Ársreikningur Orkuveitunnar 2023 | Sókn í loftslags- og orkumálum


Fjárhagsstaða Orkuveitunnar samkvæmt ársreikningi 2023 ber byr í segl þeirra umbreytingarverkefna sem fyrirtækið og íslenskt samfélag stendur frammi fyrir. Þetta segir Sævar Freyr Þráinsson forstjóri sem nú er að innleiða nýja heildarstefnu fyrirtækisins og kynnti starfsfólki nýtt skipulag á fundi í morgun.

Hagnaður en mikill fjármagnskostnaður

Orkuveitan var rekin með 6,4 milljarða króna hagnaði á árinu 2023 og fjárfestingar ársins námu 29,2 milljörðum króna. Samstæðuársreikningur Orkuveitunnar var samþykktur af stjórn í dag. Innan Orkuveitunnar eru, auk móðurfélagsins, Veitur, Orka náttúrunnar, Ljósleiðarinn og Carbfix. Tekjur jukust um 10,1% milli ára, framlegð um 3,8%  en veltufé frá rekstri stendur nánast í stað. Aukning varð á fjármagnskostnaði milli áranna 2022 og 2023 um 29,7%, en lánsfé er að langmestu leyti sótt á innlendan markað.

Stjórn leggur til við aðalfund að greiddur verði arður sem nemur sex milljörðum króna, þó þannig að tveir milljarðar verði skilyrtir því að áform um sölu hlutafjár í Ljósleiðaranum og Carbfix gangi eftir.

Samstæðuársreikningur Orkuveitunnar er gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla, IFRS, og inniheldur í fyrsta skipti bókhald samkvæmt flokkunartilskipun ESB. Orkuveitan gefur einnig út í dag Áhrifaskýrslu grænnar fjármögnunar 2023 með áritun endurskoðenda.

Straumhvörf

Veruleg umskipti urðu í forystu Orkuveitunnar á árinu og síðla árs samþykkti stjórn fyrir sitt leyti nýja heildarstefnu. Sævar Freyr Þráinsson tók við forstjórastarfinu fyrir tæpu ári og hann segir nýja stefnu marka straumhvörf. Hann segir orkuskiptin vera í senn eitt allra stærsta og mikilvægasta verkefni í sögu mannkyns en að það sé einnig flókið og brýnt. „Orkuskipti lýsir samt ekki nægjanlega vel þeim tækifærum sem við sem samfélag búum yfir,“ segir Sævar Freyr. „Þetta snýst um að breyta framleiðsluaðferðum, samgöngum, almennum lifnaðarháttum og finna nýjar leiðir til að hreyfa samfélög áfram til meiri árangurs – í sátt við náttúruna. Við í Orkuveitunni erum tilbúin til að takast á við þær áskoranir sem Ísland og heimurinn allur stendur frammi fyrir,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitunnar.

Samhliða innleiðingu nýrrar stefnu hefur ásýnd Orkuveitunnar tekið breytingum og nýtt skipulag móðurfélags Orkuveitunnar verið kynnt starfsfólki.

Í fremstu röð í loftslagsmálum

Á árinu 2023 komst Orkuveitan í fremstu röð fyrirtækja í loftslagsmálum. Fyrirtækið er með einkunnina A- hjá hinu alþjóðlega Carbon Disclosure Project. Þá hefur Science Based Targets initiative staðfest að loftslagsmarkmið Orkuveitunnar séu í samræmi við markmið Parísarsáttmálans. Í gær var því svo fagnað að loftslagsbókhald Orkuveitunnar, sem gert er samkvæmt hinum alþjóðlega ISO-14064-1 staðli, hlaut alþjóðlega óháða vottun. Orkuveitan er þar með fyrsta íslenska fyrirtækið til að njóta svo víðtækrar viðurkenningar á réttmæti loftslagsbókhalds síns.

Enn kemur langmest af losun Orkuveitunnar á gróðurhúsalofttegundum úr gufunni sem nýtt er í virkjunum á Hengilssvæðinu en á árinu hófst föngun og förgun koldíoxíðs á Nesjavöllum. Á árinu 2025 mun losun frá Hellisheiðarvirkjun verða hverfandi. Stefnt er að kolefnishlutleysi eigin starfsemi árið 2030 og vegna aðfangakeðjunnar einnig árið 2040.

Verðbreytingar sérleyfisþjónustu

Viðfest línurit sýnir þróun gjaldskrá sérleyfisþjónustu Orkuveitunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem Veitur sjá um. Samanlagt hafa gjaldskrárnar lækkað verulega að raungildi frá því uppskipting fyrirtækisins var gerð að lagaskyldu árið 2014. Vísitala neysluverðs er sýnd sem flöt lína og gjaldskrárþróunin frá upphafi árs 2014 miðað við hana.

Rafræn samþætt Ársskýrsla gefin út

Samhliða ársreikningi kemur út Ársskýrsla Orkuveitunnar 2023. Í skýrslunni er nákvæm grein gerð fyrir umhverfisþáttum reksturs Orkuveitunnar á síðasta ári, samfélagslegum þáttum og stjórnarháttum, auk ýmissa mikilvægra fjárhagslegra mælikvarða. Ársskýrslan er tekin út af óháðum aðilum og árituð af forstjóra og stjórn. Hana má finna á slóðinni arsskyrsla2023.or.is.


Viðhengdar skrár: 

  • Samstæðuársreikningur Orkuveitunnar 2023 á pdf-sniði.
  • Áhrifaskýrsla grænnar fjármögnunar Orkuveitunnar 2023 (á ensku)
  • Zip-skrá með Samstæðuársreikningi Orkuveitunnar 2023 á sameiginlegu rafrænu skýrslusniði – (ESEF).
  • XHTML-viewer skrá.


Tengiliður:

Sævar Freyr Þráinsson
forstjóri Orkuveitunnar
saevar.freyr.thrainsson@orkuveitan.is


Viðhengi


Þróun gjaldskráa veituþjónustu 2014-2024

Attachments

Orkuveitan - Green Finance Impact Report 5493004ARP9VPUIX5B73-2023-12-31-is (1) 5493004ARP9VPUIX5B73_20231231_viewer (1) Samstæðuársreikningur Orkuveitunnar 2023