Eimskip: Afkoma fyrsta ársfjórðungs 2024


Helstu atriði í afkomu fyrsta ársfjórðungs 

  • Hægagangur í upphafi árs, í bland við krefjandi markaðsaðstæður, settu svip sinn á afkomu fjórðungsins, einkum vegna lakari afkomu af áætlunarsiglingum.
    • Afkoma áætlunarsiglinga litast af verulegri lækkun Trans-Atlantic flutningsverða frá fyrra ári ásamt minna flutningsmagni á Íslandi, Færeyjum og Trans-Atlantic.
    • Góð rekstrarniðurstaða í alþjóðlegri flutningsmiðlun þrátt fyrir lítillega lækkun frá fyrra ári eins og við var búist.         
  • Tekjur námu 195,9 milljónum evra og lækkuðu um 18,7 milljónir evra eða 8,7% samanborið við fyrsta ársfjórðung 2023.
    • Helstu ástæður á bak við lækkun tekna eru lægri Trans-Atlantic verð og magn ásamt minna innflutningsmagni til Íslands og Færeyja og breyttar markaðsaðstæður á Íslandi, t.d. engin loðnurvertíð, skörp minnkun á innflutningi bíla og aukinn útflutningur á úrgangi til endurvinnslu.
  • Rekstrarkostnaður nam 181,7 milljónum evra og lækkaði um 1,1 milljónir evra eða 0,6% frá sama ársfjórðung 2023.
    • Olíukostnaður lækkaði bæði vegna lægra verðs og minni notkunar.
    • Launakostnaður jókst um 2,5 milljónir evra milli ára sem jafngildir 7,1% hækkun vegna almennra launahækkana en starfsmannafjöldi var óbreyttur á milli tímabila.
  • EBITDA rekstrarhagnaður fjórðungsins nam 14,2 milljónum evra samanborið við 31,8 milljónir evra á fyrsta ársfjórðungi  2023 sem var besti fyrsti ársfjórðungur í sögu félagsins. EBITDA hlutfall var 7,3% samanborið við 14,8% á sama fjórðungi fyrra árs.
  • EBIT fyrir ársfjórðunginn nam EUR -0,9 milljónum samanborið við EUR 15,8 milljónir í Q1 2023.Hagnaður eftir skatta nam 0,5 milljónum evra á fjórðungnum samanborið við 12,5 milljónir evra á sama tímabili fyrra árs.

VILHELM MÁR ÞORSTEINSSON, FORSTJÓRI

“Árið fór hægt af stað vegna krefjandi markaðsaðstæðna sem settu svip sinn á afkomu fyrsta ársfjórðungs 2024. Litið á einstaka starfsþætti, þá  liggur lækkun á EBITDA frá fyrra ári einkum í mun lakari afkomu af rekstri gámasiglingakerfisins. Það er hefðbundið að fyrsti ársfjórðungur sé rólegri í gámaflutningum til og frá Íslandi og Færeyjum, en í ár jókst magnið hægar en við bjuggumst við, þegar líða fór á fjórðunginn, sem olli samdrætti í magni á þessum tveimur mikilvægu mörkuðum samanborið við fyrra ár. Í Trans-Atlantic flutningum dróst magnið einnig umtalsvert saman frá sama fjórðungi fyrra árs, en hins vegar jókst það lítillega samanborið við fjórða ársfjórðung 2023.  Við sjáum merki um að Trans-Atlantic magnið sé að taka við sér eftir tímabil lækkunar, sem má að hluta til rekja til söluátaks í alþjóðlega skrifstofunetinu okkar. Á Íslandi, höfðu markaðsaðstæður neikvæð áhrif á meðalflutningsverð, m.a. vegna loðnubrests á sama tíma og útflutningur á úrgangi til endurvinnslu jókst verulega frá fyrra ári. Í Færeyjum dróst einkaneysla saman um mitt síðasta ár sem hefur valdið samdrætti í innflutningsmagni en útflutningsmagn hefur haldist sterkt sem byggir á stöðugleika í framleiðslu á eldislaxi og almennt góðum fiskveiðum. Í Noregi sáum við magnið í frystiflutningskerfinu taka við sér samhliða veiðum á bolfiski, en aftur á móti hefur strandflutningur aukist á kostnað útflutnings sem hefur valdið nokkurri  lækkun á meðalflutningsverðum.

Alþjóðlega flutningsmiðlunin okkar skilaði ágætri afkomu í fjórðungnum þrátt fyrir lækkun frá fyrra ári eins og vænst var. Magnið jókst um 7% frá sama fjórðungi síðasta árs, á meðan framlegð dróst saman eins og við var búist vegna breyttra markaðsaðstæðna. Alþjóðlegir skipaflutningar hafa að einhverju leyti náð að aðlagast breyttu landslagi í kjölfar árása skæruliða á flutningaskip í Rauðahafinu. Við erum samt sem áður að sjá miklar sveiflur á alþjóðlegum flutningsverðum sem eru verulega hærri en fyrir  þessa atburði sem lokuðu í raun á skipaumferð um Suez skurðinn.

Við höfum haldið áfram að finna fyrir almennum kostnaðarhækkunum með talsverðum launahækkunum og almennum verðbólguáhrifum á ýmsa rekstrarkostnaðarliði. Þessar hækkanir eru ein helsta ástæða þess að við sjáum þrýsting á framlegð úr rekstrinum, á sama tíma og tekjur hafa gefið eftir vegna markaðsaðstæðna. Við erum sem betur fer byrjuð að sjá ávinning af nýlegum siglingarkerfisbreytingum nú í öðrum ársfjórðungi og erum jafnframt að vinna að ýmsum hagræðingarverkefnum víða í samstæðunni, m.a. fækkun stöðugilda í gegnum starfsmannaveltu og samningum við helstu birgja til að draga úr kostnaðarþrýstingi. Það er álitaefni að af okkar mikla fjölda af öflugum birgjum og samstarfsaðilum telja kostnaðarhækkanir af hálfu opinberra aðila og fyrirtækja í opinberri eigu á Íslandi verulega.

Við erum ánægð að sjá góða útkomu úr nýlegri þjónustukönnun viðskiptavina sem hvetur okkur ótrauð áfram að þróa og veita framúrskarandi flutningaþjónustu. Ánægju viðskiptavina má ekki síst þakka okkar breiða hópi af reynslumiklu starfsfólki, sem sýna seiglu og frumkvæði þegar kemur að því takast á við ýmsar áskoranir, finna lausnir og skila árangri. Þá gleður mig jafnframt niðurstaðan úr nýlegri starfsmannakönnun okkar sem sýnir að starfsánægja er há og mælist hærri en meðaltal samanburðarfyrirtækja sem endurspeglar jákvæða vinnumenningu okkar.

Annar ársfjórðungur byrjaði betur en sá fyrsti og við höfum á allra síðustu vikum séð magnið aukast töluvert eins og hefðbundið er á þessum árstíma og við reiknum með að líðandi ársfjórðungur verði töluvert betri en sá síðasti þegar litið er til afkomu. Horfur á Íslandi eru blendnar, við gerum ráð fyrir áframhaldandi stöðugum innflutningi þó lítillega lægri en á síðasta ári. Útflutningur á fiski frá Íslandi hefur verið sterkur, en við gerum ráð fyrir að það dragi úr magni eftir því sem líður á fjórðunginn þar sem lítið er óveitt af bolfiskkvóta en við reiknum þó með að strandveiðar, sem hófust í maí, gangi vel og vegi þar nokkuð upp á móti. Við sjáum einnig iðnaðarframleiðslu á Íslandi vera aftur komna í stöðug og full afköst sem hefur jákvæð áhrif á magnið. Við erum nokkuð bjartsýn fyrir Trans-Atlantic flutningana og við sjáum jákvæða þróun bæði í magni og verðum, þó að flutningsverðin séu enn þá langt undir því sem þau voru árið 2022 og á fyrri hluta 2023. Horfur í alþjóðlegri flutningsmiðlun eru einnig ágætar, magnið er sterkt og framlegð almennt með ágætum.“

KYNNINGARFUNDUR 8. MAÍ 2024

Stjórn Eimskipafélags Íslands hf. samþykkti árshlutareikning samstæðu Eimskips fyrir fyrsta ársfjórðung 2024 á stjórnarfundi þann 7. maí 2024. Kynningarfundur fyrir fjárfesta og markaðsaðila verður haldinn miðvikudaginn 8. maí kl. 8:30 í höfuðstöðvum félagsins Sundabakka 2, 2. hæð. Fundurinn verður einnig rafrænn og verður honum streymt beint á fjárfestasíðu Eimskips www.eimskip.com/investors.

Þar munu Vilhelm Már Þorsteinsson forstjóri og María Björk Einarsdóttir fjármálastjóri kynna uppgjör félagsins fyrir fyrsta ársfjórðung 2024. Uppgjörsgögn og upptöku af fundinum verður einnig hægt að nálgast á fjárfestasíðunni.

FREKARI UPPLÝSINGAR

María Björk Einarsdóttir, fjármálastjóri , sími: 774 0604, netfang: investors@eimskip.com

Guðbjörg Birna Björnsdóttir, forstöðumaður fjárstýringar og fjárfestatengsla, sími 844 4752, netfang investors@eimskip.com

TIL ATHUGUNAR FYRIR FJÁRFESTA

Eimskip vekur athygli á því að staðhæfingar sem finna má í þessari afkomutilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna við birtingu tilkynningarinnar. Eðli málsins samkvæmt fela slíkar staðhæfingar í sér óvissu. Athygli fjárfesta er vakin á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi félagsins og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í tilkynningunni. Þessi tilkynning verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar. Staðhæfingar sem finna má í þessari afkomutilkynningu gilda eingöngu á því tímamarki þegar tilkynningin er fyrst birt og takmarkast gildi þeirra við sem segir í fyrirvara þessum.

Viðhengi



Attachments

Eimskip - Condensed Consolidated Interim Financial Statement Q1 2024 Eimskip - Q1 2024 Financial Results Presentation