Heimar hf.: Árshlutareikningur fyrstu sex mánuði ársins 2024


Heimar hagnast um 4,3 milljarða á fyrstu sex mánuðum ársins - EBITDA hækkar um 9,5%

Helstu atriði sex mánaða uppgjörs

  • Rekstrartekjur voru 7,2 ma.kr. á fyrstu sex mánuðum ársins og leigutekjur hækka um 8,2% frá fyrra ári sem er tæplega 1,3% meiri aukning en hækkun verðlags á sama tíma.
  • EBITDA nam 4,9 ma.kr. og hækkar um 9,5% m.v. sama tímabil árið 2023.
  • Hagnaður var 4,3 ma.kr. en nam 6,1 ma.kr. á sama tímabili í fyrra.
  • Fjárfestingaeignir voru bókfærðar á 190,8 ma.kr.
  • Matsbreyting fjárfestingaeigna nam um 6,2 ma.kr. á fyrstu sex mánuðum ársins..
  • Handbært fé frá rekstri nam 2,7 ma.kr. og var handbært fé 2,3 ma.kr. í lok tímabils.
  • Vaxtaberandi skuldir voru 118,2 ma.kr. í lok tímabils.
  • Skuldahlutfall var 63% og eiginfjárhlutfall 31% í lok tímabils.
  • Hagnaður á hlut fyrir tímabilið nam 2,36 kr. en var 3,36 kr. á sama tíma í fyrra.

Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Heima

„Rekstur gengur vel og er í takt við áætlanir. Við finnum fyrir sterkri eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði. Tekjuvöxtur leigutekna er 8,2% á fyrstu sex mánuðum ársins sem jafngildir um 1,3% rauntekjuvexti. Heimar hafa fjárfest í uppfærslum á eignasafni og nýjum eignum á undanförnum árum, þessar fjárfestingar eru grundvöllur 8,2% vaxtar leigutekna á fyrstu sex mánuðum ársins. Heildarfermetrum eignasafnsins hefur fækkað um tæp 2% frá árslokum 2022.

Útleiguhlutfall er 97% sem er sambærilegt og verið hefur. Um 45% af tekjum félagsins koma frá opinberum aðilum annars vegar og skráðum fyrirtækjum hins vegar. Vanskil leigutaka eru lág og mörg útleiguverkefni í burðarliðnum.

Á öðrum ársfjórðungi voru undirritaðir leigusamningar um ríflega 17.400 m2 sem er rúmlega tvöföldun frá sama tímabili 2023. Áfram er mjög góð eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði á kjarnasvæðum félagsins. Á síðustu mánuðum hafa bæst við ný atvinnurými á kjarnasvæði Heima í Silfur- og Sunnusmára og Sunnuhlíð á Akureyri.

Vel gekk að ná markmiðum félagsins varðandi útleigu og leiguverð.“

Rekstur og afkoma

Rekstrartekjur námu 7.224 m.kr. fyrstu sex mánuði ársins og þar af námu leigutekjur 6.831 m.kr. Leigutekjur hafa hækkað um 8,2% samanborið við sama tímabil 2023, sem jafngildir tæplega 1,3% raunaukningu. Nokkrar breytingar hafa orðið á eignasafninu á milli ára sem hafa áhrif á leigutekjur. Rekstrarhagnaður fyrir söluhagnað, matsbreytingu og afskriftir (EBITDA) var 4.871 m.kr. sem samsvarar 9,5% hækkun samanborið við sama tímabil 2023. Kostnaður að fjárhæð 100 m.kr. vegna  valfrjáls yfirtökutilboðs í Eik fasteignafélag hf. var gjaldfærður að fullu á öðrum ársfjórðungi.    

Við birtingu ársuppgjörs 2023 birti félagið rekstraráætlun fyrir árið 2024. Í þeirri áætlun var gert ráð fyrir að hækkun verðlags á árinu yrði 6%. Afkomuspá ársins er óbreytt. Leigutekjur eru áætlaðar 13,7-13,9 ma.kr. og EBITDA er áætluð 9,8-10,0 ma.kr.

Eignasafn og efnahagur

Virði fjárfestingareigna félagsins að frádregnum leigueignum er metið á 187.606 m.kr. Safnið samanstendur nú af 99 fasteignum sem alls eru um 374 þúsund fermetrar. Útleiguhlutfall er um 97% miðað við þær tekjur sem 100% útleiga gæfi. Heildarmatsbreyting fyrstu sex mánuði ársins nam 6.229 m.kr.

Umsvif og horfur

Á fyrstu sex mánuðum ársins hafa verið gerðir leigusamningar fyrir um 25.000 m2 sem er aukning um 8.000 m2 m.v. sama tímabil á síðasta ári.

  • Stjórnendur verða varir við mjög góða eftirspurn á atvinnuhúsnæði innan kjarna félagsins. Markmiðum félagsins varðandi útleigu og leiguverð var náð.
  • Í kjölfar undirritunar leigusamnings um nýja heilsugæslustöð á Akureyri fyrir Heilbrigðisstofnun Norðurlands sumarið 2022 hófust framkvæmdir við breytingu og stækkun Sunnuhlíðar 12 á Akureyri, samtals um 4.070 m2 af nýjum og endurbyggðum útleigurýmum. Um 2/3 þessara rýma hafa nú þegar verið leigð út. Ný heilsugæslustöð var afhent leigutaka í febrúar 2024. Framkvæmdir héldu áfram við annan áfanga í Sunnuhlíð 12 þar sem unnið var að standsetningu nýrra rýma sem verða afhentir í áföngum. Sjúkraþjálfun Akureyrar hóf starfsemi í Sunnuhlíð í júní 2024.
  • Framkvæmdum við uppfærslu þriðju hæðar Smáralindar miðar vel. Heimar hafa flutt skrifstofur sínar í hluta rýmisins. Rúmlega 1.000 m2 munu bætast við þá 2.000 m2 sem fyrir eru, af nútímalegu hágæða skrifstofurými. 
  • Búið er að afhenda fjórum viðskiptavinum útleigurými í nýju 1.870 m2 húsnæði við Silfursmára og á næstu mánuðum verða fleiri rými afhent til leigutaka. Búið er að leigja út fimm af níu útleigurýmum í Sunnu- og Silfursmára.
  • Nokkrir stærri samningar voru endurnýjaðir á tímabilinu og má þar nefna Hagkaup í Litlatúni 3 (4.580 m2), Akureyrarbær á Glerárgötu 26 (1950 m2), World Class í Smáralind (2.150 m2) og S4S í Guðríðarstíg 6-8 (1.077 m2).

Sjálfbærni

Heimar fylgjast vel með orkunotkun í eignasafni sínu og vinna að ýmsum verkefnum til að draga úr orkunotkun. Góður árangur hefur náðst með samhentum aðgerðum til lækkunar á orkunotkun t.d. í Smáralind og Egilshöll ásamt lækkun í notkun á vatni í sömu eignum. Samdráttur í orkunotkun hefur bein áhrif á kolefnisspor félagsins þar sem orka myndar stærsta hluta kolefnissporsins.

Fjármögnun

Fjárhagsstaða félagsins er sterk og fjárhagsleg skilyrði innan marka lánaskilmála, eiginfjárhlutfall 31% (skilyrði 25%). Í lok tímabilsins var handbært fé 2.269 m.kr. og auk þess hafði félagið aðgang að ónýttum lánalínum að fjárhæð 4.600 m.kr. í lok tímabilsins.

Endurfjármögnunarþörf félagsins er takmörkuð næstu ár, en engin lán og skuldabréf eru með gjalddaga á árinu 2024. Heildarendurfjármögnunarþörf ársins 2025 eru rúmir 1,2 ma.kr.

Kynningarfundur á árshlutauppgjöri

Samhliða birtingu uppgjörs bjóða Heimar til opins kynningarfundar samdægurs kl. 16:15. Fundurinn verður haldinn í nýjum höfuðstöðvum félagsins í Smáralind, Hagasmára 1, 201 Kópavogi. Boðið verður upp á léttar veitingar.

Halldór Benjamín Þorbergsson forstjóri Heima mun kynna uppgjörið og svarar spurningum að lokinni kynningu. Skráning á kynningarfundinn fer fram í gegnum netfangið fjarfestatengsl@heimar.is. Fundinum verður einnig varpað í gegnum netið á eftirfarandi slóð:

https://www.heimar.is/kynningarfundir/uppgjor-2f-2024/

Hægt er að nálgast árshlutareikning vegna fyrstu sex mánaða ársins og kynningargögn á  https://www.heimar.is/fjarfestar/fjarhagsupplysingar/

Nánari upplýsingar veitir Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Heima hf., sími: 821 0001

Viðhengi



Attachments

Heimar hf. - Árshlutareikningur Q2 2024 Heimar hf. - Tilkynning um uppgjör 2F 2024 Heimar - Fjárfestakynning 2F-24