REITIR: Niðurstaða skuldabréfaútboðs 27. ágúst 2024


Skuldabréfaútboði Reita í skuldabréfaflokknum REITIR150534 er lokið.

Um er að ræða verðtryggðan skuldabréfaflokk sem er veðtryggður með almenna tryggingafyrirkomulagi félagsins. Flokkurinn er með lokagjalddaga 15. maí 2034 en endurgreiðsluferli höfuðstóls fylgir 30 ára greiðsluferli með jöfnum afborgunum fram til lokagjalddaga, þegar allar eftirstöðvar greiðast í einni greiðslu. Greiðslur vaxta og afborgana höfuðstóls fara fram á tveggja mánaða fresti.

Alls bárust tilboð að nafnverði 2.955 m.kr. Ákveðið var að taka öllum tilboðum að nafnverði 2.955 m.kr. á ávöxtunarkröfunni 4,09%. Áður hafa verið gefin út bréf að nafnvirði 3.627.024.217 kr. í flokknum.

Gert er ráð fyrir að uppgjör viðskipta fari fram mánudaginn 2. september næstkomandi og að bréfin verði tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland í kjölfarið.

Grunnlýsing, endanlegir skilmálar og önnur skjöl er varða útgáfu skuldabréfaflokksins eru birt á vefsíðu félagsins, reitir.is/fjarfestar. Tilkynningar sem Reitir fasteignafélag hf. birtir í tengslum við viðvarandi upplýsingaskyldu frá birtingu grunnlýsingar má jafnframt nálgast á vefsíðu félagsins.

Íslandsbanki hefur umsjón með útgáfu og sölu skuldabréfanna sem og töku þeirra til viðskipta á aðalmarkaði Nasdaq Iceland.

Upplýsingar veita Einar Þorsteinsson, fjármálastjóri, netfang: einar@reitir.is, sími: 669 4416 og Verðbréfamiðlun Íslandsbanka, vbm@islandsbanki.is