Borgarráð samþykkti á fundi sínum 9. janúar 2025 útgáfuáætlun Reykjavíkurborgar fyrir fyrri hluta ársins 2025. Samkvæmt samþykktri fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 er gert ráð fyrir að lántaka borgarsjóðs nemi allt að 16.500 m.kr. á árinu.
Lántakan verður framkvæmd með stækkun á virkum skuldabréfaflokkum borgarsjóðs, með útgáfu á nýjum skuldabréfaflokkum, ádrætti á erlent lán frá CEB eða með öðrum hætti sem álitinn er hagkvæmur út frá markaðsaðstæðum hverju sinni. Jafnframt kemur til álita að framkvæma skiptiútboð á árinu.
Skuldabréfaútboð Reykjavíkurborgar á fyrri hluta ársins eru fyrirhuguð á eftirfarandi dögum:
- 22. janúar
- 19. febrúar
- 19. mars
- 21. maí
Á árinu 2024 var undirritaður samningur við CEB um allt að EUR 100 milljóna fjármögnun á viðhaldsátaki í húsnæði grunnskóla, leikskóla og frístundar vegna fjárhagsáranna 2023-2028. Í desember 2024 var dregið á lánið, EUR 16 milljónir eða u.þ.b. ISK 2,3 milljarðar. Í samræmi við framvindu á viðhaldsátakinu og með tilliti til markaðsaðstæðna má gera ráð fyrir að dregið verði frekar á lán hjá CEB á þessu ári.
Útgáfuáætlun er lögð fram til að auka fyrirsjáanleika á markaði en Reykjavíkurborg áskilur sér rétt til að bregða út af þessari áætlun, fella niður útboð og/eða bæta við útboðsdögum. Útgáfuáætlunin nær frá janúar til júní 2025.
Tilkynnt verður um fyrirkomulag einstakra útboða í fréttakerfi NASDAQ OMX á Íslandi að lágmarki einum virkum degi fyrir útboð.
Nánari upplýsingar veitir:
Bjarki Rafn Eiríksson
Skrifstofa fjárstýringar og innheimtu
bjarki.rafn.eiriksson@reykjavik.is