Festa í rekstri og vaxandi fjárfestingar


Árshlutauppgjör Orkuveitunnar eftir fyrstu þrjá mánuði ársins ber með sér festu í rekstri samstæðunnar og vaxandi fjárfestingar í takti við aukna uppbyggingu húsnæðis, vaxandi eftirspurn eftir grænni orku og tækni til að binda kolefni í jörðu. Innan samstæðu Orkuveitunnar eru, auk móðurfélagsins, Veitur, Orka náttúrunnar, Ljósleiðarinn og nýsköpunarfyrirtækið Carbfix. Árshlutareikningur 1. janúar til 31. mars var staðfestur af stjórn Orkuveitunnar í dag.

Fjórðungsvöxtur fjárfestinga

Rekstrarafkoma og framlegð af rekstri Orkuveitunnar hefur verið nokkuð stöðug síðustu ár þrátt fyrir talsverðar breytingar á ytri aðstæðum. Áhættustýring er virk sem dregur úr áhrifum sveiflna vaxtastigs, verðbólgu, gengis og álverðs. Fjárfestingargeta er því talsverð og nú er verið að leggja nýja gufulögn frá Hverahlíð að Hellisheiðarvirkjun og setja upp snjallmælingu á orkunotkun. Þá hefur Orkuveitan verið að tengja nýtt húsnæði sem nú byggist ört, undirbúa uppbyggingu loftslagslausna í fremstu röð og svara með ýmsum hætti aukinni eftirspurn eftir raf- og varmaorku.

Veltufé frá rekstri fyrstu þrjá mánuði ársins nam 8 milljörðum króna og fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum á fyrsta ársfjórðungi jókst frá fyrra ári úr 4,9 milljörðum króna í 6,3 milljarða.

Þar sem er vilji finnum við leiðir

Sævar Freyr Þráinsson forstjóri segir Orkuveituna hafa sett sér metnaðarfull markmið um að leiða nauðsynleg straumhvörf; orkuskipti og bindingu kolefnis frá mengandi iðnaði. „Hvorttveggja í grunnþjónustunni og þróunarverkefnum finnum við vilja fólks til að taka þátt í þessum breytingum. Hlutverk Orkuveitunnar í samfélaginu færir okkur ábyrgð á því að leiða breytingar og finna þessum vilja farveg. Það gildir jafnt um tækifæri til hleðslu rafbíla, að efla almenningssamgöngur, fræða fólk um bætta orkunýtni og að þróa áfram kolefnisbindinguna hjá Carbfix,“ segir Sævar Freyr og bætir við: „Ný heildarstefna Orkuveitunnar og traust fjárhagsstaða eflir viljann til öflugs samstarfs. Þar sem er vilji, finnum við sjálfbærari leiðir.“