- Hagnaður Landsbankans á fyrstu níu mánuðum ársins 2024 nam 26,9 milljörðum króna eftir skatta, þar af 10,8 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi.
- Arðsemi eiginfjár var 11,7% samanborið við 10,5% á sama tímabili árið áður.
- Vaxtamunur sem hlutfall af meðalstöðu heildareigna nam 2,9% og vaxtamunur heimila hækkar úr 2% í 2,1% vegna hækkunar á bindiskyldu.
- Hreinar vaxtatekjur voru 44,1 milljarður króna og hreinar þjónustutekjur voru 8,1 milljarður króna.
- Virðisbreytingar útlána voru neikvæðar um 2,0 milljarða króna, að stórum hluta vegna óvissu um fjárhagslegar afleiðingar náttúruhamfaranna á Reykjanesskaga.
- Kostnaðarhlutfallið var 32,3% samanborið við 34,6% á sama tímabili árið 2023.
- Eiginfjárhlutfall í lok tímabilsins var 24,1% en fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands gerir 20,4% heildarkröfu um eiginfjárgrunn.
- Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands birti í september niðurstöður mats síns um að bankinn væri hæfur til að fara með virkan eignarhlut í TM tryggingum hf. Beðið er niðurstöðu málsmeðferðar Samkeppniseftirlitsins.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir:
„Uppgjörið endurspeglar traustan rekstur og aukin umsvif. Bankinn er í sókn á öllum sviðum og þjónustutekjur eru sterkar, enda höfum við lagt áherslu á að bæta við nýjum þjónustuþáttum og auka hlutdeild bankans. Sífelld þróun á Landsbankaappinu og nýjungar skila sér greinilega í aukinni notkun, ekki síst á meðal ungs fólks. Þetta á til dæmis við um lífeyrissparnað, en samningum um viðbótarlífeyrissparnað við ungt fólk fjölgaði um 17,3% eftir að þessum möguleika var bætt við í appinu.
Þótt notkun á stafrænum lausnum haldi áfram að aukast er mikið leitað til bankans varðandi ráðgjöf og aðra þjónustu í útibúum og þjónustuveri. Við erum með 35 útibú og afgreiðslur um land allt og tökum vel á móti viðskiptavinum en alls voru skráðar um 85 þúsund heimsóknir hjá gjaldkerum og ráðgjöfum bankans á liðnum fjórðungi. Við leggjum áherslu á frumkvæði í samskiptum við viðskiptavini og viðskiptavinir með lán sem voru að koma að lokum fastvaxtatímabils fengu símtal frá bankanum og var boðin ráðgjöf.
Undanfarin ár hefur hærra vaxtastig skilað sér í góðri ávöxtun lausafjár bankans en um leið hefur fjármögnun bankans orðið dýrari, sér í lagi vegna hærri vaxta á innlánum, sem skilar sér beint til viðskiptavina í formi betri ávöxtunar sparifjár. Sem dæmi má nefna að bestu vextir á innlán fyrirtækja hjá bankanum eru nú 8,64% á ári. Vaxtamunur bankans í heild hefur lækkað frá fyrri fjórðungi og vaxtamunur heimila, sem er munur á óbundnum íbúðalánavöxtum og vöxtum á óbundnum sparnaði, er nú 2,1%.
Kröftugur útlánavöxtur á árinu kom okkur aðeins á óvart í ljósi hás vaxtastigs, en vel hefur gengið að fjármagna þennan vöxt og vanskil eru áfram lítil. Heildarútlán bankans hafa aukist um 155 milljarða króna, sem jafngildir um 9,5% vexti. Þar af eru 53,6 milljarðar króna vegna lána til einstaklinga og eru það nær allt íbúðalán. Vegna aukinnar eftirspurnar eftir verðtryggðum íbúðalánum og hærri fjármögnunarkjara á verðtryggðum skuldabréfum, breyttum við framboði á verðtryggðum íbúðalánum, meðal annars í þeim tilgangi að draga úr eftirspurn. Við bjóðum áfram bestu kjörin meðal banka en hættum að veita jafngreiðslulán nema til fyrstu kaupenda. Mánaðarlegar greiðslur verða hærri en ella hjá þeim sem kjósa verðtryggð lán en á móti kemur að eignamyndun verður hraðari. Með þessu móti gátum við haldið vaxtahækkunum hóflegum og við teljum að þessi breyting komi sér betur fyrir langflesta viðskiptavini bankans.
Nýleg græn fjármögnun að upphæð 300 milljónir evra var mjög vel heppnuð og kjörin þau bestu sem íslenskir bankar hafa fengið um nokkra hríð. Hluti af útgáfunni fer í að greiða upp eldri útgáfur sem voru á enn hagstæðari kjörum þannig að heildaráhrifin eru lítillega hærri fjármögnunarkostnaður fyrir bankann.
Við bíðum eftir niðurstöðu úr athugun Samkeppniseftirlitsins á kaupum bankans á TM. Á meðan á biðinni stendur kveða reglur á um takmarkanir á samskiptum starfsfólks fyrirtækjanna. Ef jákvæð niðurstaða fæst mun bankinn ganga frá kaupunum fljótlega í kjölfarið og verkefnið getur hafist af fullum krafti. Með kaupum bankans á TM viljum við veita viðskiptavinum enn betri og fjölbreyttari þjónustu í gegnum allar þjónustuleiðir bankans.“
Fjárhagsdagatal Landsbankans
- Ársuppgjör 2024 30. janúar 2025
- Aðalfundur 19. mars 2025
- 1F 2025 30. apríl 2025
- 2F 2025 17. júlí 2025
- 3F 2025 23. október 2025
- Ársuppgjör 2025 29. janúar 2026
Nánari upplýsingar veita:
Samskipti, samskipti@landsbankinn.is
Fjárfestatengsl, fjarfestatengsl@landsbankinn.is
Viðhengi
- Landsbankinn_fréttatilkynning_30.09 2024
- Landsbankinn_uppgjorskynning_30.09.2024
- Landsbankinn_samandreginn_árshlutareikningur_samstæðu_30.09.2024