Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (fjármálaeftirlitið) hefur nú veitt VÍS tryggingum hf., dótturfélagi Vátryggingafélags Íslands hf. (Skaga), starfsleyfi í öllum greinarflokkum skaðatrygginga skv. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 100/2016 um vátryggingastarfsemi (vstl.), að frátöldum greiðsluvátryggingum skv. 14. tl. sömu greinar, í samræmi við umsókn félagsins frá 22. desember 2023. Auk þess hefur félagið heimild til að stunda endurtryggingastarfsemi í sömu greinaflokkum skv. 22. gr. vstl.
Samhliða útgáfu starfsleyfis VÍS trygginga komst fjármálaeftirlitið að þeirri niðurstöðu að Vátryggingafélag Íslands hf. væri hæft til að fara með beinan virkan eignarhlut í VÍS tryggingum hf. sem nemur yfir 50% hlutfjár, sbr. 1. mgr. 58. gr. vtsl., eða að svo miklu leyti að það teljist dótturfélag Vátryggingafélags Íslands hf.
Þá hefur fjármálaeftirlitið komist að þeirri niðurstöðu, samhliða útgáfu á starfsleyfi VÍS trygginga hf., að VÍS tryggingar hf. sé hæft til að fara með beinan, virkan eignarhlut í Líftryggingafélagi Íslands hf. sem nemur yfir 50% hlutafjár, sbr. 1. mgr. 58. gr. laga nr. 100/2016 eða að svo miklu leyti að það teljist dótturfélag VÍS trygginga hf.
Fjármálaeftirlitið hefur samhliða umsókn um starfsleyfi unnið að afgreiðslu á beiðni um yfirfærslu á vátryggingastofni frá Vátryggingafélagi Íslands hf. til VÍS trygginga hf., en niðurstöðum þeirrar beiðni er að vænta á næstu dögum.
Framangreint er í samræmi við þá endurskipulagningu sem hefur staðið yfir á samstæðu félagsins á síðustu misserum og kynnt hefur verið og samþykkt af hluthöfum félagsins.
Nánari upplýsingar veitir Haraldur Þórðarson, forstjóri félagins með tölvupósti haraldur@skagi.is