Fjármögnunarrammi Orkuveitunnar áfram „dökkgrænn“


Orkuveitan (Orkuveita Reykjavíkur) hefur gefið út nýjan ramma fyrir fjármögnun hinna grænu fjárfestingaverkefna samstæðunnar. Í óháðu mati alþjóðlega matsfyrirtækisins S&P Global á fjámögnunarrammanum fær hann einkunnina dökkgrænn. Það er jafnframt álit S&P að öll sú starfsemi, sem áformað er að fjármagna innan rammans uppfylli strangar sjálfbærnikröfur Flokkunarreglugerðar Evrópusambandsins. Öll grunnstarfsemi innan samstæðu Orkuveitunnar er flokkunartæk samkvæmt flokkunarreglugerðinni nema fjarskiptarekstur Ljósleiðarans, sem fellur utan lýsinga reglugerðarinnar. 

Fjármögnunarramminn er í viðhengi sem og mat S&P Global á honum. Bæði skjölin eru á ensku. 

„Þessi afar góða einkunn sem fjármögnunarramminn fær er okkur mikilvæg,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitunnar. „Orkuveitan ætlar hér eftir sem hingað til að vera leiðandi í grænum umskiptum samfélagsins. Það sést glöggt í nýútgefinni fjárhagsspá samstæðunnar. Samkvæmt henni er stefnt að viðhaldi fyrri orkuskipta með áframhaldandi uppbyggingu traustra veitukerfa en líka að öflun nýrrar orku og svo kolefnisbindingar á stórum skala. Allt kallar þetta á fjármagn og að því leyti sem fyrirtækin innan samstæðunnar ráðast í fjárfestingarnar skiptir mjög miklu máli að það fáist á sem hagstæðustum kjörum. Sú frábæra einkunn sem fjármögnunarramminn fær skiptir miklu máli í því tilliti og ber skipulögðu sjálfbærnistarfi innan Orkuveitunnar gott vitni,“ bætir Sævar Freyr við. 

Orkuveitan var fyrst íslenskra fyrirtækja til að gefa út græn skuldabréf hér á landi, árið 2019, en endurnýja þarf fjármögnunarramma sjálfbærrar skuldabréfaútgáfu á fimm ára fresti. Það er mat stjórnenda Orkuveitunnar að útgáfa grænu skuldabréfanna, sem boðin hafa verið á markaði Nasdaq fyrir sjálfbær skuldabréf, hafi í senn aukið eftirspurn fjárfesta eftir þeim og leitt til hagstæðari lánskjara. Undir fjármögnunarrammann fellur einnig önnur fjármögnun samstæðu Orkuveitunnar á borð við bankalán. Hlutfall fjármögnunar samstæðunnar sem fellur undir rammann er nú um 52%. 

Um leið og græn fjármögnun Orkuveitunnar hefur aukist síðustu ár hefur dregið úr lántökum með ábyrgð eigenda fyrirtækisins. Í árslok 2010 báru eigendurnir – Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð – ábyrgð á 93% lána samstæðunnar. Nú stendur það hlutfall í 24%. 

Tengiliður: 

Snorri Hafsteinn Þorkelsson 
framkvæmdastjóri fjármála Orkuveitunnar 
snorri.hafsteinn.thorkelsson@orkuveitan.is 

Viðhengi



Attachments

Orkuveita Reykjavíkur Green Financing Framework October 2024 Reykjavic Energy_Final SPO Report_30Oct2024