Fjárfestingarbanki Evrópu veitir Orkuveitunni 100 milljóna evra lán til uppbyggingar grænna innviða


Fjárfestingarbanki Evrópu (EIB) – loftslagsbanki Evrópusambandsins – og Orkuveitan hafa undirritað lánasamning að fjárhæð 100 milljónir evra, ádráttarbært til næstu tveggja ára. Fjármagnið mun nýtast til uppbyggingar innviða hjá dótturfélagi Orkuveitunnar, Veitum.

Fjármögnunin er liður í langtímaáætlun um styrkingu innviða til að mæta aukinni eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku – varma, rafmagni og heitu vatni – á höfuðborgarsvæðinu. Mikil fjölgun íbúa hefur skapað þörf fyrir nýtt húsnæði og þar með auknar tengingar við veitukerfi, sem kallar á nýjar fjárfestingar og endurnýjun eldri kerfa.

Fjármagnið verður einnig nýtt til að efla orkuöflun hitaveitunnar og styrkja rafdreifikerfið til að mæta vaxandi þörf vegna orkuskipta, aukins hagvaxtar og stefnu Íslands um kolefnishlutleysi árið 2040.

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitunnar:
„Þessi fjármögnun er mikilvægt skref í að tryggja örugga, sjálfbæra og hagkvæma orku fyrir höfuðborgarsvæðið til framtíðar. Með því að efla rafdreifikerfið styrkjum við afhendingaröryggi rafmagns, og með aukinni varmaframleiðslu undirbúum við samfélagið fyrir áframhaldandi vöxt, orkuskipti og kolefnishlutleysi Íslands árið 2040. Þetta er fjárfesting í grunninnviðum sem mun nýtast heimilum, fyrirtækjum og komandi kynslóðum.“

Karl Nehammer, varaforseti Fjárfestingarbankans:
„Langtímafjárfestingar í sjálfbærum orkukerfum eru forsenda fyrir öruggum og hagkvæmum innviðum. Með því að fjármagna innviðaverkefni Orkuveitunnar styður EIB orkuskipti Íslands og hjálpar höfuðborgarsvæðinu að undirbúa áframhaldandi vöxt með hreinni, öruggri og áreiðanlegri orku.“

Lán Fjárfestingarbankans mun hjálpa til við að mæta áskorunum sem geta dregið úr nauðsynlegum fjárfestingum, svo sem neikvæðum umhverfisáhrifum og þörfinni fyrir að tryggja öruggan aðgang að varma og rafmagni – þjónustu sem hefur mikið almannagildi.

Bakgrunnsupplýsingar

Um Fjárfestingarbanka Evrópu (EIB):
EIB er langtímalánastofnun Evrópusambandsins og í eigu aðildarríkjanna. Sem loftslagsbanki ESB fjárfestir EIB í verkefnum sem styðja við stefnumál sambandsins á borð við loftslagsaðgerðir, nýsköpun, sjálfbæra orku, samkeppnishæfni og samfélagslega þróun.

Á árinu 2024 veitti EIB Group – sem samanstendur af EIB og Evrópska fjárfestingasjóðnum (EIF) – nær 89 milljörðum evra í ný lán til yfir 900 verkefna, sem hvöttu til meira en 100 milljarða evra nýrra fjárfestinga í orkuöryggi og samkeppnishæfni Evrópu. Öll verkefni EIB Group eru í samræmi við Parísarsamkomulagið, og um 60% af árlegri fjármögnun beinist að loftslags- og umhverfismálum.

Fyrir frekari upplýsingar:
EIB Group: Thomas Eriksson, fjölmiðlafulltrúi, t.eriksson@ext.eib.org
Orkuveitan: Breki Logason, samskiptastjóri, breki.logason@orkuveitan.is


Recommended Reading