Fly Play hf.: Jónína lætur af störfum  




Jónína lætur af störfum  



Jónína Guðmundsdóttir (Nína) hefur óskað eftir að láta af störfum sem framkvæmdastjóri mannauðssviðs flugfélagsins PLAY.  Nína mun láta af störfum í lok júlí en þar til tilkynnt verður um annað mun Jóna Björk Sigurjónsdóttir, forstöðumaður mannauðsdeildar PLAY, halda utan um verkefni sem heyrðu undir Jónínu.   



„Nína hefur verið lykilstjórnandi hjá PLAY síðan félagið var stofnað. Hún hefur verið leiðandi í því að  skapa og þróa góða vinnustaðamenningu þar sem starfað er eftir sterkum gildum. Nína hefur meðal annars haft yfirumsjón með öllum ráðningum fyrirtækisins sem telur nú 550 manns. Félagið státar af frábærum mannauð og býr að sterkum stoðum til framtíðar eftir tíð Nínu hjá PLAY. Ég vil þakka Nínu fyrir frábært framlag til PLAY og óska henni velfarnaðar í komandi verkefnum,“ segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri PLAY.   



„Það að fá að taka þátt í að koma PLAY á laggirnar hefur verið krefjandi en einstaklega gefandi og spennandi verkefni.  Samhliða örri stækkun fyrirtækisins hefur tekist vel að innleiða góða vinnustaðamenningu og ferla sem er afar mikilvægt fyrir ungt fyrirtæki til að blómstra og dafna. Nú þegar sú vinna er að baki finnst mér rétt að láta staðar numið og snúa mér að öðrum verkefnum. Ég er afar þakklát fyrir tíma minn hjá PLAY og vil þakka starfsfólki PLAY fyrir frábær ár og óska þeim alls hins besta,“ segir Nína.