Uppgjör Brims á fyrsta ársfjórðungi 2024


Guðmundur Kristjánsson, forstjóri:

„Gæftir voru erfiðar á fyrstu þremur mánuðum ársins. Kolmunnaveiðin gekk ágætlega en loðnan lét ekki sjá sig. Loðnubrestur hefur alltaf mikil áhrif á afkomu félagsins á þessum ársfjórðungi. Afkoman núna er áþekk og á árum áður þegar lítið sem ekkert hefur veiðst af loðnu.

Félagið hefur í dag gengið frá samkomulagi um kaup á frystitogaranum Ilivileq frá Arctic Prime Fisheries í Grænlandi fyrir 55 milljónir evra. Skipið mun styrkja frekar bolfiskveiðar félagsins en þær og vinnsla þeirra var eins og við reiknuðum með á árinu. Afurðaverð hækkaði á sjófrystum afurðum en verð á landfrystum afurðum stóð í stað. Markaðir okkar eru áfram erfiðir. Óvissa vegna stríða er enn til staðar og fjármunir eru áfram dýrir sem dregur bæði úr neyslu og uppbyggingu.

Þegar við horfum hingað heim á þætti sem hafa breyst og hafa áhrif rekstur Brims blasir við að við vorum ekki undir það búin að raforka til að knýja fiskimjölsverksmiðju okkar á Vopnafirði yrði ekki fáanleg. Það kom okkur í opna skjöldu að við þyrftum að gera langtímasamninga um raforkukaup til að tryggja þá raforku sem við þyrftum. Ekki hvarflaði að okkur þegar Brim á sínum tíma fjárfestum í búnaði til að knýja fiskmjölsverksmiðju okkar með rafmagni að í framtíðinni yrði búið að selja það mikla raforku í langtímasamninga við stórnotendur að orkan yrði uppseld og ófáanleg. Þá skal því haldið til haga að fyrirkomulag langtímasölusamninga raforku tekur ekki tillit til óvissu um aflabrögð og náttúrulegra sveiflna í nýtingu endurnýjanlegra auðlinda, líkt og fiskistofnarnir við Ísland eru. Vegna þess hefur Brim þurft að kaupa tvær díselrafstöðvar og komið þeim fyrir og rekið í miðjum Vopnafjarðarbæ. Við það hefur kostnaður aukist og kolefnissporið stækkað en félagið hefur á undanförnum árum lagt metnað sinn í að minnka kolefnissporið. Mikilvægt er að breytingar á raforkulögum og þróun raforkumarkaðar á Íslandi styðji vegferð fyrirtækja í loftslagsmálum og markmið raforkulaganna um eflingu atvinnulífs og byggðar í landinu. Eða kemur að því á næstunni að Brim og önnur fyrirtæki á Íslandi þurfi að kaupa rafmagn af stóriðjunni á uppsprengdu verði þar sem stóriðjan hefur gert langtíma raforkusamninga við Landsvirkjun en íslenskt atvinnulíf og almenningur ekki ?“

Starfsemin á 1F2024

Bolfiskveiðar og vinnsla félagsins gengu samkvæmt áætlun, að undanskildum veiðum á ufsa, einnig var þorskveiði í Barentshafinu töluvert lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir á tímabilinu. Skip félagsins veiddu tæplega 11 þús. tonn af bolfiski. Afurðaverð á sjófrystum afurðum styrktist á tímabilinu og var í lok tímabils hærra en áætlanir gerðu ráð fyrir. Afurðaverð á landunnum bolfiskafurðum stóð í stað eða lækkaði samanborið við sama tímabil í fyrra, þorskverð eru stöðug á meðan karfaverð hafa gefið eftir.

Uppsjávarveiðar skipa Brims hófust í janúar á kolmunna í færeysku lögsögunni.  Kolmunnaveiðar voru stundaðar til loka febrúar og veiddust um 18 þúsund tonn á þeim tíma og var aflanum landað í fiskmjölsverksmiðju félagsins á Vopnafirði. Því miður fannst loðna ekki í nægjanlegu magni til að gefa út kvóta til veiða í ár og lágu því skipin við bryggju í mars.

Helstu atriði úr fjárhagsuppgjöri 1F 2024

  • Vörusala var 94,5 m€ á fjórðungnum samanborið við 113,4 m€ á fyrsta fjórðungi 2023
  • Hagnaður var 4,5 m€ á fjórðungnum samanborið við 18,9 m€ á fyrsta fjórðungi 2023
  • EBITDA var 12,0 m€ og EBITDA hlutfall 12,8%
  • Eignir hækkuðu um 3 m€ frá áramótum og voru 953 m€ í lok tímabilsins
  • Eigið fé þann 31. mars 2024 var 452 m€ og eignfjárhlutfall 47,4%

Rekstur
Seldar vörur námu á 1F 2024 94,5 m€ samanborið við 113,4 m€ árið áður.
Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 12 m€ eða 12,8% af rekstrartekjum, en var 29 m€ eða 25,7% árið áður.
Nettó fjármagnskostnaður var 4,3 m€ en var 3,3 m€ á fyrsta fjórðungi 2023.
Hagnaður fyrir tekjuskatt var 5,2 m€, samanborið við 23,5 m€ á fyrsta fjórðungi 2023. Tekjuskattur nam 0,7 m€, en var 4,7 m€ árið áður. Hagnaður tímabilsins varð því 4,5 m€ en var 18,9 m€ árið áður.

Efnahagur
Heildareignir félagsins námu  953 m€ í lok 1F 2024. Þar af voru fastafjármunir 780 m€ og veltufjármunir 173 m€.
Eigið fé nam 452 m€ og var eiginfjárhlutfall 47,4%, en var 49,8% í lok árs 2023. Heildarskuldir félagsins voru 501 m€ í lok fjórðungsins og hækkuðu um 24 m€ frá áramótum.  Arður sem samþykktur var á aðalfundi og greiddur þann 30. apríl hefur verið skuldfærður í efnahagsreikningi 31. mars 2024.

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri nam 13,4 m€ á fyrsta fjórðungi ársins, en var 17,3 m€ á fyrsta fjórðungi 2023.Fjárfestingarhreyfingar voru 1,5 m€ og fjármögnunarhreyfingar voru neikvæðar um 3,3 m€. Handbært fé hækkaði því um 8,7 m€ og var 42,8 m€ í lok tímabilsins.

Meginniðurstöður færðar til íslenskra króna

Séu niðurstöður rekstrarreiknings reiknaðar til íslenskra króna á meðalgengi fyrsta fjórðungs árins 2024 (1 evra = 149,05 ísk) voru tekjur 14,1 milljarðar króna, EBITDA 1,8 milljarðar og hagnaður 0,7 milljarðar. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar til íslenskra króna á gengi 31. mars 2024   (1 evra = 149,9 ísk) voru eignir samtals 142,8 milljarðar króna, skuldir 75,1 milljarðar og eigið fé 67,8 milljarðar.

Hluthafar

Lokaverð hlutabréfa 31. mars 2024 var 77 kr. á hlut og var markaðsvirði félagsins þá 148 milljarðar króna.  Fjöldi hluthafa var 1.827.

Samþykkt árshlutareiknings

Árshlutareikningurinn var samþykktur á stjórnarfundi Brims hf. 23. maí 2024. Árshlutareikningurinn er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS – International Financial Reporting Standards). Árshlutareikningurinn hefur hvorki verið kannaður né endurskoðaður af endurskoðendum félagsins.

Brim hf.

Brim er öflugt sjávarútvegsfyrirtæki sem starfar í sátt við samfélagið og umhverfið. Við stuðlum að verðmætasköpun í sjávarútvegi með vöruþróun, tæknilausnum og öflugu starfsfólki. Við tryggjum með ábyrgum veiðum og vinnslu, þar sem áhersla er á sjálfbærni og nýsköpun, að sjávarútvegur verði áfram burðarstólpi í íslensku samfélagi. Við leitum allra leiða til að lágmarka áhrif starfseminnar á umhverfið hvort sem er á sjó eða í landi.

Fjárhagsdagatal

Annar ársfjórðungur               29. ágúst 2024
Þriðji ársfjórðungur                 21. nóvember 2024
Fjórði ársfjórðungur                27. febrúar 2025

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar veitir Guðmundur Kristjánsson forstjóri, sími 550-1000.

Viðhengi



Attachments

Brim kynning F1 2024 Brim Árshlutareikn 31.03.2024 Afkoma Brims hf 1F 2024