Með vísan í breytingartillögu Gildis-lífeyrissjóðs sem fram hefur komið í aðdraganda hluthafafundar Haga hf. sem haldinn verður á morgun, föstudaginn 30. ágúst 2024 kl. 10:00, leggur stjórn Haga hf. fram eftirfarandi breytingartillögu á breytingartillögu Gildis varðandi dagskrárlið 1 um kaupréttarkerfi:
Lagt er til að nýtingarverð hvers hlutar samkvæmt kaupréttarsamningi hverju sinni skuli samsvara dagslokagengi hlutabréfa í Högum hf. degi fyrir úthlutun. Nýtingarverð skal einnig leiðrétt með 5,5% árlegum vöxtum (til hækkunar) frá úthlutunardegi og fram að fyrsta mögulega nýtingardegi. Þá er lagt til að kaupréttarhafi geti að hámarki, sem hluti af þessu kerfi, átt rétt á kaupréttarsamningum sem nema 0,18% af hlutafé Haga hf. við samþykkt kerfisins.
Greinargerð stjórnar:
Stjórn telur fram komna breytingartillögu Gildis-lífeyrissjóðs ekki vel til þess fallna að ná settum markmiðum, m.a. um að tvinna saman hagsmuni lykilstarfsmanna Haga hf. og hluthafa félagsins. Á síðustu dögum hafa verið reifuð mismunandi sjónarmið um kaupréttarkerfi í hópi hluthafa og er tillaga stjórnar nú í samræmi við ábendingar frá nokkrum hluthöfum um aðlögun sem sátt gæti verið um. Því er tillagan nú lögð fram til að mæta þessum sjónarmiðum. Breytingartillagan mun lækka kostnaðarmat kaupréttarkerfisins umtalsvert frá upphaflegri tillögu stjórnar. Að öðru leyti er vísað til fyrri greinargerðar stjórnar um tillögu að kaupréttarkerfi.
Viðhengi