Árshlutareikningur Landsnets hf. fyrir janúar-júní - Rekstur í samræmi við áætlanir þrátt fyrir áskoranir


Árshlutareikningur Landsnets fyrir janúar – júní 2024 var lagður fram í dag.

Rekstur í samræmi við áætlanir þrátt fyrir áskoranir 

Guðlaug Sigurðardóttir framkvæmdastjóri fjármála og árangurs hjá Landsneti segir ánægjulegt að reksturinn hafi gengið vel og sé í samræmi við áætlanir, þrátt fyrir áframhaldandi áskoranir. 

“Rekstur félagsins gekk vel á fyrri hluta ársins og heildarafkoma í takti við væntingar. Í rekstri var gert ráð fyrir nokkurri tekjuaukningu milli ára en skerðingar vegna orkuskorts hafa leitt til lægri tekna á tímabilinu. Verkefni tengd eldsumbrotum á Reykjanesi hafa haft áhrif á forgangsröðun rekstrarverkefna og valdið seinkunum á nokkrum viðhaldsverkefnum sem fyrirhuguð voru.  

Áfram er mikil þörf á uppbyggingu og styrkingu í flutningskerfinu og stór fjárfestingarverkefni eru fram undan. Árið fór rólega af stað en á næstu mánuðum eru í undirbúningi stærri innkaup vegna nýrra verkefna. Áfram eru áskoranir í aðfangakeðjunni varðandi afhendingartíma, verðhækkanir og aðgengi að vörum. Mikil samkeppni er um aðföng sem tengjast flutningskerfum um allan heim, þar sem flutningsfyrirtæki búa kerfin undir orkuskipti sem krefjast verulegra fjárfestinga. 

Landsnet tók lán hjá Norræna fjárfestingarbankanum, NIB, á fyrri hluta árs og nam lánsfjárhæðin 50 milljónum bandaríkjadala (7 ma.kr.), en bankinn fjármagnar verkefni til uppbyggingar á umhverfisvænum innviðum. Markmið Landsnets að byggja upp sterkara flutningskerfi, stuðla að betri nýtingu auðlinda og auka orkuöryggi fellur því vel að markmiðum bankans. Nú var áhersla á fjármögnun tengivirkja og meðal þeirra verkefna er fyrsta tengivirki Landsnets þar sem búnaður er einangraður með grænu gasi, sem er umhverfisvænni kostur en áður hefur verið í boði. Samstarf Landsnets og NIB hefur verið gott í gegnum árin og sýnir þessi lánveiting enn og aftur það traust sem bankinn hefur á Landsneti og áherslum fyrirtækisins.” 

 

Helstu atriði árshlutareiknings:

Hagnaður Landsnets hf. samkvæmt rekstrarreikningi nam 21,1 m. USD (2.914,1 millj.kr) 1 fyrstu 6 mánuði ársins 2024 samanborið við 14,9 m. USD (2.060,7 millj.kr) á sama tímabili árið 2023.  Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam 34,9 m. USD (4.830,8 millj.kr) samanborið við 29,9 m. USD (4.132,7 millj.kr) árið áður.   

Heildareignir félagsins í lok tímabilsins námu 1.151,1 m. USD (160.100 millj.kr) samanborið við 1.113,6 m. USD (154.887 millj.kr) í lok árs 2023. Heildarskuldir námu í lok tímabilsins 635,8 m. USD (88.432,7 millj.kr) samanborið við 606,1 m. USD (84.298,8 millj.kr) í lok árs 2023.

Eiginfjárhlutfall í lok tímabilsins var 44,8% samanborið við 44,3% í lok ársins 2023. Eigið fé í lok tímabilsins nam 515,3 m. USD (71.667,2 millj.kr) samanborið við 507,5 m. USD (70.588,2 millj.kr) í lok árs 2023.

Handbært fé í lok júní nam 78,6 m. USD (10.860,1 millj.kr) og handbært fé frá rekstri á tímabilinu nam 45,1 m. USD (6.239,7 millj.kr).

 

Nánar á www.landsnet.is  þar sem hægt er að nálgast ársreikninginn.

Nánari upplýsingar gefur Guðlaug Sigurðardóttir framkvæmdastjóri fjármála og árangurs Landsnets, sími 563-9300 eða á netfanginu gudlaugs@landsnet.is

Um Landsnet

Landsnet tók til starfa árið 2005 og ber ábyrgð á flutningskerfi raforkunnar, einum af mikilvægustu innviðum samfélagsins. Hlutverk félagsins er að annast flutning raforku á Íslandi, uppbyggingu flutningskerfisins og stjórnun raforkukerfisins.


1 Til viðmiðunar eru sýndar íslenskar krónur, notast var við meðaltal miðgengis Seðlabanka fyrir tímabilið USD/ISK 138,24 fyrir rekstrartölur en lokagengi miðgengis Seðlabanka þann 30. júní 2024 USD/ISK 139,09 fyrir efnahagstölur.

 

Viðhengi



Attachments

Landsnet árshlutareikn 300624 Tilkynning til Kauphallar - Landsnet árshlutareikningur 30.06.24