Niðurstaða rekstrar á fyrri hluta ársins er í takti við útgefnar horfur um afkomu. Rekstrarhagnaður nam 5.242 millj. kr. og heildarhagnaður 9.253 millj. kr. á fyrri árshelmingi. Leigutekjur og rekstrarhagnaður vaxa umfram verðlag og hefur lækkun verðbólgu undanfarið haft jákvæð áhrif á fjármagnsgjöld samanborið við fyrra ár. Matshækkun fjárfestingareigna á fyrri hluta ársins var kröftug og nam tæpum 12,3 milljörðum króna. Heildareignir samstæðunnar voru 212.441 millj. kr. og eigið fé 66.381 millj. kr. í lok júní s.l.
Fjárfest fyrir tæpa 6 ma.kr. á fyrri árshelmingi í takti við nýja stefnu
Reitir kynntu nýja stefnu í maí s.l. þar sem sjónum er í ríkara mæli beint að vexti eignasafnsins, þróunarverkefnum með sjálfbærni í forgrunni og fjárfestingu í fjölbreyttari eignaflokkum. Samhliða innleiðingu stefnunnar voru sett fram átta mælanleg markmið sem styðja við stefnuna og falla að áherslu á drifkraft og þekkingu, sjálfbærni, framúrskarandi rekstur, vöxt og arðsemi.
Áformum félagsins um stækkun eignasafnsins hefur verið fylgt eftir af krafti og hefur félagið á fyrstu sex mánuðum ársins fjárfest innan og utan eignasafnsins fyrir tæpa sex milljarða. Keypti félagið m.a. húsnæði fyrir dagdvöl aldraðra og safn verslunarhúsnæðis miðsvæðis í Reykjavík auk þess að fjárfesta í uppbyggingu nýs Hyatt Centric hótels við Laugaveg 176 og stækkun Klíníkurinnar í Ármúla. Eftir lok reikningsskilatímabilsins hefur félagið fjárfest í eignum fyrir 1,4 milljarða og önnur viðskipti að fjárhæð tæpir 1,5 milljarðar eru í vinnslu.
Guðni Aðalsteinsson, forstjóri:
„Þekking og fjárhagslegur styrkur Reita eru að nýtast vel í þróun innviða sem samfélagið þarfnast. Nýlega undirritað rammasamkomulag um uppbyggingu fimm hjúkrunarheimila með samtals um 400-600 rýmum á næstu árum er gott dæmi um slíka framkvæmd. Heildarumfang samstarfsins gæti numið 24 til 36 milljörðum króna.
Framvinda í þróunarverkefnum félagsins hefur verið góð. Hafin er gríðarlega spennandi uppbygging nýs atvinnuhverfis á sveitarfélagamörkum Reykjavíkur og Mosfellsbæjar. Svæðið, sem er um 90 þúsund fermetrar og hefur fengið nafnið Korputún, er einstakt því það verður fyrsta BREEAM Communities vistvottaða atvinnuhverfið á Íslandi. Mikill áhugi er á verkefninu enda einstök staðsetning og afar áhugavert skipulag sem felur í sér uppbyggingaráform sem munu höfða til fjölbreyttra fyrirtækja.
Við hlökkum til að tilkynna um samstarf við tvö stórfyrirtæki í smásölugeiranum varðandi húsnæði í Korputúni. Annarsvegar er um að ræða sölu lóða með um 17 þúsund fermetra byggingamagni. Hinsvegar er um að ræða matvöruverslun sem verður kjölfesta í verslunarkjarna svæðisins auk þess að koma til með að þjóna íbúum í nýju aðliggjandi hverfi sem er í þróun í Blikastaðalandi.“
Árshlutauppgjör fyrri árshelmings 2024
Stjórn Reita hefur samþykkt árshlutareikning samstæðunnar fyrir fyrri hluta ársins 2024. Lykiltölur uppgjörsins eru eftirfarandi:
Lykiltölur rekstrar | 6M 2024 | 6M 2023 |
Leigutekjur | 7.941 | 7.351 |
Rekstrarkostnaður fjárfestingareigna | -2.177 | -2.062 |
Stjórnunarkostnaður* | -448 | -381 |
Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu* | 5.316 | 4.908 |
Matsbreyting fjárfestingareigna | 12.268 | 10.046 |
Rekstrarhagnaður | 17.510 | 14.954 |
Hrein fjármagnsgjöld | -5.736 | -6.488 |
Heildarhagnaður | 9.253 | 6.747 |
Hagnaður á hlut | 13,00 kr | 9,10 kr |
Lykiltölur efnahags | 30.6.2024 | 31.12.2023 |
Fjárfestingareignir | 208.766 | 189.971 |
Handbært og bundið fé | 2.124 | 1.408 |
Heildareignir | 212.441 | 193.381 |
Eigið fé | 66.381 | 60.273 |
Vaxtaberandi skuldir | 118.089 | 108.432 |
Eiginfjárhlutfall | 31,2% | 31,2% |
Skuldsetningarhlutfall | 58,4% | 58,9% |
Lykilhlutföll | 6M 2024 | 6M 2023 |
Nýtingarhlutfall (tekjuvegið) | 94,8% | 96,0% |
Arðsemi eigna | 5,7% | 5,7% |
Rekstrarhagnaðarhlutfall | 63,5% | 64,1% |
Rekstrarkostnaðarhlutfall | 26,0% | 26,9% |
Stjórnunarkostnaðarhlutfall | 5,3% | 5,0% |
*án einskiptiskostnaðar
Eldur í Kringlu
Um miðjan júní sl. varð eldur laus í þakklæðningu Kringlunnar og varð tjón vegna hans minna en hefði getað orðið. Til viðbótar við lögbundna brunatryggingu hafa Reitir einnig rekstrarstöðvunartryggingu sem er ætlað að ná yfir tjón af þessu tagi, bæði vegna brunans og mögulegs tekjutaps. Mat á umfangi tjónsins stendur yfir og er unnið að úrlausn mála í samstarfi við tryggingafélög. Gert er ráð fyrir að heildarniðurstaða skýrist á næstu mánuðum, þó einstök mál geti tekið lengri tíma.
Félagið metur tryggingastöðu sína vegna brunans góða og mun gefa frekari upplýsingar þegar endanlegt mat liggur fyrir.
Horfur ársins
Horfur ársins 2024 um rekstrarhagnað eru óbreyttar, gert er ráð fyrir að rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu verði á bilinu 10.900 - 11.100 m.kr. Með nýjum eignum hafa horfur um tekjur vaxið og er nú gert ráð fyrir að tekjur ársins verði á bilinu 16.200 - 16.400 m.kr.
Útleiga á stórum rýmum sem eru í framkvæmdum hefur tafist auk aukningar í stjórnunarkostnaði vegna starfsloka og fjölgunar í starfsmannahópnum.
Nánari upplýsingar og kynningarfundur
Reitir bjóða fjárfestum og markaðsaðilum á kynningarfund þar sem Guðni Aðalsteinsson, forstjóri og Einar Þorsteinsson, fjármálastjóri, munu kynna uppgjörið.
Fundurinn verður haldinn kl. 8:30 á morgun, föstudaginn 23. ágúst, á skrifstofu Reita, Kringlunni 4-12, 103 Reykjavík. Fundinum er jafnframt streymt í gegnum netið á slóðinni https://vimeo.com/event/4523313/embed/7abd8fb54d/interaction.
Fjárfestar sem fylgjast með streymi geta sent spurningar sem óskað er eftir að verði teknar fyrir á fundinum á netfangið fjarfestatengsl@reitir.is.
Kynningarefni fundarins er aðgengilegt á fjárfestasíðu Reita www.reitir.is/fjarfestar.
Um Reiti fasteignafélag
Reitir er leiðandi fyrirtæki í fasteignaþróun ásamt rekstri og eignarhaldi atvinnuhúsnæðis. Vöxtur Reita byggir á þróun og fjárfestingu í borgarinnviðum sem styðja við sjálfbært samfélag.
Innan eignasafns Reita eru um 460 þúsund fermetrar atvinnuhúsnæðis sem hýsir fjölbreytta atvinnustarfsemi og ríkisstofnanir. Gagnkvæmur ávinningur Reita, samstarfsaðila og samfélags er lykilþáttur í starfsemi Reita.
Fyrirtækið er almenningshlutafélag skráð í Kauphöll síðan 2015. Eigendur eru að stærstum hluta íslenskir lífeyrissjóðir.
Nánari upplýsingar
Upplýsingar veita Guðni Aðalsteinsson, forstjóri, í netfanginu gudni@reitir.is eða í síma 575 9000 og 624 0000 eða Einar Þorsteinsson, fjármálastjóri í netfanginu einar@reitir.is eða í síma 575 9000 og 699 4416.
Viðhengi