í árslok 2023, en var 1,7 ma.kr. í árslok 2022.
  • Eiginfjárhlutfall Símans var 52,1% í árslok 2023 og eigið fé 17,6 ma.kr.

 

Orri Hauksson, forstjóri:

„Árið 2023 gekk vel hjá Símanum, fyrsta heila árið eftir söluna á Mílu. Sú umbreyting á samstæðu Símans yfir í eignalétt þjónustufyrirtæki eru mestu umskipti sem orðið hafa í 118 ára sögu félagsins. Tekjuvöxtur var aðallega á seinni hluta ársins, sérstaklega í farsíma og sjónvarpi, ásamt því að tekjur í interneti sýndu hóflegan vöxt. Eitt af meginverkefnum ársins í ár verður að styrkja þennan stærsta tekjulið félagsins.

Verðbólga á árinu reyndi á þjónustusamninga við birgja Símans, en samningar þessir fela flestir í sér beina eða óbeina verðtryggingu. Síminn komst vel í gegnum þennan kúf og ljóst er að með stöðugra verðlagi fram á við hefur félagið góð tæki til að stýra rekstrarkostnaði.

Átak undanfarinna ára í fjárfestingum skilaði sér í bættri þjónustu við viðskiptavini og leiddi af sér metnýtingu á vörum félagsins. Ráðist var í margþættar umbætur á rekstri Símans, svo sem í uppfærslu ýmissa innri kerfa og áframhaldandi uppbyggingu 5G kerfis í samstarfi við Mílu. Samkvæmt nýlegri rannsókn þýsks mælingafyrirtækis á vegum Fjarskiptastofu býður Síminn upp á besta farsímanetið á Íslandi. Netgæði voru einnig bætt inni á heimilum og hjá fyrirtækjum auk þess sem fjárfest var ríkulega í sjónvarpsefni sem íslenskir neytendur kunna að meta. Þá festi Síminn nýlega kaup á þremur fyrirtækjum sem starfa á sviði umhverfisauglýsinga, sem mun styrkja vöruframboð félagsins á sviði auglýsinga til mikilla muna.

Fjárfestingar fara nú hratt minnkandi á nýjan leik og nema árin 2023 og 2024 umtalsvert lægri upphæðum en afskriftir. Sú þróun byggir á ný undir sterkt fjárflæði og fjármunamyndun. Síminn hefur nýtt skuldléttan efnahag sinn undanfarið til að beina fé myndarlega að kaupum á eigin bréfum, á meðan skorti á ytri vaxtartækifæri. Þrátt fyrir háa vexti á Íslandi hefur Símanum lánast að fjármagna sig með aðferðum sem henta vel þróun á starfsemi félagsins. Nýttum við skuldabréf, víxla og bankalán á kjörum sem eru með því besta sem býðst á Íslandi.

Síminn hélt áfram að auka útlán sín til viðskiptavina í gegnum léttkort Símans. Stóðu útlánin í um þremur milljörðum króna um áramót og halda þau áfram að vaxa. Eins er nú boðið upp á rafrænt beiðnakerfi í innkaupum milli fyrirtækja, sem viðskiptavinir hafa tekið afar vel. Byggir sú þjónusta undir útgáfu kreditkorts fyrir fyrirtæki, sem er væntanlegt innan skamms.

Vinsældir Sjónvarps Símans hafa aldrei verið meiri, en spilanir í Sjónvarpi Símans voru um milljón talsins í hverri viku allt árið í fyrra. Sérstaklega erum við stolt af því að styðja vel við íslenska framleiðslu, en Síminn frumsýndi fjórar leiknar innlendar þáttaraðir í sjónvarpi af þeim sex sem voru framleiddar á landinu öllu. Í ár verða sex þáttaraðir af ellefu framleiddar af Símanum. Þess ber að geta að Síminn nýtur sjálfur engra ríkisstyrkja, en helstu keppinautar félagsins á þessu sviði eru ríkisfyrirtæki annars vegar og ríkisstyrkt einkafyrirtæki hins vegar.

Þróunarverkefni félagsins með HSÍ og KSÍ um beinar útsendingar frá kappleikjum, bæði innanlands sem utan, hófst í vetur og mun aukast að gæðum á næstunni. Næsta laugardag verður sett met í stýringartækni sjónvarpsútsendinga á Íslandi, þegar Sjónvarp Símans sinnir 17 beinum útsendingum sama daginn.

Sá sem á einna mestan heiður af þessu forystuhlutverki Símans á sviði íslenskrar miðlunar á undanförnum árum, Magnús Ragnarsson, hyggst hverfa frá Símanum innan skamms. Auk lykilhlutverks hans við umbreytingu og eftirtektarverðum vexti miðla Símans á undanförnum árum hefur Magnús leitt vöruþróun og nýsköpun félagsins á fjölmörgum öðrum sviðum. Það verður eftirsjá að Magnúsi og verður þakklátt verkefni okkar sem eftir standa að taka við þeirri góðu uppbyggingu sem hann hefur sinnt.“

 

Kynningarfundur 21. febrúar 2024

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta vegna uppgjörsins verður haldinn miðvikudaginn 21. febrúar 2024 kl. 8:30 í húsnæði félagsins, Ármúla 25, Reykjavík. Hluthafar, fjárfestar og markaðsaðilar eru sérstaklega boðnir velkomnir á fundinn. Á fundinum munu Orri Hauksson forstjóri og Óskar Hauksson fjármálastjóri kynna uppgjör félagsins og svara fyrirspurnum. Kynningarefni fundarins verður hægt að nálgast í fréttakerfi Nasdaq Iceland og á heimasíðu Símans https://www.siminn.is/fjarfestar/uppgjor-og-arsskyrslur.

Jafnframt verður hægt að fylgjast með fundinum í netstreymi á vefslóðinni: https://www.siminn.is/fjarfestar/fjarfestakynning.

Þeir sem vilja bera upp spurningar geta sent þær á fjarfestatengsl@siminn.is og verður þeim svarað í lok fundarins.

 

Nánari upplýsingar um uppgjörið veita:

Orri Hauksson, forstjóri Símans (orri@siminn.is)
Óskar Hauksson, fjármálastjóri Símans (oskarh@siminn.is)

Viðhengi



Attachments

Síminn hf. - Fjárfestakynning 4F 2023 Síminn hf  - Afkomutilkynning 4F 2023 Síminn hf. - Ársreikningur samstæðu 2023 254900X9GQZM6UGXYF10-2023-12-31-is