Rūta Dabašinskaitė-Vitkė ráðin framkvæmdastjóri fjármálasviðs PLAY
Flugfélagið PLAY hefur ráðið Rūta Dabašinskaitė-Vitkė sem framkvæmdastjóra fjármálasviðs félagsins. Rūta hefur störf í byrjun ágúst en hún hefur 15 ára reynslu af reikningshaldi og fjármálum og 10 ára reynslu af framkvæmdastjórnarstörfum.
Rúta er með meistarapróf í viðskiptafræðum (MBA) og gegndi starfi fjármálastjóra hjá Bluebird Nordic frá árinu 2021 til 2024 þar sem hún hafði starfsstöð bæði í Vilníus í Litháen og Reykjavík. Þar á undan starfaði hún sem forstjóri TD Baltic UAB sem er einn af stærstu dreifingaraðilum upplýsingatækni í Eystrasaltsríkjunum.
„Ég er afar þakklát fyrir að fá tækifæri til að leiða fjármálasvið PLAY. Félagið hefur tekið miklum framförum undanfarin ár og er ég full eftirvæntingar að fá að taka þátt í frekari framþróun félagsins. Ég trúi því að víðtæk reynsla mín úr atvinnulífinu og flugrekstri muni koma félaginu að gagni,“ segir Rūta.
„Það er mikill fengur fyrir okkur að fá Rūta til liðs við PLAY. Henni fylgir mikil reynsla af alþjóðlegum flugrekstri sem mun sannarlega nýtast okkar flugfélagi vel. Hún verður góð viðbót við sterkan stjórnendahóp okkar og ég er sannfærður um að fjármálateymið okkar verður í góðum höndum með hana í fararbroddi,“ segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri PLAY.